138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Eins og komið hefur fram í þessari umræðu sem var seint í gærkvöldi er margt gott í þessu máli. En hins vegar liggur það alveg fyrir að við förum ekki að ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis um að menn eigi að vera með skýra pólitíska stefnumótun þegar farið er í mál eins og þetta sem er gríðarlegt að burðum og afskaplega mikilvægt að vel takist til og það sé heildarsýn í þessu máli. Það var hins vegar ekki gert í þessu tilfelli og því síður var farið yfir rannsóknarskýrsluna hvað þessa hluti varðar, hún liggur ekki til grundvallar þessari vinnu.

Ég vil spyrja hv. þingmann um einstaka hluti sem eru ekki hér inni og voru ekki ræddir í nefndinni, hvort hv. þingmaður telur ekki mikilvægt að við förum í það minnsta í stóra þætti eins og reglur um hámarkseignarhlut fjármálafyrirtækja, hvort skynsamlegt er að reka fjárfestingarbanka og viðskiptabanka í einu fyrirtæki, einni stofnun, og síðan verkaskiptinguna á milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans, þá sérstaklega hvort ekki er rétt að sameina þessar tvær stofnanir. Ég nefni það hér sérstaklega. Ég get nefnt miklu fleira. En nú þegar við erum að leggja drögin að því að endurvekja traust á íslenskum fjármálamarkaði og undirbyggja til lengri framtíðar, telur hv. þingmaður ekki mikilvægt að við tökum í það minnsta þessi stóru mál fyrir og útkljáum þau þegar við göngum frá lagabálkinum um fjármálafyrirtækin?