138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:53]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar í þessari umræðu um lagafrumvarp um fjármálafyrirtæki að draga athygli að ákveðnum þáttum þess. Eins og fram hefur komið er þetta frumvarp byggt að einhverju leyti á þeim hugmyndum sem fram komu hjá Kaarlo Jännäri í skýrslu hans til ríkisstjórnarinnar fyrir ári síðan. Þrjú lykilatriði vega þyngst:

Í fyrsta lagi er verið að leggja til að valdheimildir Fjármálaeftirlitsins séu auknar. Í öðru lagi að koma upp útlánaskrá hjá Fjármálaeftirlitinu til að draga úr útlánahættu í fjármálakerfi og til að fá betri yfirsýn yfir stórar áhættuskuldbindingar. Í þriðja lagi er hér verið að leggja til strangari reglur um stórar áhættuskuldbindingar, lánveitingar til tengdra aðila og hæfi eigenda.

Mig langar að rifja aðeins upp hverjar eru helstu breytingar og nýmæli þessa frumvarps. Við gefum hér Fjármálaeftirlitinu auknar eftirlitsheimildir. Við aukum ábyrgð og hlutverk innri eftirlitsdeilda og áhættustýringar. Við leggjum til að halda eigi uppi sérstakri skrá um stærri lántakendur. Við skerpum á ákvæðum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Við leggjum til ný ákvæði um meðferð upplýsinga um viðskiptamenn og þrengjum tímamörk sem fjármálafyrirtæki hafa til að afsetja fullnustueignir. Hér er verið að þrengja og skilgreina nánar skilyrði fjármálafyrirtækja til að mega eiga viðskipti með eigin hluti. Hér er verið að banna lánveitingar með veði í eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum. Hér er verið að setja þrengri skorður um lánveitingar til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna og Fjármálaeftirlitinu er um leið falið víðtækara hlutverk við eftirlit með slíkum viðskiptum. Hér er verið að heimila Fjármálaeftirlitinu að setja reglur um hvernig lán eru tryggð með veði í eignarhlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum. Hér er verið að skýra og þrengja reglur um stórar áhættuskuldbindingar og auka heimildir Fjármálaeftirlitsins til að snúa við sönnunarbyrði við mat á þeim sem hyggjast eignast eða auka við virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Hér er verið að leggja til auknar kröfur til stjórnarmanna, ábyrgð þeirra á eftirliti með rekstri er aukin og bann er sett við starfandi stjórnarformönnum. Við setjum reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við starfsmenn og um leið setjum við reglur um hvernig standa eigi að hvatakerfum, kaupaukakerfum og starfslokasamningum. Sem sagt, hér eru á ferð fjölmörg brýn mál sem við höfum lært af, bæði eftir að hér var hrun á fjármálamörkuðum og ekki síður sem draga má úr niðurstöðum rannsóknarskýrslu þingsins.

Við leggjum til nokkrar breytingar í nefndaráliti og tillögum meiri hluta viðskiptanefndar. Við viljum t.d. breyta nokkru hvað snertir lágmarksfjárhæð hlutafjár og stofnfjár og leggjum til að það verði skilgreint í evrum í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins. Við tryggjum um leið að stofnfé sé örugglega greitt inn með peningum og ef einhverjir vilja stofna fjármálafyrirtæki eða sparisjóð og greiða yfirverð fyrir þann hlut telst sá varasjóður sem við það myndast hluti af eigin fé. Þá leggur meiri hlutinn til að unnt verði að stofna sparisjóð með að lágmarki 1 millj. evra stofnfé en ekki 5 millj. evra stofnfé eins og gildir almennt. Miðað er þá við að slíkir sparisjóðir starfi á staðbundnum, afmörkuðum markaði og tilgreini í umsókn sinni um starfsleyfi hver þeirra staðbundni markaður er. Fjármálaeftirlitið hefur svo lokaorðið um hvað telst vera staðbundinn markaður.

Með þessari breytingu erum við að leitast við að tryggja að lítil fjármálafyrirtæki sem starfa á afmörkuðum mörkuðum þurfi ekki að uppfylla öll þau þröngu skilyrði sem stærri fjármálafyrirtæki þurfa að uppfylla. Við leggjum einnig til að skerpa á ákvæðum um endurskoðunardeildir fjármálafyrirtækja og við styrkjum starfsemina með ýmsum hætti. Við skýrum sömuleiðis ákvæðið um áhættustýringu, annars vegar að fjármálafyrirtæki skuli framkvæma reglulega álagspróf og hins vegar að Fjármálaeftirlitið geti sett frekari reglur um framkvæmd áhættustýringar og atriði tengd henni.

