138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:50]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er margt sem vekur mikla athygli í tengslum við umræðu um þetta mál sem nú er á dagskrá, þ.e. frumvarp ríkisstjórnarinnar til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki. Það fyrsta er kannski það hversu einsleit umræðan um þetta mikilvæga mál hér í þingsalnum er. Það er mjög athyglisvert hversu fáir þingmenn stjórnarflokkanna sjá ástæðu til að taka þátt í umræðu um þetta mikla mál, þeir læðast með veggjum, láta lítið fyrir sér fara og taka fæstir til máls í umræðunni ef þeim ber ekki skylda til þess stöðu sinnar vegna. Það er rétt að hv. þm. Lilja Mósesdóttir, formaður nefndarinnar, hefur tekið þátt í umræðunni og einnig hv. þm. Magnús Orri Schram, varaformaður hv. viðskiptanefndar, en það eru afar fáir aðrir stjórnarþingmenn sem hafa séð sér fært að koma hér og lýsa viðhorfum sínum til þess máls sem við ræðum og ástæðunnar fyrir því að við erum að ræða það, sem er hvorki meira né minna en hrun heils fjármálakerfis.

Frumvarpið felur í sér viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hruni fjármálakerfisins. Það eru nú ekki fáir þingmenn hér á hv. Alþingi sem hafa haft uppi mikla og harða gagnrýni á bankakerfið sjálft, en ekki síður á þá stjórnmálamenn sem réðu ferðinni í aðdraganda bankahrunsins og meðan það reið yfir. En síðan þegar við ræðum hér viðbrögð ríkisstjórnarinnar og tillögur hennar um það hvernig reisa eigi fjármálakerfið við, reisa bankakerfið, breyta leikreglunum, sem hljóta að eiga að hafa það að markmiði að tryggja að sagan endurtaki sig aldrei, þá skila stjórnarþingmenn auðu í umræðunni, loksins þegar til stykkisins kemur, og taka ekki þátt í henni. Þetta finnst mér mjög athyglisvert við alla þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um þetta mikilvæga mál.

Það er heilög skylda allra stjórnmálamanna á Íslandi og allra stjórnmálaflokka að þegar fjármálakerfið hefur hrunið, bankakerfið hefur hrunið, sokkið með manni og mús, ber öllum að líta um öxl, horfa yfir farinn veg og draga lærdóm af því sem gerst hefur. Vandi þeirrar ríkisstjórnar sem stendur á bak við þetta frumvarp er sá að henni hefur ekki lánast að draga lærdóm af því sem hér gerðist.

Ég fór yfir það í ræðu í gær, um frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi, að þau frumvörp sem ríkisstjórnin leggur fram á þinginu, þ.e. það mál sem við ræðum núna, breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, frumvarp til laga um innstæðutryggingar og fleiri frumvörp sem ætlað er að bregðast við hruni fjármálakerfisins og bæta úr því sem aflaga fór, væru öll lögð fram hér á Alþingi áður en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt. Ég hefði talið að ef menn hefðu viljað viðhafa vönduð vinnubrögð hefði ríkisstjórnin átt að sjá sóma sinn í því að draga öll þessi frumvörp til baka, máta þau við það sem fram kemur í rannsóknarskýrslunni, bæta úr þeim með þeim hætti að tekið sé mið af þeim fjölmörgu ábendingum og þeirri ítarlegu umfjöllun sem fram kemur um fjármálamarkaðinn, fjármálastarfsemi og starfsemi sem henni tengist í skýrslu rannsóknarnefndar.

Þetta hefur ekki verið gert og á þessi sjónarmið mín hefur ekki verið fallist, hvorki hér í þingsalnum né í hv. viðskiptanefnd. Ég tel að það sé mjög miður. Mér finnst það mjög miður að hæstv. ríkisstjórn ætli sér að gera breytingar á gríðarlega veigamiklum lögum sem varða starfsemi sem varð fyrir óskaplegum skakkaföllum með hrikalegum afleiðingum fyrir hana sjálfa og fyrir þjóðina alla, að ríkisstjórnin sé ekki reiðubúin að horfast í augu við að taka þarf þessi mál öll til heildarendurskoðunar og í samræmi og samhengi. Þess í stað virðist ríkisstjórnin ætla að láta eins og rannsóknarskýrslan hafi í rauninni aldrei verið skrifuð. Og hv. þingmenn stjórnarflokkanna, sem hér hafa tekið til máls, hafa látið eins og það sé engin ríkisstjórn í landinu. Þeir segja: „Ja, þessar breytingar og þessi yfirferð verður að bíða þeirrar yfirferðar sem þingmannanefnd Alþingis er að vinna að.“ Það er með öðrum orðum látið eins og ríkisstjórnin sé algjörlega bjargarlaus til þess að takast á við þau vandamál sem þarf að ráðast í og gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru og er búið að uppljóstra í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Hér er talað um það að þetta frumvarp um fjármálafyrirtæki sé bútasaumur; það sé ekki heildstætt, þetta sé ekki heildstæð endurskoðun á lagaumhverfi um fjármálafyrirtæki, það sé verið að setja plástra á sárin og beita smáskammtalækningum í stað þess að reyna að lagfæra það sem aflaga fór. Allt er þetta rétt en þó svo að bútasaumur geti verið ágætur í almennum hannyrðum er það þannig að þegar heilt fjármálakerfi er hrunið leyfist okkur ekki að ætla að tjasla upp á það með einhverjum smáskammtalækningum. Bæði hæstv. ríkisstjórn og þinginu sjálfu ber að taka öll þessi mál til heildarendurskoðunar.

