138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:25]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við erum að ræða hér um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki er því miður dálítið dæmigert fyrir fálmkennd vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í endurreisn íslensks viðskipta- og efnahagslífs, enda trúir stór hluti ríkisstjórnarinnar því statt og stöðugt að öll okkar vandamál leysist einhvern veginn með því að ganga í Evrópusambandið. Þannig þarf kannski ekkert mikið að huga að löggjöf eins og um fjármálamarkaðinn þar sem við tökum bara fegins hendi við henni frá Evrópusambandinu.

Það var hins vegar eftirtektarvert í umræðum um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra á föstudag að allur sannfæringarkraftur er farinn úr m.a.s. málflutningi hans, enda fylgir hæstv. utanríkisráðherra eingöngu eftir meirihlutavilja Alþingis og lætur þar við sitja.

Frumvarp hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem við ræðum hér ber þess merki að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa talið sér trú um að ekki sé nauðsynlegt að huga að heildstæðri löggjöf um fjármálamarkaðinn. Afleiðingin er sú að við höfum í höndunum frumvarp sem tekur að sáralitlu leyti á þeim vanda sem við eigum við að glíma, og glímdum við, og kom berlega í ljós við hrun bankakerfisins í október 2008.

Það er auðvitað stór galli á þessu frumvarpi að það skuli hafa verið lagt fram áður en nokkur heildstæð mynd fékkst af því sem leiddi til falls íslensku bankanna og því miður vantar okkur enn í dag mörg púsl til að fá heildstæða mynd af því sem hér gerðist og af hverju fjármálamarkaðurinn hrundi.

Það hefur ekki enn þá verið rannsakað af neinni skynsemi hvað gerðist í rekstri og eignarhaldi sparisjóðanna. Að vísu liggur fyrir þinginu þingsályktunartillaga frá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni o.fl. um skipan nefndar til að rannsaka fall sparisjóða og erfiðleika íslenska sparisjóðakerfisins. Það er mikilvægt að það mál verði afgreitt án tafar. Okkur vantar einnig yfirsýn yfir það hvernig hinir endurreistu bankar hafa stundað viðskipti á síðustu mánuðum, en hv. þingmaður og félagi minn, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur einmitt lagt fram frumvarp þess efnis að það verði kannað ítarlega.

Allt þetta vantar inn í til þess að við getum í rauninni tekið skynsamlega á málum. Niðurstaðan getur því aldrei orðið skynsamleg nema fyrir einhverja guðs lukku og það er kannski vont að stunda löggjafarstörf með því að treysta á guð og lukkuna. Við erum því í einhvers konar bútasaumi til að lappa upp á löggjöf í stað þess að ráðast heildstætt í verkið. Við getum ekki sett lög um fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi og látið þar við sitja. Við þurfum að ráðast í verkið allt. Við þurfum að endurskoða lögin um Seðlabanka Íslands, lög um Fjármálaeftirlitið, um kauphallarviðskipti, um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði, um hlutafélög og lög um endurskoðendur og ársreikninga. Við þurfum sem sagt að endurskoða öll lög sem tengjast fjármálamarkaðnum með einum eða öðrum hætti.

Allt þetta verður að gerast í samhengi hvað við annað og með heildaryfirsýn yfir allt verkið. Annað er bútasaumur sem er eingöngu til þess fallinn að friða samvisku hæstv. ríkisstjórnar og Alþingis. Þetta er líkt og að hlaupa um allt húsið með fötur til að setja undir hriplekt þakið í stað þess að ráðast í verkið, rífa þakið og setja nýtt þannig að húsið verði vatnshelt.

Mér finnst við ekki geta afgreitt ný lög um fjármálafyrirtæki öðruvísi en að við tökum að fullu tillit til þeirra athugasemda sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og án þess að við tökum tillit til þess lærdóms sem við höfum keypt svo dýru verði á undanförnum missirum.

Það er alveg ljóst að við verðum að endurskoða frá grunni löggjöf um fjármálafyrirtæki en því miður erum við ekki að því. Við getum náð þverpólitískri sátt um að fara í heildstæða löggjöf um allt er viðkemur fjármálafyrirtækjum og fjármálamarkaðnum, hvort heldur eru vátryggingafélög, bankar, verðbréfasjóðir, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn eða Kauphöllin. Það verður engin mynd á þessu öðruvísi en að við gerum þetta heildstætt og ítarlega.

