138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:11]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hans og gott samstarf á vettvangi nefndarinnar hingað til og vonandi til framtíðar. Ég er sammála hv. þingmanni um að mikilvægt er að ráðast í skýra pólitíska stefnumótun, sem er kannski lykilorðið í umræðu okkar í dag, en það á ekki að koma í veg fyrir að við tökum skref fram á við. Við getum ekki sett samfélag okkar, fjármálamarkað okkar og alla þá starfsemi sem honum tengist í salt á meðan við á þingi ræðum mjög ítarlega um hvers konar fjármálamarkað við viljum hafa á Íslandi. Sú umræða mun taka okkur langan tíma en eins og ég rakti í ræðu minni er verið að leggja til fjölmarga nauðsynlega þætti sem við þurfum að taka á strax og við megum ekki gefa afslátt af því.

Þar sem ég sit í þingmannanefndinni sem tekur á þessari rannsóknarskýrslu hef ég sömuleiðis verið að velta fyrir mér, og er það kannski tilefni til annarrar umræðu, hvernig við skiptum verkum á milli þingmannanefndarinnar og fagnefnda þingsins þegar við förum í gegnum slíka hluti. Þingmannanefndinni ber að taka afstöðu til þess hver næstu skref verða eftir niðurstöður og ályktanir rannsóknarnefndarinnar. Við hljótum því að spyrja: Mun þingmannanefndin leggja til að viðskiptanefnd þingsins taki upp einhver ákveðin atriði eða mun hún leggja til að þau verði tekin upp á öðrum vettvangi?

Ég tel að þau álitaefni sem hv. þingmaður nefndi, spurningin um dreifða eignaraðild eða kjölfestufjárfesta, fjárfestingarbankar, rekstur einkabanka, sem ég fór reyndar aðeins yfir, og verkaskiptingu á milli Fjármálaeftirlitsins og SÍ, séu hluti af þeirri langtímastefnumótun sem þarf að eiga sér stað. En ég ítreka hins vegar að við megum ekki gefa afslátt af nauðsynlegum breytingum sem við þurfum að ráðast í strax.