Það er rétt sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði hér fyrr í umræðunni, það nægir ekki að gera breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, það þarf að taka alla löggjöf um fjármálamarkaðinn, hvort sem það eru lög um fjármálafyrirtæki, um sparisjóðina, um vátryggingar, um innstæðutryggingar, um Seðlabankann, um Fjármálaeftirlitið, um verðbréfasjóði, um alla þessa þætti, til samfelldrar endurskoðunar. Það hefur því miður ekki verið gert. Það eitt er víst varðandi það mál sem við hér ræðum er að það tryggir ekki að sagan sem við höfum orðið vitni að muni ekki endurtaka sig. Þetta mál endurspeglar ekki það sem það ætti að endurspegla, þ.e. að ríkisstjórnin ætlaði að draga lærdóm af rannsóknarskýrslunni, lærdóm af þeim áföllum sem við höfum orðið fyrir.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að það fyrsta sem vekti athygli mína við þessa umræðu væri fjarvera stjórnarliða. Það sem vekur hins vegar mesta athygli varðandi það frumvarp sem við ræðum er það sem ekki stendur í því. Það er það sem mesta athygli vekur að í frumvarpinu er ekki minnst á grundvallaratriði sem þingið þarf að taka afstöðu til. Við hljótum að vera sammála um það að verkefni þingsins, ríkisstjórnar, stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar, er að reyna að byggja upp traustan fjármálamarkað á Íslandi eftir bankahrun. Þetta frumvarp er ekki merkilegt innlegg við lausn á því verkefni. Það er t.d. ekkert fjallað um það hvort skynsamlegt sé að reka fjárfestingarbanka og viðskiptabanka í einni stofnun. Hvers vegna er það ekki gert? Treystir ríkisstjórnin sér ekki til að taka afstöðu til þess hvort viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi sé æskileg í einni og sömu stofnuninni eftir þá reynslu sem við höfum orðið fyrir? Treystir hún sér ekki til þess að taka þá umræðu sem á sér stað í öllum löndunum í kringum okkur sem orðið hafa fyrir skakkaföllum á fjármálamarkaði?

Við sjálfstæðismenn, og þá ekki síst formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, höfum fyrir löngu bent á marga þætti sem aflaga fóru í fjármálakerfinu og í löggjöfinni um fjármálastarfsemi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur axlað ábyrgð á þeim. Það hefur verið nefnt á vettvangi Sjálfstæðisflokksins að það hafi verið mistök að skipta Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu upp með þeim hætti sem gert var. Maður hefði nú talið, eftir allt sem sagt hefur verið um þessar tvær stofnanir og allt það sem um þær stendur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, svo ekki sé nú minnst á það fjaðrafok sem varð hér á þingi varðandi tengslin við yfirstjórn Seðlabankans og miklar yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra í tengslum við þau mál, að ríkisstjórnin hefði einhverjar hugmyndir um það hvernig hún ætlaði sér að haga samspili Seðlabanka og Fjármálaeftirlits til framtíðar. Það er nú aldeilis ekki þannig vegna þess að í þessu frumvarpi, sem er frumvarp til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki, er ekkert tekið á þessum atriðum. Það segir allt sem segja þarf um hugleysi þeirrar ríkisstjórnar sem stendur að baki frumvarpinu.

Hér hefur verið vikið að málefnum sparisjóðanna og menn furða sig á því hvers vegna spurningum um framtíðarskipan sparisjóðanna er ekki svarað í frumvarpi til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki. Það er eins og annað, menn virðast annaðhvort ekki hafa stefnu í málefnum sparisjóðanna eða þeir treysta sér ekki til þess að setja hana fram, hugsanlega vegna þess að það blasir við að stjórnarflokkarnir eru í grundvallaratriðum ósammála, hvort sem það tengist fjármálamarkaðnum eða á öðrum sviðum. Þetta er ljóður á ráði þeirra sem standa að frumvarpinu.

