138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður staðfesta það að þetta séu bráðabirgðalög og séu ætluð bara til bráðabirgða en einhver raunveruleg lausn komi seinna. Ég vona að menn setjist niður annaðhvort hjá nefndinni eða í ráðuneytinu eða einhvers staðar til að skoða skýrslu rannsóknarnefndarinnar og fari í gegnum það hvar hún bendir á veilur í þessu og skoði kannski einnig alþjóðlega þróun og hvað er að gerast, því að þetta gerðist ekki bara á Íslandi, þetta var kannski hvað alvarlegast á Íslandi en það var mjög alvarlegt annars staðar líka. Ég held að menn verði að taka á honum stóra sínum við að reyna að finna hvað fór úrskeiðis og þetta frumvarp lagar það eiginlega ekki neitt, tel ég. Og þetta raðeignarhald og krosseignarhald og lán til kaupa á hlutabréfum er allt hægt í dag með þessu frumvarpi bara með því að hafa nógu langa keðju af eigendum. Ég bendi á að ríkið sjálft fór þá leið þegar það lenti í því að einkavæða bankana og vissi ekki hverjir voru eigendurnir og ekki hvort þeir væru góðir eða slæmir og hafði ekkert um það að segja. Þá skutu menn svona fyrirtæki inn á milli og sýndu fólki. Notuðu sem sagt sömu aðferðirnar og útrásarvíkingarnir og hægt er að gera, að skjóta bara inn einu fyrirtæki og svo er alltaf bent á að það sé eigandinn en eigandi þess er alveg óljós. Mér finnst ríkið hafa farið þarna fram með mjög slæmu fordæmi.