138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum. Þetta er mjög stór og viðamikill lagabálkur og miklar breytingar eru gerðar. Samt virðist svífa yfir vötnunum í þessari umræðu, sem er kannski aðallega haldið fram af stjórnarsinnum, að þetta séu nokkurs konar bráðabirgðalög, menn séu að gera fyrstu breytingar og síðan muni þessu og þessu verða breytt. Þau áhrif hefur umræðan á mig. Ekki hefur verið tekið tillit til þess sem rannsóknarskýrslan leiðir í ljós enda kannski ekki hægt að ætlast til þess, hún er svo nýlega komin fram. Þar eru mjög mörg atriði sem taka þarf tillit til. Mér finnst líka vanta í frumvarpinu einhverja greiningu á því af hverju hrunið varð.

Menn grípa hér í ýmislegt sem er til bóta, það er verið að bæta flíkina hingað og þangað og flest er til bóta við fyrstu yfirsýn. Ég get þar af leiðandi ekki verið á móti frumvarpinu en það lagar ekki neitt. Ég held að það nákvæmlega sama geti gerst aftur og gerðist í hruninu. Það er t.d. til bóta að taka allar orðskýringar á einn stað og tala um „náin tengsl“ — sá sem hefur bein yfirráð yfir 20% af hlutafé eitthvað slíkt, það veldur því, frú forseti, að allir eiga 19,9% í félögum, það er bara þannig, menn passa sig á því að vera ekki tengdir aðilar, passa upp á náin tengsl. Svo er það „hópur tengdra viðskiptavina“, menn passa sig á því að það gerist ekki, að menn séu nægilega langt hver frá öðrum til þess að geta starfað saman. Virkur eignarhlutur er 10%. Það þýðir að menn passa sig á því að eiga aldrei meira en 9%, eða 9,9% þannig að ekki sé um að ræða virkan eignarhlut sem þurfi þá að fara í skoðun. Síðan er það „óbein hlutdeild“ og þar eru nokkur atriði talin upp, misflókin og mjög flókin eiginlega. Þar eru menn að reyna að koma í veg fyrir að það séu einhver tengsl. Með óbeinni hlutdeild er átt við að aðili, einn sér eða í samstarfi við aðra, eigi rétt á að afla atkvæðisréttar, ráðstafa atkvæðisrétti eða neyta atkvæðisréttar, sem t.d. viðkomandi aðili fer með á grundvelli samkomulags um lífstíðarbundin réttindi hans yfir hlutunum sem atkvæðisréttinum fylgir. Ég þarf nú að hugsa þetta dálítið vel áður en ég veit hvað þetta þýðir eða skil það. Það er því reynt að setja alls konar girðingar en yfirleitt er það nú þannig að uppfinningasemi lögfræðideilda í þessum bönkum eða fyrirtækjum er ansi mikil þegar kemur að því að fara fram hjá slíku.

Það sem mér finnst vanta algerlega inn í þetta, frú forseti, er það þegar hlutafélag á hlutafélag sem á hlutafélag sem á hlutafélag sem á í banka, þ.e. þegar komin er keðja af hlutafélögum, sem verður mjög ógreinileg, sérstaklega þegar einhver af þessum hlutafélögum er erlendis, jafnvel í Lúxemborg, sem veitir ekki upplýsingar, eða á Tortólaeyjum þar sem enn verra er að fá upplýsingar. Það er ekkert bannað, það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Menn geta verið með fjögur hlutafélög sem eiga hvert um sig 9,9% í banka og með því að dreifa þessu nógu lystilega út og suður kemur ekkert fram að á bak við það allt saman er einn aðili sem fer í rauninni með virkan eignarhlut, en það getur verið mjög erfitt að sanna það. Þetta er kannski vandinn. Vandinn er ógagnsæi í þessu kerfi öllu og það er það sem ég hef margoft bent á og hef flutt um það frumvarp ásamt mörgum öðrum um gagnsæ hlutafélög, að allt eignatréð liggi fyrir. Ég tel að menn verði að gera eitthvað slíkt þegar upp er staðið.

Það er talað um það í nefndaráliti meiri hlutans að valdheimildir Fjármálaeftirlitsins verði auknar í þessu frumvarpi. Það er rétt en þær voru ansi miklar fyrir. Þær voru geysimiklar, þeim var bara ekki beitt. Það er spurningin: Verður þeim eitthvað frekar beitt núna? Menn eru alltaf hræddir við að baka ríkissjóði skaðabótaábyrgð ef þeir grípa harkalega inn í rekstur fjármálastofnunar, það þarf að vera mjög vel ígrundað, það þarf virkilega að vera ástæða til og kannski eru menn hræddir við að ganga of langt.

