138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:17]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki viss um að ég geti tekið undir það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði um málskot á stjórnsýslustigi. (EyH: Enda svaraðirðu því í ræðunni.) Ég tel, og er ekki eini lögfræðingurinn þeirrar skoðunar, að það væri mjög gott fyrir dómskerfið okkar að hægt væri að útkljá sem flest mál á stjórnsýslustigi til að koma í veg fyrir að mál sem varða samkeppnismál eða fjármálamarkaðinn endi hjá dómstólunum. Til að það sé mögulegt þarf að vera einhver málskotsréttur eða kæruréttur innan stjórnsýslukerfisins. (Gripið fram í: … dómstólana.) Menn hafa talað um að það megi koma upp millidómstigi og svoleiðis. Það eru allt saman hugmyndir sem er þess virði að skoða og ég geri ekki lítið úr því sem hv. þingmaður kallar fram í, að hún vilji að málin séu útkljáð fyrir dómstólunum, en vandinn er sá að dómstólarnir eru að springa vegna málafjölda. Við slíkar aðstæður þurfum við að taka ákvörðun um hvort við ætlum að efla og styrkja dómstólana stórkostlega frá því sem þeir eru núna, eða höfum við hugsanlega einhverjar leiðir innan stjórnsýslunnar til að bregðast við þeim mikla málafjölda sem nú er til staðar og verður til staðar í komandi framtíð?

Varðandi eignarhaldið, fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi er ég þeirrar skoðunar að æskilegast væri að slíta í sundur fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Ég tel að eignarhaldi á bönkum, eins og reyndar alls staðar annars staðar, væri best komið (Forseti hringir.) þannig að bankarnir væru í eins dreifðri í eignaraðild og mögulegt væri (Forseti hringir.) þannig að sem flestir kæmu að stjórn bankans og rekstri og að þar ríkti sem mest samkeppni.