138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í því frumvarpi sem við höfum hér til 2. umr. og teflt er fram í þinginu í kjölfar þess að sérfræðingur sem ríkisstjórnin fékk til liðs við sig á haustdögum árið 2008 skilaði skýrslu, er þar að finna tillögur sem að hluta til taka til þeirra áherslna sem fram komu í skýrslu hans, Kaarlos Jännäris. Hér er hvorki meira né minna en um það að ræða að ákveðið var að leita til alþjóðlegs sérfræðings í kjölfar fjármálakrísunnar á Íslandi vegna þess að hér kom upp staða svo alvarleg að enginn Íslendingur hefur verið ósnortinn af henni. Hrun heils fjármálakerfis, kreppa í fjármálageiranum sem er stærri en sú sem Bandaríkjamenn upplifðu í kreppunni miklu, 95% af hlutafjármarkaðnum hvarf og allir stóru bankarnir þrír fóru á hausinn. Maður skyldi þess vegna ætla að þegar jafnstórt mál á í hlut og það hvernig bregðast á við vegna þess sem hér hefur gerst í þessu efni, væri við 2. umr. málsins meiri almenn þátttaka, sérstaklega hjá stjórnarliðunum.

Ég vil taka undir með þeim sem tekið hafa til máls í umræðunni í dag og rétt á undan mér, sem bent hafa á það hversu mikill bútasaumur þetta er í raun og veru sem við höfum fyrir framan okkur. Reyndar er ég þeirrar skoðunar almennt að þegar hingað koma frumvörp sem eru jafnumfangsmikil og þetta og gera jafnmiklar breytingar og þetta frumvarp gerir á lögunum sjálfum sé nánast komið að því að setja þurfi ný heildarlög. Það gefur þinginu miklu betra heildaryfirlit yfir það viðfangsefni sem verið er að fást við.

Ég vil í upphafi segja að ég tel margt ágætt í þessu máli. Margar tillögur horfa til framfara en hins vegar skortir á að stóru prinsippin séu rædd. Það voru líka mistök að mínu áliti að koma fram með þessar breytingartillögur áður en skýrsla rannsóknarnefndarinnar var gerð opinber, vegna þess að að sjálfsögðu hefur margt nýtt komið fram í skýrslu nefndarinnar sem gefur þinginu tilefni til að bregðast við, og það er reyndar að bregðast við og er með mál inni í sérstakri nefnd og sumir af þeim þáttum sem þar hafa komið fram snúa einmitt beint að fjármálamarkaðnum.

Skýrsluhöfundurinn sem ég vék að hafði áður en rannsóknarskýrslan kom fram áttað sig á nokkrum veikleikum í íslenska fjármálakerfinu sem reynt er að bregðast við í frumvarpinu eftir ábendingar hans og eftir útkomu skýrslu hans. Allt of lítil umræða hefur farið fram um það hér og allt of lítil rök eru færð fyrir því í frumvarpinu og fátækleg umræða er jafnframt um það í nefndarálitum að mínu áliti, hvort rétt sé að bregðast við með þeim hætti sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar leggur til eða hvort aðrar leiðir eigi að koma til skoðunar hér.

