138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að stjórnarliðar hafi ekki tekið þátt í þessari umræðu er hún að mínu áliti mjög góð. Maður mundi ætla að nauðsynlegt væri að fá stjórnarliða að umræðunni til að fá sjónarmið þeirra. Svo allrar sanngirni sé gætt tek ég fram að hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur tekið þátt í umræðunni og sömuleiðis hv. þm. Magnús Orri Schram. Þetta ber hins vegar öll merki þess að stjórnarliðar séu að bíða eftir að þessi umræða sé búin þannig að hægt sé að klára hana. Það er mjög alvarlegt í ljósi þess að tvær staðreyndir liggja á borðinu. Önnur staðreyndin er sú að við förum ekki eftir ábendingum rannsóknarskýrslunnar um að við eigum í máli eins og þessu, það er sérstaklega tekið fram, að vera með skýra pólitíska sýn á það hvernig fjármálakerfi við viljum sjá. Við eigum að byggja á því en það er alveg ljóst að það liggur ekki fyrir.

Hins vegar liggur fyrir, það er hin staðreyndin, að við höfum ekki skoðað rannsóknarskýrsluna og tekið hana inn í þessa vinnu. Það er mjög óskynsamlegt af augljósum ástæðum og þarf í rauninni ekki að rökstyðja. Málatilbúnaður stjórnarliða, það litla sem hefur komið fram, gengur út á að hér sé nefnd á vettvangi þingsins, þingmannanefnd, sem fari yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og við eigum að bíða eftir niðurstöðu hennar. Það stenst ekki nokkra einustu skoðun. Við eigum strax að fara í það og við eigum að reyna að vinna það jafnþétt og -örugglega, hvort sem það er á vettvangi hv. viðskiptanefndar eða með því að bæta við og láta fleiri hópa koma að málinu. Æskilegast væri að það væri eins þverpólitískt og mögulegt er. Við verðum að vinna að því að endurreisa fjármálamarkaðinn og þar á meðal eru að sjálfsögðu lög um fjármálafyrirtæki en því tengjast sömuleiðis lög um Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, endurskoðendur og fleiri þætti. Við erum t.d. hérna að leggja ofsalega mikið traust á Fjármálaeftirlitið. Maður heyrir það á mörgum hv. þingmönnum, það er stundum talað eins og það leysi allan vanda ef bara Fjármálaeftirlitið fjallar um viðkomandi hlut.

Ég vil upplýsa hv. þingmenn, ef það hefur farið fram hjá einhverjum, að Fjármálaeftirlitið samanstendur af fólki. Það er alveg sama marki brennt og fólk almennt, það hefur ekki náð fullkomnun í að vera til og þess vegna geta því jafnvel orðið á mistök. Þess vegna skulum við ekki gera þau mistök aftur að telja að bara með því að setja upp eftirlitsstofnanir og fela þeim verkefni leysum við allan vandann, það er ekki þannig. Við erum líka að búa til falskt öryggi og ýtum því verkefni frá okkur sem við hv. þingmenn eigum að sinna. Við erum að ýta því frá okkur með því að færa álitaefni yfir í Fjármálaeftirlitið og vona að Fjármálaeftirlitið leysi þetta fyrir okkur. Við komumst ekki hjá því þegar við erum að ræða um fjármálamarkaðinn að tala um hvort við eigum að hafa hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Ég nefndi það í upphafi máls míns að umræðan er orðin góð að því leyti til að við erum farin að ræða málið hér. Við eigum að sjálfsögðu að ræða þetta í nefndinni, við eigum að ræða það þegar við semjum frumvarpið en gott og vel, við erum a.m.k. farin að ræða það hér þrátt fyrir að stjórnarliðar taka ekki mikinn þátt í þeirri umræðu.