Þá er lagt til í breytingartillögu að við bætist ákvæði um skuldbindingaskrá. Hér er um að ræða vísi að svokallaðri útlánaskrá sem áðurnefndur Kaarlo Jännäri ræddi um í sinni skýrslu en meiri hlutinn telur mikilvægt að slíkri skrá verði komið upp sem allra fyrst að undangengnum nægilegum undirbúningi eftir atvikum á grundvelli sérstakrar löggjafar. Við leggjum til tvenns konar breytingar á þessari grein, að miðað verði við lægri fjárhæð en áður, þ.e. 300 millj. kr. í staðinn fyrir 750, og við tökum út þá tengingu um að tiltekið hlutfall eigi við.

Í 10. gr. er einnig breyting þar sem við leggjum til að Fjármálaeftirlitið setji reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti á fjármálamarkaði. Við hnykkjum á því að reglur Fjármálaeftirlitsins einskorðist við viðskiptahætti samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki en vegna þess hve mikla þjóðhagslega þýðingu starfsemi fjármálafyrirtækja hefur er ástæða til að gera ríkari kröfu til þess hvernig þeim er stjórnað, að þau stundi heilbrigða viðskiptahætti og að þau veiti upplýsingar um stjórnarhætti sína.

Til að tryggja gagnsæi skulu fjármálafyrirtæki sömuleiðis einnig birta upplýsingar um nöfn þeirra sem eiga 5% eða meira í fjármálafyrirtæki. Teljum við mikilvægt að sá listi liggi fyrir. En hafa ber í huga að Fjármálaeftirlitið getur svo krafist þess og fengið betri upplýsingar um þá sem eiga virka eignarhluti þannig að gegnsæi ríkir um hverjir eiga hluti í fjármálafyrirtækjum.

Kveðið er á um það í 11. gr. hvernig fjármálafyrirtækjum ber að halda utan um upplýsingar um viðskiptamenn fjármálafyrirtækja en markmið ákvæðisins er að viðskiptavinur hafi ákveðin úrræði gagnvart fjármálastofnun sem hann er í viðskiptum við er fjallað hefur verið opinberlega um fjármál hans. Á þessu ákvæði erum við að taka.

22. gr. laganna um fjármálafyrirtæki hefur nokkuð verið til umræðu á vettvangi nefndarinnar enda er þar verið að fjalla um heimildir tiltekinna tegunda fjármálafyrirtækja til að stunda aðra starfsemi en starfsleyfi þeirra nær til. Hér er að sjálfsögðu verið að ræða um þann veruleika sem við búum við þegar fyrirtæki í óskyldri starfsemi lenda í fanginu á fjármálastofnunum og þurfa fjárhagslegrar enduskipulagningar við eða annarrar og lenda þannig í eign fjármálafyrirtækisins um tiltekinn tíma. Við umfjöllun um málið komu fram þau sjónarmið innan nefndarinnar að ganga ætti sem lengst í því að takmarka heimildir fjármálafyrirtækja til að reka önnur fyrirtæki þar sem slíkt gæti skekkt samningsstöðu og valdið mismunun milli fyrirtækja. Við erum að leggja hér til að lögfesta heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til að meta hvort skilyrði um heimildir fjármálafyrirtækis til að stunda aðra starfsemi en þá sem starfsleyfið nær til sé fyrir hendi auk þess að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að setja fjármálafyrirtæki tímafrest eða önnur skilyrði til að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu. Við í meiri hlutanum leggjum til þessa breytingu í þeim tilgangi að þrengja frekar heimildir þeirra tegunda fjármálafyrirtækja sem ákvæðið nær til til að stunda aðra starfsemi, þ.e. að halda utan um eignarhlut í fyrirtækjum sem ekki eru á fjármálamarkaði.

Tillaga meiri hlutans lýtur að því að fjármálafyrirtæki rökstyðji tilkynningu sína um aðra starfsemi með ítarlegum hætti og fari að ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti eftir því sem við á og birti þannig mjög ítarlegar upplýsingar um þau fyrirtæki sem þau hafa tekið yfir. Byggist tillaga þessi m.a. á frumvarpi nokkurra þingmanna sem hefur verið lagt fyrir þingið, það er 564. mál þingsins.

