138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hér hljóti að vera einhver misskilningur á ferð. Vissulega er það þannig að þeir sem eru að höndla með skráð hlutabréf, verðbréf sem eru skráð í kauphöll, geta þurft að sætta sig við yfirtökuskyldu ef þeir komast yfir 30% af viðkomandi bréfum. En staðreynd málsins er sú að bæði er það þannig að sum fyrirtæki eru skráð á markað að þeim er heimilað að fá undanþágur frá þessari reglu, eins og dæmin sanna, og síðan er það hitt að 30% eignarhlutur er kannski allt of hár fyrir þau fyrirtæki sem við erum hér að fjalla um. Eða er það sem sagt mat hv. þingmanns að 30% eignarhlutur sé hæfilegur í tilfelli fjármálafyrirtækja? Er það það sem menn áttu við þegar verið var að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn fyrir að tryggja ekki dreift eignarhald? Var það fyrir það að hafa ekki tryggt að menn mættu ekki fara yfir 30 prósentin? Finnst mönnum 30% hæfilegt í þessu tilliti?

Ef menn vilja sætta sig við 30% eignarhlut viðkomandi aðila á fjármálafyrirtæki þurfa menn að svara spurningunni um hitt: Má viðkomandi aðili í fyrsta lagi yfir höfuð stunda viðskipti við viðkomandi banka eða ætla menn einungis að setja það skilyrði að fyrir slíkum viðskiptum séu traustar tryggingar eins og gert er í frumvarpinu? Eða ætla menn að þrengja þá reglu þannig að mönnum sé gert ókleift að eiga slík viðskipti og kannski að rýmka þær heimildir eftir því sem eignarhluturinn minnkar?

Þetta er allt önnur umræða en sú sem ég var að reyna að vekja athygli á hér, allt önnur umræða. Þetta snýst ekki um það hvort um skráð fjármálafyrirtæki gildi þær reglur að viðkomandi geti ekki farið yfir 30% eignamörkin. Er ekki líka vel inni í myndinni að viðkomandi fyrirtæki verði ekki skráð? Það gæti t.d. heitið — leyf mér að hugsa aðeins — Arion banki, (Forseti hringir.) ekki skráður; Landsbanki Íslands, ekki skráður; Íslandsbanki, ekki skráður. (Gripið fram í: Við vitum ekki einu sinni hver á þá.) (Forseti hringir.) Við vitum ekki einu sinni hver á þá. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það samkvæmt þessu frumvarpi að einhver fari með 70% eignarhlut í þessum fyrirtækjum.