138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:23]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að gefa mér tímann í seinna andsvari til að ræða aðeins um þessa spurningu hv. þm. Birgis Ármannssonar. Það er ljóst að á vegum ráðuneytisins er fylgst mjög grannt með þróun löggjafar um fjármálamarkaði á vettvangi Evrópusambandsins en við sitjum uppi með veikburða þing þannig að þingið sjálft á í erfiðleikum með að hafa frumkvæði að slíku og það er kannski efni í aðra umræðu með hvaða hætti það gerist.

Við erum að ganga ákveðið fram í breytingum á löggjöf okkar. Að einhverju leyti er byggt á reynslu annarra þjóða en að ég held er ekki síður byggt á reynslu okkar sjálfra sem er vel vegna þess að það er mikilvægt fyrir okkur ef við ætlum að takast á við framtíðina að læra af fortíðinni. En hér er því velt upp í andsvörum við mig af hálfu Sjálfstæðisflokksins að það skorti stefnumótun og þá er að einhverju leyti hægt að snúa spurningunni við og spyrja þingmenn Sjálfstæðisflokksins hver sé skoðun þeirra á þeim atriðum sem þeir vilja að tekið verði á, hugmyndum um dreifða eignaraðild, aðskilnað fjárfestingarbanka og einkabanka og fleiri álitamálum. Ég tel að sú umræða þurfi að þroskast ansi mikið í samfélaginu, bæði á vettvangi þingsins, þingnefndanna, innan flokkanna og ekki síður með atvinnulífinu til að við getum tekið réttar ákvarðanir í þeim efnum.