138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:18]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem aftur í andsvar við þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Hér var sagt að stóru vandamálin væru ekki leyst með þessu frumvarpi, stóru vandamálin sem tiltekin eru í rannsóknarskýrslunni. Eins og ég rakti áðan, og ég ætla að gefa mér smátíma til að ræða það, tökum við á fjölmörgum atriðum í frumvarpinu sem minnst er á í rannsóknarskýrslunni og menn voru svo sem búnir að draga lærdóm af að var meinbugur á og menn þyrftu að taka á, eins og að styrkja Fjármálaeftirlitið og gefa því eftirlitsheimildir, styrkja ábyrgð og hlutverk innri eftirlitsdeilda og áhættustýringar, þrengja starfstíma endurskoðendafyrirtækja, halda skrá um stærri lántakendur til að menn átti sig betur á kerfislægum áhrifum einstakra komi til erfiðleika í rekstri þeirra. Við erum að taka á heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum, við þrengjum og skilgreinum nánar skilyrði til að mega eiga eigin hluti. Við bönnum lánveitingar með veði í eigin hlutabréfum og stofnfjárbréfum, við setjum strangar skorður við lánveitingum til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanna og við gefum Fjármálaeftirlitinu enn víðtækari heimildir til að taka á slíku. Fjármálaeftirlitið fær hér styrk til að setja reglur um hvernig lán sem tryggð eru með veði í eignarhlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum komi til útreiknings á áhættu- og eiginfjárgrunni sem minnst er á í rannsóknarskýrslunni. Við erum að skýra og þrengja reglur um stórar áhættuskuldbindingar, við aukum heimildir Fjármálaeftirlitsins til að snúa við sönnunarbyrði við mat á þeim sem hyggjast auka við virkan eignarhlut, við erum að auka kröfur til stjórnarmanna, ábyrgð þeirra á eftirliti og rekstri. Við erum um leið að setja reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við starfsmenn og setja reglur um hvernig standa megi að hvatakerfum, kaupaukakerfum og um starfslokasamninga. Fjölmörg stór mál sem tekið er á í rannsóknarskýrslunni eru hér undir.