Einna mest hefur verið um það deilt hvort ekki þurfi að tryggja dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum. Ég er þeirrar skoðunar að ein af mistökunum við einkavæðingu bankanna á sínum tíma hafi verið að trúa jafnstíft og gert var á mikilvægi kjölfestufjárfesta, á mikilvægi þess að einn stór aðili tæki að sér að leiða bankana inn í nýja tíma eftir að þeir voru í raun og veru seldir frá ríkinu. Þessu atriði er í raun og veru algjörlega sleppt og hér fer fram afskaplega fátækleg umræða um þetta. Ég veit ekki hvaða ályktanir maður á eiginlega að draga af því. Er það sem sagt niðurstaða ríkisstjórnarinnar, er það niðurstaða stjórnarmeirihlutans á þinginu og meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að sú umræða sé á misskilningi byggð? Að engin ástæða sé til að tryggja dreifðara eignarhald að fjármálafyrirtækjum í framtíðinni? Eða þarf bara að tryggja dreift eignarhald að fjármálafyrirtækjum þegar þau eru einkavædd en svo eftir að það hefur gerst, skiptir það í sjálfu sér engu máli? Ég er þessu ósammála. Ég tel að umræðan um dreifða eignaraðild eigi heima einmitt í umræðunni um þetta frumvarp. Mér finnst stóreinkennilegt að ekki sé tekið sérstaklega á því í þessu máli og í meðförum nefndarinnar, hvort við viljum til lengri tíma marka þá stefnu hér að menn geti átt stóra hluti, ráðandi hluti í stórum bönkum á þessum litla markaði okkar þar sem allar líkur eru til þess að tveir til þrír stórir ráðandi aðilar verði áfram til staðar. Þá umræðu er ekki að finna í þessu máli, í frumvarpinu eða í umfjöllun hér, sérstaklega meiri hlutans.

Annað atriði sem vissulega er aðeins komið inn á í frumvarpinu eru viðskipti eigenda bankanna við bankana sjálfa. Hér er lagt til að sú leið verði farin að slík viðskipti verði í sjálfu sér áfram heimil en setja þurfi traustar tryggingar. Síðan er því vísað yfir til Fjármálaeftirlitsins hvað skuli teljast traustar tryggingar í þessu samhengi. Hér skortir líka að mínu áliti umræðu um það hvort eðlilegt sé að þeir sem fara með mjög stóra eignarhluti í bönkum, mjög stór eignarhluti í stórum banka er að mínu áliti allt frá 15–20% og meira, hvort þeir yfir höfuð eiga að vera í viðskiptum við bankann og einnig að hve miklu leyti bankinn sjálfur á að vera í viðskiptum. Sá sem á, ef við gefum okkur dæmi, 50% í banka og það er ekkert girt fyrir það hér að einn og sami aðilinn fari með 50% í banka, það getur hins vegar verið vandkvæðum bundið fyrir viðkomandi að hafa hann skráðan á hlutabréfamarkaði, en sá sem á 50% í banka þarf kannski ekki að taka lán hjá bankanum til að ráðast í fjárfestingar. Hann lætur einfaldlega bankann sjálfan fara í þær fjárfestingar fyrir sig. Hann notar bara bankann til að kaupa önnur fyrirtæki og félög. Það er þannig sem hann gerir það. Á þessu er ekki tekið hér. En við höfum séð þá þróun á Íslandi undanfarin ár að það er akkúrat það sem eigendur bankanna gerðu, þeir létu bankana sjálfa verða mjög fyrirferðarmikla í fjárfestingum innan lands, í kaupum á ráðandi fyrirtækjum á hinum ýmsu mörkuðum og í framhaldinu var viðkomandi eignarhlutum ráðstafað að vild eigendanna sjálfra. Það er ekki tekið á neinu af þessu í frumvarpinu.

Eða er þetta mál kannski ekki svar ríkisstjórnarinnar við þeim ágöllum sem fram hafa komið á fjármálakerfinu í tengslum við hrunið? Eigum við von á einhverju öðru máli? Hvaða mál er það þá? Eru það málin sem eru á bls. 18 í frumvarpinu undir lið 1, 2, 6, 7 og 8 sem við eigum von á að muni leysa úr vanda fjármálakerfisins? Er það sem sagt fækkun ráðuneyta? Á það leysa vandann sem við höfum núna við að glíma að hann komi aftur upp í framtíðinni? Er það sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins? Ég tel að það sé mikilvægur þáttur málsins og er þar af leiðandi sammála hinum finnska ráðgjafa um það efni að það sé áfram hætta á því að tiltekin verkefni falli svona milli skips og bryggju og heildaryfirsýn yfir áhættu í fjármálakerfinu og fjármálastöðugleikinn geti þar með verið undir, sem sagt að þessi heildaryfirsýn geti tapast. Eitthvað er reynt að koma til móts við þetta í þessu máli með því að skylda bankana til að hafa skýrara yfirlit yfir stórar áhættuskuldbindingar og að Fjármálaeftirlitinu verði falið nýtt hlutverk í því. En ég vil taka undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni sem benti á það í ræðu sinni að í sjálfu sér væri eðlilegra að sá þáttur málsins væri hjá Seðlabankanum. Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan seðlabankastjórinn sjálfur kom fram og sagði að það væri nauðsynlegt að breyta lögum til að koma í veg fyrir að þessir hlutir gerðust aftur. Það er ekki verið að leysa slíkt með þessu máli.