Einnig er talað um að hafa útlánaskrá hjá Fjármálaeftirlitinu. Það þýðir það í mínum huga að Fjármálaeftirlitið er búið að taka að sér áhættustýringu fyrir landið og miðin, fyrir allt bankakerfið. Bankakerfið getur slakað á á meðan. Það getur alltaf vísað til þess að Fjármálaeftirlitið hafi jú fylgst með þessu öllu saman og hafi tékkað á þessu og það sé þeirra að takmarka áhættuna fyrst þeir eru komnir með þessa skrá. Settar eru strangari reglur um stórar áhættuskuldbindingar. Það er nákvæmlega það sama þar, fyrst Fjármálaeftirlitið er með þessar ströngu reglur og fylgir þeim eftir þá geti hinir verið rólegir. Rekstrarábyrgðinni er sem sagt varpað yfir á Fjármálaeftirlitið í staðinn fyrir að það hafi eftirlit.

Lánveitingar til tengdra aðila og hæfi eigenda — ég er búinn að fara í gegnum það hvernig menn passa sig á að vera ekki tengdir. Það getur orðið erfitt að finna út úr því hver á hlutafélagið á Tortólu sem á hlutafélagið í Lúxemborg, sem aftur á hlutafélagið í einhverjum banka á Íslandi, það getur verið snúið. Ég held að menn séu í mjög erfiðum málum að sanna eitt eða annað þar. Einnig er verið að afmarka eignarréttindi stofnfjáreigenda og sérstaklega er það tilgreint að eignin takmarkist við bókfært stofnfé. Það reyndi á þetta með SPRON á sínum tíma og það er einu sinni þannig að ef menn eiga einhverja eign geta þeir selt hana. Það er ekkert sem getur bannað það. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar heimila það og banna í rauninni annað. Ef menn eiga stofnfé í sparisjóði sem einhver vill borga mikið fyrir er ekkert sem getur bannað það að menn selji það, ekkert. Þó að það sé langt yfir einhverju stofnfé get ég ekki séð að hægt sé að banna það að menn selji þessa eign sína ef einhver annar vill borga fyrir það, þ.e. einhver annar en sparisjóðurinn. Það er hægt að setja ákvæði um það, eins og var, að sparisjóðurinn megi ekki borga meira en uppreiknað verð, upprunalegt stofnfé.

Búið er að fella niður ákvæðið um 5% hámark atkvæðisréttar í sparisjóði að kröfu Evrópusambandsins eða EFTA og ég held að menn hafi nú rekið sig á það að ekki einu sinni það ákvæði hjálpaði. Menn bara pössuðu sig á að eiga nógu marga aðila sem voru með 4,9%. Þetta er ótrúleg uppfinningasemi þegar kemur að því að fara í kringum einhverjar reglur. Það voru bara mjög margir aðilar sem voru með 4,9%, þeir voru allir ótengdir og lá við að þeir heilsuðust ekki á götu, en þeir voru með mjög gott net sem hélt utan um þetta allt saman.

Mér finnst líka vanta að rætt sé um marga hluti. Hvernig stendur á því að sparisjóðirnir fóru allt í einu að gefa út svona óskaplega mikið stofnfé? Það er ekkert rætt um það, það hefur hvergi komið fram. Ég ætti kannski að upplýsa háttvirtan þingheim um það af hverju það var. Það var vegna þess að Alþingi setti lög um það að þessum heilaga sjóði, fé sem enginn átti, sem var inni í sparisjóðunum, skyldi stýrt af opinberum embættismönnum sveitarfélaga og ríkisins en ekki stofnfjáreigendum. Þetta var viðbragð Alþingis við því að Kaupþing ætlaði á sínum tíma að kaupa SPRON og búa til sjóð sem átti reyndar að renna til menningar- og líknarmála upp á 6 milljarða. Hann varð aldrei til, hann hvarf, en hann hefði núna verið raunverulegir peningar ef Alþingi hefði ekki komið í veg fyrir þann samning með því að setja þetta ákvæði inn. Hvað gera menn þegar þessi sjóður hjá SPRON, sem átti 85% af eigin fé SPRON — hvað gera menn? Menn blása út eigið fé með því að gefa út stofnbréf í stórum stíl og lána stofnfjáreigendum fyrir því, eða láta einhvern aðila sem þeir þekkja lána fyrir því. Þannig gerðist það. Allt í einu voru menn farnir að taka tugi og hundruð milljóna að láni til að kaupa stofnbréf og þá minnkaði þessi sjóður, þessi heilagi sjóður, úr því að vera 85% niður í það að vera 15% vegna þess að stofnféð óx svo mikið fyrir utan hann og eigið féð og menn fóru aftur að ráða yfir þessu. Þetta er nefnilega alltaf spurningin um hver ræður því mikla fé sem er í sparisjóðunum.

