138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en er nú litlu nær. Það getur ekki verið skoðun virðulegs hv. þingmanns að það tengist einhverri bið. Við erum núna að ganga frá lögum um fjármálafyrirtæki. Það liggur alveg fyrir og það þarf engin þingmannanefnd að fara yfir það, það er ljóst að við gerðum mistök með því að taka ekki ákvörðun um það á sínum tíma hvernig fjármálamarkað við vildum sjá, þar vantaði pólitíska stefnumótun. Við erum að gera þau mistök aftur núna. Við tökum ekki afstöðu til þessara grundvallarspurninga, það er stóra málið. Þegar menn fara yfir rannsóknarskýrsluna komast þeir að þeirri niðurstöðu að það var ekki tekin afstaða til grundvallarspurninganna og það liggur á að taka afstöðu til þess hvernig eignaraðild að bönkum og fjármálafyrirtækjum við viljum sjá. Það liggur á að hafa eftirlitskerfin skilvirk. Þau eru það ekki. Það er ekki ljóst hvernig eftirlitskerfið mun virka og það er ekki einu sinni ljóst hvernig skilin eru á milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans — fjárfestingarbanki og viðskiptabanki. Þetta er eitthvað sem menn ræða af góðri ástæðu og það er engin ástæða til að bíða með þetta. Þetta eru grundvallaratriði. Ég nefndi hérna þrjú grundvallaratriði og við gerðum mistök, það kemur skýrt fram í skýrslunni. Það þarf enginn að velkjast neitt í vafa um það og það hefur svo sem verið umræða um það áður. En í rannsóknarskýrslunni kom fram að það vantaði skýra pólitíska sýn, heildarsýn, á hluti eins og sérstaklega fjármálamarkaðinn út af mikilvægi hans og við erum að gera þau mistök aftur núna. Ég vek athygli hv. þingmanns á þessu. Ég heyri að hann vill ekki svara skýrt hvað þetta varðar en ég hvet til þess að við gerum ekki sömu mistökin aftur.