Við þurfum að taka til nánari skoðunar spurningarnar um það í fyrsta lagi: Viljum við að einstakir aðilar fari með mjög stóra eignarhluti í bönkunum? Það dugar ekki eins og gert er í þessu máli að gera þeim skylt að tilkynna um að þeir ætli að gera það og að Fjármálaeftirlitið eigi síðan að hafa heimild á grundvelli Evróputilskipunar til að tjá sig um það hvort þeir séu hæfir til að fara með slíkan eignarhluta. Við þurfum líka að hafa skoðun á því hér hvort við viljum að einstakir aðilar fari með slíkan eignarhlut og hvaða skilyrði við viljum setja fyrir slíku.

Í öðru lagi er það þetta atriði sem ég nefndi áðan sem snýr að viðskiptum viðkomandi eigenda við bankana sjálfa og þátttöku bankanna í fjárfestingum innan lands. Höfum í huga eitt sem hefur mótað þetta samfélag og ræður mjög hegðun á mörkuðunum á Íslandi, við erum bara 300 þúsund manns hér, við verðum alltaf með fákeppni á mörgum sviðum. Ef við setjum ekki reglur sem koma í veg fyrir að einstakir aðilar verði svona fyrirferðarmiklir, eins og þeir geta gert í krafti eignarhalds á bönkum, er samfélagsgerðinni stefnt í vissan voða og síðan í framhaldinu samfélagssáttmálanum.

Þetta eru atriði sem við ættum að vera að ræða. Ég verð að segja eins og er að ég furða mig á því að hér skuli einungis einn stjórnarþingmaður vera í salnum og enginn af ráðherrunum. Jafnvel þótt hér sé ekki mál sem er til 1. umr. heldur er komið á forræði þingsins þætti mér það eðlilegt í jafnmiklu stórmáli og þetta er, þetta er svar ríkisstjórnarinnar við hruninu, við því hverju þurfti að breyta í fjármálageiranum, hjá fjármálafyrirtækjunum. Þegar það mál er til umræðu á þinginu mætir bara enginn. Það má nánast segja að hrunið sjálft sé hér undir í umræðunni og í salnum eru engir stjórnarþingmenn. (Gripið fram í: En fullur af sjálfstæðismönnum.) Það er vel mætt af sjálfstæðismönnum sem vilja taka þátt í umræðunni, sem hafa viðurkennt ákveðna galla á regluverkinu. Og mig langar að segja varðandi regluverkið almennt að ég held að í sjálfu sér hafi ekki skort á fjölda reglnanna. Það voru auðvitað margar reglur til, það vantaði bara réttar reglur á ákveðnum sviðum, réttar reglur.

Rannsóknarskýrslan hefur síðan fært okkur heim sanninn um það að margar af þeim reglum sem voru til staðar voru einfaldlega brotnar. Það var farið á svig við þær og þær voru brotnar. Það þýðir þá ekki að skort hafi strangari reglur en áhættan átti að verða okkur ljós talsvert fyrr. Við vitum að það er eitthvað stórkostlega mikið að íslenska fjármálakerfinu þegar einn einstakur aðili getur byggt upp jafnstóra áhættu og við sáum gerast fyrir hrun íslenska fjármálakerfisins, þegar einn aðili er kominn með u.þ.b. helminginn af öllu eigin fé fjármálakerfisins er eitthvað mikið að. Reynt er að bregðast við þessu með því að skylda bankana til að halda utan um sínar stóru áhættuskuldbindingar og færa Fjármálaeftirlitinu heimildir til að fylgjast betur með en ég tel að það skorti enn umræðuna um prinsippatriðin sem ég hef gert hér að umtalsefni.