Hér er spurt um afstöðu þingmanna. Ég get alveg upplýst um mína afstöðu, ég tel mjög mikilvægt að það sé hámarkseignarhlutur í fjármálafyrirtækjum. Því geta fylgt ákveðnir gallar sem felast í því að tiltölulega lítill hópur aðila, m.a. stjórnvalda, getur haft gríðarlega mikil völd og kannski ekki nægt aðhald. Það er alþjóðlegt vandamál. Ef það er mjög dreifð eignaraðild þýðir það að viðkomandi framkvæmdastjórar hafa alveg gríðarleg völd og lítið aðhald. Það eitt og sér er ekki gott. Ég hvet alla til að lesa stuttan en afskaplega góðan kafla í rannsóknarnefndarskýrslunni eftir Mark J. Flannery. Hann fer ágætlega yfir það af hverju fjármálaþjónusta er svona mikilvæg. Í örstuttu máli er röksemdafærsla hans þessi: Fjármálafyrirtæki hefur áhrif á miklu fleiri en þá sem hafa beinna hagsmuna að gæta, miklu fleiri en bara eigendur, viðskiptavini og starfsmenn. Það getur verið keðjuverkun ef viðkomandi fjármálafyrirtæki fer á höfuðið. Það gerir það að verkum að almenna reglan er sú hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við að þær beita ráðum til að koma í veg fyrir að fjármálafyrirtækin fari á höfuðið. Þetta hefur ekkert með Ísland að gera, út af því að við Íslendingar erum ný í þessu vorum við ekki meðvituð um það. Það fyrirkomulag ýtir undir áhættusækni hjá eigendum og þess vegna telur ríkið eðlilegt, og löggjafinn, að reyna að lágmarka áhættusæknina hjá viðkomandi fyrirtækjum. Þau lönd sem eru vön því að hafa eftirlit með svona alþjóðlegri bankastarfsemi, eins og Holland, Belgía, Sviss, Singapúr og Hong Kong, komu betur út úr þessari alþjóðlegu bankakreppu en við, enda mun vanari því að standa í þessu.

Aðgerðir stjórnvalda um að takmarka áhættu bankanna eru almennt kallaðar varúðarreglur eða „prudential regulations“. Ég tel minni hættu á misnotkun ef eignaraðildin er dreifð. Það þurfa í það minnsta fleiri en færri að koma að því að reyna að búa til misnotkun ef eigendur ætla sér að gera eitthvað sem þeir ættu ekki að gera við banka. Kannski á það sérstaklega við um þennan markað okkar. Við eigum alveg eftir að móta þá stefnu sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að við þurfum að gera, móta stefnu um það hvers konar starfsemi er á fjármálamarkaði, hvaða umfang getur samrýmst stærð og getu þjóðarbúsins ef kemur til áfalla. Við þurfum síðan að fylgja þeirri stefnu eftir og við þurfum að búa til tækin til að gera það. Grundvallarspurningin er: Hvaða umfang viljum við sjá og hvernig bankakerfi? Síðan fylgir í rauninni allt annað í kjölfarið, eins og t.d. tækin til að fylgja því eftir. Ef við byrjum á öfugum enda sköpum við hættu á öðru hruni, það er ekkert öðruvísi. Við fyrirbyggjum það ekki.

Mér finnst þessi skýrsla sýna það sem ég er t.d. algerlega sannfærður um, að það hafi verið mikil mistök að aðskilja Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Núverandi seðlabankastjóri kom í viðskiptanefnd út af öðru máli og hann sagði: Það er engin yfirsýn yfir fjármálastöðugleikann, hún er ekki til staðar. Verkaskipting Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans var ekki og er ekki skýr. Ef við ætlum í fullri alvöru að segja að við séum að stíga skref til að endurvekja fjármálamarkaðinn, hvernig getum við trúað því að við séum að gera eitthvað sem skiptir máli þegar við tökum ekki á þessu? Það dugar ekki að segja að í gangi sé nefnd sem eigi að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og leysa þetta. Ég veit fyrir víst að hún er með gríðarlega stórt verkefni, það veit öll þjóðin. Við þingmenn getum ekki ýtt þessu frá okkur, allra síst hv. þingmenn í viðskiptanefnd. Við eigum að fjalla um þetta. Við getum ekki beðið með þetta. Við getum ekki vonast eftir því að nefndin sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndarinnar eða efnahags- og viðskiptaráðuneytið verði með eitthvert frumkvæði í þessu máli. Við verðum að vita hvernig menn ætla að vinna þessa hluti þannig að ef menn spyrja um afstöðu er engin spurning í mínum huga að það er skynsamlegt að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Menn hafa að vísu ekki spurt mig en nokkra aðra.