Nú nýverið var gefin út stefna á hendur sex eða sjö einstaklingum og einu endurskoðunarfyrirtæki í New York, skaðabótakrafa upp á litla 260 milljarða. Ekki ætla ég að fara að fella dóma í því máli, hvort sú stefna eigi við rök að styðjast, eða þær dómkröfur sem þar koma fram, en hún beinist auðvitað að einstaklingum sem voru eigendur og stjórnendur Glitnisbanka. Það sem er merkilegt í þeim málatilbúnaði öllum er að þar er aðilum stefnt sem ekki höfðu formlega stöðu innan Glitnis aðra en þá að vera stórir eigendur félagsins. Þeir voru með öðrum orðum skuggastjórnendur. Þeim er gefið að sök að hafa beitt áhrifum sínum sem slíkir til þess að skara eld að eigin köku.

Þetta er eitt merkilegasta dómsmál sem, hvað eigum við að segja, rekið hefur á fjörur okkar Íslendinga í tengslum við bankahrunið. En maður skyldi ætla að þeir atburðir sem áttu sér stað, bæði í þeim banka og í öðrum íslenskum bönkum, hefðu átt að verða tilefni fyrir ríkisstjórnina til að taka á málum sem varða ábyrgð svokallaðra skuggastjórnenda í fjármálafyrirtækjum. Það hafa nefnilega komið fram mjög áþreifanlegar vísbendingar um það að íslenskum fjármálafyrirtækjum hafi ekki einungis verið stjórnað af stjórnarmönnum í bönkunum eða framkvæmdastjórum eða forstjórum heldur einnig af mönnum sem stóðu utan hins formlega valdakerfis bankanna. Eins og staðan er í dag er ekkert í íslenskum lögum sem kveður á um ábyrgð slíkra skuggastjórnenda. Það eru vissulega refsiákvæði í hlutafélagalögum og refsiákvæði í öðrum lögum sem geta átt við um slíka aðila, en ég hefði talið að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn ætti að vera búinn að fá næg tilefni til að taka afstöðu til þess hvort Alþingi ætti hugsanlega að lögfesta einhverjar reglur, einhverjar ábyrgðarreglur, sem sneru að þessum skuggastjórnendum.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi það, og það kemur fram í minnihlutaáliti mínu og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, að ekki er kveðið á um málskotsrétt þeirra sem ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins beinast að. Ég tel að þegar þetta mál kemur til hv. viðskiptanefndar, milli 2. og 3. umr., hljótum við að þurfa að taka þann þátt málsins til sérstakrar athugunar. Það er nú þannig hjá annarri stofnun hér í bæ, Samkeppniseftirlitinu — þeir sem ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins beinast að þurfa ekki að sætta sig við að það sé einungis eitt málsmeðferðarstig heldur geta þeir áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Því er ekki að heilsa í tilviki Fjármálaeftirlitsins. Það má vera að það væri til mikillar hagræðingar, t.d. fyrir dómskerfið, að koma slíku áfrýjunarstigi á á stjórnsýslustigi frekar en að beina þeim ágreiningsmálum sem upp kunna að koma innan Fjármálaeftirlitsins fyrir dómstóla. Fyrir nú utan það að almennt hefur verið viðurkennt í réttarríkinu og í réttarframkvæmd að réttur manna til að áfrýja eða kæra ákvarðanir stjórnvalda til æðra stjórnvalds sé ein af meginreglum réttarríkisins. Við vitum að þannig er það í dómskerfinu. Menn geta áfrýjað dómum héraðsdóms til Hæstaréttar og í samkeppnisumhverfinu geta menn beint áfrýjunarrétti líka. Ég velti því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum skyldi það ekki vera þannig varðandi Fjármálaeftirlitið. Ég hef reyndar sagt, svo að ég nefni það hér í framhjáhlaupi, að einn gallinn við ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sé sá að úrskurðir þess eru ekki birtir. Menn ættu kannski að velta því fyrir sér hvort ekki væri ástæða til að fara að birta úrskurði Fjármálaeftirlitsins í meira mæli en gert er. Það segir sig sjálft að varnaðaráhrif slíkra ákvarðana hafa minni áhrif en þegar ekki er um birtingu að ræða. (Gripið fram í.) Hér fórnar hv. þm. Lilja Mósesdóttir höndum.

En að lokum þetta: Það sem vekur fyrst og fremst athygli í þessu máli er að ekkert er vikið að eignarhaldi á bönkunum, hvernig það eigi að vera, dreift eða ekki. Ríkisstjórninni er nú kannski vorkunn vegna þess að fjármálaráðherra Vinstri grænna hefur á mettíma einkavætt tvo af þremur stærstu viðskiptabönkunum en upplýsir hvorki þing né þjóð um það hverjir voru hinir raunverulegu kaupendur. Þar kemur bara tvennt til, annaðhvort vill hæstv. fjármálaráðherra ekki upplýsa um það (Forseti hringir.) eða hann veit ekki hverjir eigendurnir eru.