Það var það sem menn flöskuðu á og ég varaði við því fyrir löngu síðan í grein um fé án hirðis, 1991 held ég að það hafi verið, eða 1994, þar sem ég varaði við því að fé án hirðis lægi vel við höggi þegar einhverjir kæmu að því sem ekki væru nógu vandaðir. Þegar vönduðu mennirnir koma að þessu fé er allt í lagi, þá bara koma þeir og fara. Þegar óvandaðir menn koma þá koma þeir og fara ekki. Þannig gerist það. Þeir sitja svo á fénu og stýra því lengi eftir það og njóta þeirra valda sem féð gefur þeim um allt kerfið.

Hér er ekki tekið á því sem Íslendingar hafa verið að glíma við síðustu eitt eða tvö árin, það hefur verið mikið í umræðunni en það heitir Icesave og innstæðutryggingarkerfið. Ekki er búið að breyta því, hér gæti því komið erlendur banki og stofnað útibú í útlöndum. Hann getur mokað inn innlánum með því að bjóða 10% vexti ofan á evru eða jen, mokað inn peningum og dælt í eitthvað úti í heimi og við mundum upplifa nákvæmlega það sama og gerðist. Ekki er tekið á þessu í frumvarpinu enda hefur verið boðað sérfrumvarp um það og kannski verður tekið á þeim vanda. En vandinn er ekki Íslendinga, vandinn er Evrópusambandsins, þar er reglugerðin um innlánstryggingarkerfið sett og þar er uppruna hennar að leita.

Mér finnst að öllu þessu samanlögðu, frú forseti, að menn hafi ekkert verið að skoða hvað fór úrskeiðis í hruninu. Það hefur enginn sest niður og greint það. Menn hafa ekki einu sinni horft á þessi net sem komu fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, ótrúleg net af eignarhaldi, þau voru svo þéttriðin að hornsíli sleppa ekki í gegn. Ég taldi þau ekki en mörg hundruð fyrirtæki voru saman í einu neti, tengdust þvers og kruss, og þessi net, sem voru meira og minna tóm af fjármagni, voru veilan í þessu kerfi. Ég sýndi fram á það í fylgiriti með frumvarpi um gegnsæ hlutafélög að það er hreinlega veila í hlutafélagaforminu. Það er alvarleg veila í því sem menn hafa notað, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Á meðan menn taka ekki á þeirri veilu þurfa þeir alla vega að átta sig á því hvernig hún virkar, hvernig hún vinnur til þess að reyna að koma í veg fyrir skaða. Það er ekki nóg að taka móðurfélag heldur þarf að taka móðurfélag móðurfélagsins, þ.e. ömmuna, og það þarf að taka móðurfélag móðurfélags móðurfélagsins — þetta er miklu erfiðara viðfangs en menn ímynda sér og ég held að sú breyting sem gerð er á frumvarpinu lagi ýmislegt en hún lagar ekki grundvallarveiluna.

Í rauninni ætti allur heimurinn að líta til Íslands og læra af hruninu mikla sem við borguðum ansi gott námskeiðsgjald fyrir. Við ættum því að vanda okkur við að læra vel og nýta þekkinguna sem var svona dýrkeypt til þess að koma í veg fyrir að slíkt hrun geti orðið aftur. Ég held að þessar breytingar hér komi ekki í veg fyrir það, því miður. En þær eru samt sem áður til bóta. Ég mun styðja þær en þær munu ekki koma í veg fyrir að hér verði aftur hrun. Nú eru menn orðnir svo snjallir í þessum fræðum öllum að viðbúið er að menn verði fljótari að koma upp viðlíka neti aftur nema löggjafinn fari að greina hvað raunverulega fór úrskeiðis.