Ég vil vitna í nokkur orð sem Styrmir Gunnarsson skrifar í nýrri bók, Hrunadans og horfið fé , en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Bankahrunið er viðburður af þeirri stærðargráðu að æskilegt er að þverpólitísk samstaða náist um aðgerðir í kjölfarið. Þess vegna fer best á því að vinnuhópur eða nefnd skipuð fulltrúum frá öllum flokkum hefji undirbúning að nýrri löggjöf um fjármálakerfið á grundvelli þeirrar vitneskju sem nú liggur fyrir um starfshætti bankanna, starfshætti sem ekki mega endurtaka sig. Á undanförnum mánuðum er búið að leggja mikla vinnu í endurbætur á löggjöf um fjármálageirann beggja vegna Atlantshafsins. Í Bandaríkjunum stendur slík vinna yfir og hið sama á við um Bretland sérstaklega og Evrópusambandið almennt. Við Íslendingar getum lært mikið af þeirri vinnu. Þegar Turner-skýrslan sem rannsóknarnefndin vitnar til er lesin verður ljóst að við erum að fást við svipuð vandamál og hin stærri ríki. Þess vegna er sjálfsagt að leita í smiðju til þeirra eftir því sem þörf krefur. Jafnframt er æskilegt að samhliða undirbúningi að slíkri löggjöf fari fram rannsókn á falli sparisjóðanna og aðdraganda þess að peningavöldin tóku þá yfir. Það er erfitt að ganga frá nýrri löggjöf um fjármálakerfið á Íslandi án þess að allar staðreyndir liggi fyrir um það sem gerðist innan veggja sparisjóðanna.“

Styrmir Gunnarsson ítrekar síðan nauðsyn þess að rík samstaða ríki um grundvallaratriði.

Hvað er það sem við þurfum að gera? Þegar kemur að þessu frumvarpi þarf í fyrsta lagi að kveða skýrt á um aðskilnað á fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Sá aðskilnaður er lykilatriði í umræðu um allan heim þegar rætt er um nýtt regluverk fyrir fjármálamarkaðinn. Mönnum er orðið ljóst að sú starfsemi að taka við sparifé almennings og ávaxta það með eins lítilli áhættu og hægt er fer illa saman, og stundum alls ekki, við þá eðlilegu en miklu áhættu sem er samfara fjárfestingarbankastarfsemi. Þetta á engum að vera betur ljóst en okkur Íslendingum, enda er ljóst að hrun hefðbundinnar bankastarfsemi hér á landi var að stórum hluta bein afleiðing af því að íslensku bankarnir voru í raun orðnir fjárfestingarbankar.

Það vekur sérstaka athygli að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð, félagshyggju og stundum vinstrimennsku skuli ekki gera minnstu tilraun til að ræða á Alþingi hvort skynsamlegt sé að aðskilja að fullu eða einhverju leyti fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi.

Ekkert í frumvarpinu kemur sem sagt í veg fyrir að sama sagan endurtaki sig, að þegar og ef bankar og fjármálafyrirtæki skrá hlutabréf sín á markað byrji þau að misbeita markaðsvaldi sínu með því að skekkja markaðsverð á eigin hlutabréfum eða hlutabréfum í öðrum fyrirtækjum. Þess vegna þurfum við hugsanlega að taka heildstætt á málum er varða kauphallarviðskipti.

Það vekur einnig athygli að ekkert er tekið á eignarhaldi fjármálastofnana og spurningunni um dreifða eignaraðild er í engu svarað. Kannski kemur það ekki á óvart þegar tveir af hinum endurreistu bönkum hafa verið einkavæddir með þeim sérkennilega hætti að enginn veit hver raunverulegur eigandi þeirra er og því er ríkisstjórninni ókleift að taka á málum með þeim hætti að skýr ákvæði séu um eignarhald á íslenskum fjármálafyrirtækjum.

Það getur þó ekki verið ætlun löggjafans að hafa slíkt eignarhald sem er dulið, falið og enginn veit hvert er til lengri tíma og Alþingi getur ekki látið slíkt viðgangast öllu lengur. Leyndarhjúpnum yfir eignarhaldi íslensku bankanna sem endurreistir voru og einkavæddir, ef viðeigandi er að nota svo virðulegt orð yfir þessa eignayfirfærslu ríkisins, verður að aflétta.

Allt er þetta merkilegt, aftur ekki síst í ljósi þess að hér er að verki hin norræna velferðarstjórn, hin norræna vinstri stjórn félagshyggjunnar, stjórn gagnsæis og aukinna lýðræðislegra vinnubragða. Eftir á að hyggja kemur þetta þó ekki á óvart því að a.m.k. annar stjórnarflokkurinn hefur aldrei viljað taka á eignarhaldi fjármálafyrirtækjanna. (TÞH: Né heldur fjölmiðla.) Né heldur fjölmiðla, það er rétt, hv. félagi Tryggvi Þór Herbertsson.