Það er ástæða til að rifja upp þau skilyrði sem Samkeppniseftirlitið hefur sent bönkum vegna yfirtöku á fyrirtækjum vegna þess að stór hluti þingmanna er mér sammála, að ég held, um að þessi skilyrði eigi að vera ströng vegna þess að við viljum tryggja að fyrirtæki verði sem allra skemmst í eigu fjármálafyrirtækja. Helstu skilyrðin eru þau að selja skal viðkomandi atvinnufyrirtæki sem allra fyrst. Tryggja ber að yfirtekin fyrirtæki starfi sem sjálfstæðir keppinautar á markaði, að setja eigi viðkomandi fyrirtæki eðlilegar arðsemiskröfur, að bönkum sé óheimilt að hlutast til um viðskipti milli yfirteknu fyrirtækjanna og annarra fyrirtækja sem bankarnir eiga hlut í, bönkum er óheimilt að hlutast til um viðskipti milli yfirteknu fyrirtækjanna og viðskiptamanna bankanna, og eins og við erum að gera hér og þrengja og raunar styrkja að birta skuli ársuppgjör og hálfsársuppgjör yfirtekinna fyrirtækja opinberlega og um leið að tryggja ítarlegt og viðvarandi eftirlit innan bankanna með framkvæmd þessara skilyrða.

Svo segir hjá Samkeppniseftirlitinu:

„Rætt var um það í nefndinni hvort setja ætti fjármálafyrirtækjum eða dótturfélögum ákveðin tímaviðmið til að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu.“

Það er mat undirritaðs, þó að ég sé fylgjandi því að fjármálafyrirtæki eigi að halda utan um eignarhlutann í sem allra skemmstan tíma, að erfitt er að finna eitt tímaviðmið sem á við um allar tegundir fyrirtækja sem eru undir fjárhagslegri endurskipulagningu en fyrirtækin eru mismunandi að stærð og eðli og endurskipulagning þeirra er misjafnlega flókin.

Svo segir í nefndaráliti, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur að þessi tími eigi að vera sem allra skemmstur en segja má að viðmið um sex mánuði gæti í einhverjum tilvikum verið svo skammt að hætt væri við því að eignir færu á brunaútsölu en viðmið um 1,5–2 ár væru hins vegar of langur tími en í undantekningartilvikum gæti svo langur tími átt rétt á sér.“

Það var því mat okkar að ekki væri rétt að tiltaka ákveðinn tímafrest en leggja á það áherslu bæði með því að gefa Fjármálaeftirlitinu ríkari heimildir og um leið að fara í gegnum þá skoðun meiri hluta viðskiptanefndar í nefndarálitinu að fjármálafyrirtæki ætti að halda sem allra skemmst utan um þennan eignarhlut.

Við leggjum til í 17. gr. að fjármálafyrirtæki verði óheimilt að lána til kaupa á hlutabréfum og stofnfjárbréfum í fyrirtækinu ef andlag veðsins eru sjálf hlutabréfin eða stofnfjárbréfin. Það er óheimilt nema samkvæmt ströngum skilyrðum að veita lán til stjórnarmanns, lykilstjórnanda eða eiganda virks eignarhluta. Við leggjum auk þess til að fjármálafyrirtæki skuli tengja saman aðila ef vafi leikur á því hverjir skuli teljast innbyrðis tengdir viðskiptamenn.

Við fórum einnig í gegnum það hversu langan tíma endurskoðandi má starfa fyrir fjármálafyrirtæki og gert er ráð fyrir að hámarkið verði fimm ár. Við tengjum einnig saman endurskoðanda og endurskoðendafélag, að sama gildi um báða aðila, og við leggjum til að endurskoðandi og endurskoðendafélag skuli kjörin á aðalfundi til fimm ára. Hér er samhljómur á milli frumvarps um vátryggingastarfsemi sem nefndin hefur haft til umfjöllunar en þessi mál voru að einhverju leyti keyrð saman í gegnum nefndina enda samhljómur á milli þeirra.

