138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er eins og hv. þingmaður hafi gleymt því að frumvarpið hefur efnisgreininguna: hertar reglur. Hér er ekki verið að boða endurreisn bankakerfisins heldur er fyrst og fremst verið að bregðast við ábendingum Kaarlos Jännäris og margra þeirra ábendinga er getið í rannsóknarskýrslunni. Þar er talað um að ein af ástæðunum fyrir hruni bankanna séu lán fjármálastofnana til eigenda og meðlima í stjórnum með veði í bréfunum sjálfum og á því er m.a. tekið í frumvarpinu.

Hvað varðar þetta dreifða eignarhald langar mig að vita hvað hv. þingmaður á við með því að krefjast þurfi þess af einhverjum sem eru núna kröfuhafar í gömlu bönkunum sem síðan eiga hlut í nýju bönkunum. Það er náttúrlega alveg ljóst að við þær aðstæður sem við búum núna er erfitt að setja reglur eða lög um dreift eignarhald en það útilokar samt ekki nauðsyn þess að stjórnvöld móti stefnu um eignarhald fjármálafyrirtækja. Það er í bígerð. Það er ætlunin að móta heildstæða stefnu um fjármálamarkaðinn en stjórnarliðar eru að bíða eftir niðurstöðum þingmannanefndarinnar sem er að vinna úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þegar þingmannanefndin hefur skilað af sér (Forseti hringir.) á ég von á því að skipuð verði nefnd til þess að móta þessa stefnu.