Mér finnst líka dálítið óljóst í málinu, ég verð að segja það eins og er vegna þess að ég hef reynt að kynna mér efnisatriði frumvarpsins og skýringar og síðan nefndarálit, mér finnst dálítið óljóst í málinu hvort verið er að þrengja hér skilgreiningar á tengdum aðilum eða hvort einungis er byggt á gömlu reglunum um þau efni. Ljóst er að bankarnir sjálfir virðast ekki hafa virt þær reglur sem voru í gildi. Því er ástæða til að ræða það hvort þörf sé á að þrengja þær reglur þrátt fyrir að það hafi svo sem ekki verið farið eftir þeim fram til þessa, en mér finnst þetta mjög óljóst þó að ég fagni því í sjálfu sér að þetta sé tekið saman í orðskýringum fremst í frumvarpinu og það færir mig aftur að þeirri niðurstöðu sem ég vék að áðan að líklega hefði verið best að taka þetta frumvarp saman í nýju heildarfrumvarpi til nýrra laga um fjármálafyrirtæki.

Það eru nokkur atriði til viðbótar sem í sjálfu sér væri hægt að koma inn á en meginatriðið er þetta, og það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að ég vildi kveðja mér hljóðs, að mér finnst stóru spurningunum ekki vera svarað hér, alls ekki. Mér finnst spurningarnar sem æpa á okkur og mest er spurt um í almennri umræðu um rannsóknarskýrsluna og orsakir og aðdraganda að hruninu, mér finnst þær spurningar enn þá standa og þeim er ekki svarað hér. Þá umræðu verðum við að hefja undir einhverjum öðrum dagskrárlið í þinginu en umræðu um þingmál og mikilvægt er að í þeirri umræðu verði hlutirnir settir í víðara samhengi að mínu áliti. Það er ástæða til að setja hlutina í samhengi við það hvernig við viljum sjá markaðina þróast og samfélagsgerðina myndast eftir hrunið. Í því efni er full ástæða til að taka fjölmiðlamarkaðinn með inn í myndina, gæta að því að fjölmiðlarnir geti gegnt hlutverki sínu, þeir hafa ekki einungis því hlutverki að gegna að veita ráðandi stjórnvöldum aðhald heldur líka fyrirtækjunum í landinu. Þegar einstakir aðilar eru ekki einungis orðnir fyrirferðarmiklir á stórum mörkuðum eins og t.d. matvörumarkaði, heldur vilja líka gína yfir stórum fyrirtækjum á fjármálamarkaði og komast yfir þau völd sem fjármálafyrirtækin veita þeim og láta það ekki duga, heldur vilja þess utan fara með fullt eignarhald á stórum fjölmiðlafyrirtækjum, þá held ég að sú spurning sé komin upp á Íslandi hvort ekki sé orðið tímabært að koma með lög sem hindra slíka hringamyndun.

Þetta er umræða sem við ættum að vera að taka hér, ekki einhver bútasaumur í tengslum við lög um fjármálafyrirtæki þar sem er ekki einu sinni brugðist við öllu því sem kom fram í skýrslu í mars árið 2009. Ég hef heyrt það hér frá framsögumönnum stjórnarliða í umræðu um nefndarálitin að ekki hafi gefist tími til að gera meira. En nú er liðið rúmt ár frá því að skýrslan kom fram, á að bíða í annað ár eftir því? Stóru spurningunum er ekki svarað. Þessi umræða verður að halda áfram. Ég fagna því að málið skuli sem slíkt fara til viðskiptanefndar til frekari skoðunar en það mun ekki bæta fyrir þau stóru göt sem eru í þessum málatilbúnaði hjá ríkisstjórninni.