Við leggjum til verulegar breytingar á ákvæðum laga um stjórn fjármálafyrirtækja sem er samhljómur um önnur ákvæði í lögum um vátryggingastarfsemi. Það ber að ítreka hér að við ræddum þó nokkuð mikið á vettvangi nefndarinnar um menntunarkröfur en krafa um háskólapróf er ekki eina skilyrðið sem stjórnarmenn þurfa að uppfylla. Samkvæmt ákvæðinu hefur Fjármálaeftirlitið heimild til að veita undanþágu frá menntunarkröfum á grundvelli reynslu og þekkingar viðkomandi. Við leggjum til takmarkanir á kaupaukagreiðslum og starfslokasamningum og það er mikilvægt að hafa í huga að við leggjum til að Fjármálaeftirlitið setji reglur í þeim efnum, m.a. með tilliti til þróunar á alþjóðavettvangi. Slík umbunakerfi hafa verið mikið í sviðsljósinu hér á landi og erlendis og þegar hafa verið gefin út tilmæli hjá ESB um slík kerfi. Má fastlega reikna með því að ekki líði á löngu þar til fyrir liggja ákveðnar tillögur sambandsins um fyrirkomulag slíkra umbuna eða hvatakerfa. Af ráðnum hug er því lagt til að Fjármálaeftirlitið setji reglur um hvatakerfi svo ekki þurfi að taka ákvæði laganna til sífelldrar endurskoðunar.

En hver eru helstu atriði tilmæla ESB um starfskjarastefnu í fjármálakerfinu? Það er að starfskjarastefnan tryggi að starfsmenn sem taka áhættu séu í samræmi við og stuðli að traustri og skilvirkri áhættustjórnun en hvetji ekki til áhættutöku. Jafnvægi skal vera milli fastra launa og bónusgreiðslna og greiðslu meginhluta bónusgreiðslnanna skal fresta þar til unnt er að taka tillit til sveiflna í viðskiptalífinu. Mælingar á frammistöðu skulu taka til lengri tíma. Fjármálafyrirtæki skulu eiga þess kost að halda eftir bónusgreiðslum að öllu leyti eða hluta þegar mælikvarða um frammistöðu er ekki mætt. Greiðslur vegna starfslokasamninga skulu tengjast frammistöðu sem náðst hefur á lengri tíma og starfskjarastefnan skal vera gagnsæ og skýr og innihalda ákvæði til að draga úr hagsmunaárekstrum.

Það var þó nokkuð rætt á vettvangi nefndarinnar hvort leggja ætti til aðskilnað rekstrar starfsemi fjárfestingarbanka og starfsemi viðskiptabanka eða einkabanka. Meiri hlutinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri rétt að svo komnu að leggja til breytingar í þessa veru. Ástæðan er einkum sú að í frumvarpinu er tekið á fjölmörgum þeim ágöllum sem gagnrýnendur þess kerfis hafa haldið fram að væru á því, t.d. með banni við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða strangari reglur um lánveitingar og viðskipti við hvers konar tengda aðila.

Þá er einnig til þess að líta að ekkert þeirra landa sem lúta sambærilegu regluverki og hérlendis hafa lagt fram tillögur í þessa átt. Rétt er hins vegar að fylgjast náið og vel með þróun lagasetningar erlendis á þessu sviði og draga lærdóm af því sem aðrir hafa staðið frammi fyrir.

Að lokum vil ég segja að í þessu frumvarpi eru lagðar miklar skyldur á Fjármálaeftirlitið. Meiri hlutinn telur mikilvægt að eftirlitinu verði tryggt nægt fjárframlag í samræmi við auknar skyldur. Fjármálaeftirlitið á að hafa fjárhagslegt bolmagn til að sinna þeim verkefnum sem á því hvíla og hvetur meiri hlutinn Fjármálaeftirlitið til að beita af festu þeim valdheimildum sem það hefur nú og því er veitt með þessum ákvæðum, sem og að taka til endurskoðunar hvort nægar fjárheimildir eru til staðar til að Fjármálaeftirlitið geti gert það.

Það er ljóst að í þessu frumvarpi eru lagðar til fjölmargar breytingar til hins betra á íslensku fjármálakerfi en það liggur líka fyrir að frekari breytingar verða gerðar á lögum um fjármálafyrirtæki í framtíðinni. Sú vinna er þegar hafin innan efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og það er ljóst að fjölmarga fleiri lærdóma mætti draga af títtnefndri rannsóknarnefndarskýrslu. En hér er stigið skref í rétta átt og því ber að fagna.