Hér urðu miklar deilur árið 1999 þegar verið var að ljúka við sölu á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þá var þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, með þær hugmyndir að nauðsynlegt væri að tryggja dreift eignarhald á fjármálastofnunum. Þá sagði Sighvatur Björgvinsson, þingmaður og fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, í viðtali við Dag 12. ágúst 1999:

„Ég hef ekki trú á því að gerlegt sé að setja lög til að tryggja dreifða eignaraðild, sem halda þegar fram í sækir. Ég er alveg viss um að Davíð Oddsson forsætisráðherra hefði aldrei orðað þessa lagasetningu ef þeir sem eru að kaupa fjórðung í FBA væru honum þóknanlegir.“

Virðulegur forseti, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þá þingmaður Samfylkingarinnar, segir við Dag sama dag, með leyfi forseta:

„Verðbréfamarkaðurinn á Íslandi er frjáls og tilraunir til að tryggja dreifða eignaraðild eða aðrar hömlur í þá veru mundu leiða til þess að hlutur ríkisins, það er almennings í fjármálafyrirtækjum eins og til dæmis Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, mundi lækka stórlega í verði. Greinilegt er þó að kolkrabbinn er uggandi yfir stöðu þessa máls.“

Félagi þeirra og fyrrverandi þingmaður, Ágúst Einarsson, og fráfarandi rektor Háskólans á Bifröst tók undir þessi viðhorf á bloggsíðu sinni og sagði m.a.:

„Nú vaknar forsætisráðherra og talar um nauðsyn á dreifðri eignaraðild. Hvar var hann þegar málin voru í pólitískri umræðu á Alþingi og ákvarðanir teknar? Davíð og Sjálfstæðisflokkurinn hafa nefnilega aldrei viljað dreifða eignaraðild. Þeir vilja aðeins að eignaraðildin sé í réttum höndum. Nú þegar ekki er vitað hvort nýir aðilar séu þeim pólitískt eins nátengdir og flestir aðrir þá á að kippa í spotta.“

Það er alveg greinilegt að meðal samfylkingarmanna skiptir máli hvort um er að ræða dreifða eignaraðild hjá ákveðnum hópi viðskiptalífsins eða hópi sem þeim á þeim tíma var þóknanlegur. Við vitum svo gjörla hvað gerðist.

Ég held því hins vegar ekki fram að það sé endilega besta leiðin, eða eina leiðin, að setja skorður við eignarhaldi með þeim hætti sem um var rætt á sínum tíma, 5–10% hámarkshlut. Önnur leið sem er fær og kann jafnvel að vera skynsamlegri er að setja skýr lagaákvæði um að fari eignarhlutur eins aðila eða tengdra aðila yfir ákveðið hámark, 10–15%, séu allar eigur viðkomandi, hverju nafni sem þær nefnast, til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum viðkomandi banka komi til þess að viðkomandi banki sigli í þrot.

Auk þess er nauðsynlegt eins og hér hefur verið vikið að að við svörum því hvort við teljum æskilegt að íslenskir bankar reki og eigi tryggingafélög. Ég hef miklar efasemdir um það og bendi á reynslu okkar í þeim efnum.

Að lokum er nauðsynlegt að taka alla starfsemi Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans til gagngerrar endurskoðunar. Við verðum að sameina þessar stofnanir, við verðum að viðurkenna að það hafi verið mistök að skera Fjármálaeftirlitið frá Seðlabankanum á sínum tíma og það er í samræmi við tillögur Kaarlos Jännäris. Ég óttast raunar að það sé verið að færa Fjármálaeftirlitinu svo mikil völd að það verði varla hægt að reka hér íslenska banka með sæmilegri skynsemi öðruvísi en að hringja upp í Fjármálaeftirlit og fá leyfi til að kaupa svo sem eins og einn skrifborðsstól.

Þá er nú forvitnilegt að kynnast viðhorfi Gylfa Magnússonar, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem sagði í erindi árið 2005, á morgunverðarfundi Samtaka atvinnulífsins, með leyfi forseta:

„Íslendingar raða sér ótvírætt í hóp þeirra þjóða sem hafa skilvirkast efnahagslíf og það eitt og sér bendir sterklega til þess að þær stofnanir sem við höfum komið okkur upp flækist ekki um of fyrir efnahagslífinu.“

Ég held að það sé nauðsynlegt að menn myndi hér þverpólitíska samstöðu um að fara í gegnum alla lagasetningu er viðkemur fjármálamarkaðnum eins og ég hef sagt, lög um Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið og Kauphöllina, lög um fjármálafyrirtæki, verðbréfasjóði, endurskoðendur o.s.frv., og hættum þessum bútasaumi. Náum einhverri heildaryfirsýn þannig að við vitum hvað við erum að gera, en verum ekki í neinum þykjustuleik þannig að okkur líði betur.