Varðandi það hvort reka eigi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka í einni stofnun skal ég bara viðurkenna að það er ástæða fyrir því að ég vil taka þá umræðu. Mér finnst ekki alveg klippt og skorið hvað sé rétt í því og ég tel algjöra nauðsyn að fara í þá umræðu. Ég vil í það minnsta vita þegar við erum búin að taka ákvörðun. Auðvitað erum við að taka ákvörðun með þessu frumvarpi. Við erum að taka ákvörðun um að fjárfestingarbankar og viðskiptabankar séu í einni stofnun og þá er að vita af hverju það er gott. Því miður voru orð hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan ekki sannfærandi. Þau gengu út á að sparisjóðirnir ættu að vera valkostur þannig að fólk veldi á milli þess að geta farið í annars vegar fjárfestingarbanka og viðskiptabanka í einni sæng og hins vegar sparisjóði. Sparisjóðamálið er allt fullkomlega upp í loft og ég vek athygli á því að ástæðan fyrir því að almenna reglan um eiginfjárhlutfall eða stofnfé var sett inn er sú að vernda þá sem eru í viðskiptum við viðkomandi fjármálastofnun. Þegar kemur að sparisjóðum ætlum við að lækka þann þröskuld sem er í rauninni þvert á hagsmuni viðskiptavinanna. Með því að vera með fimm sinnum lægra stofnfé hjá sparisjóðum en hjá öðrum fjármálastofnunum aukum við hættuna á því að viðkomandi sparisjóður geti ekki sinnt hlutverki sínu og hann gæti þá farið á hliðina með slæmum afleiðingum fyrir þá sem eiga viðskipti við hann.

Haldreipið er að sparisjóðurinn eigi að starfa á afmörkuðum markaði og Fjármálaeftirlitið á einhvern veginn að redda því. Það væri ágætt að fá að vita um skoðanir hv. stjórnarliða. Hvernig á þessi afmarkaði markaður sparisjóðanna að vera, t.d. á höfuðborgarsvæðinu? Hver er afmarkaður markaður sparisjóða á höfuðborgarsvæðinu? Er það Grafarvogur? Eru það Grafarvogur og Árbær? Er það öll Reykjavík? Er það bara Hafnarfjörður? Hvað ætla menn að gera? Ætla menn að koma í veg fyrir það, ef niðurstaðan er Grafarvogur, að Vesturbæingar eigi viðskipti við viðkomandi sparisjóð? Hver er hugsunin bak við það? (Gripið fram í.) Ætla menn að binda þetta úti á landi við ákveðin landsvæði, Skagafjörð? Við þyrftum þá væntanlega að koma í veg fyrir að sparisjóðurinn í Skagafirði væri á netinu því að þá gæti einhver Skagfirðingur sem væri flúinn til höfuðborgarsvæðisins kannski seilst í það að eiga viðskipti við viðkomandi sparisjóð.

Virðulegi forseti. Við erum ekkert búin að taka á þessu máli varðandi sparisjóðina. Við erum að ýta því — við getum kallað það mál, vandamál eða verkefni — yfir til Fjármálaeftirlitsins og vonum að það leysist einhvern veginn. Við erum búin að ríkisvæða sparisjóðina að stærstum hluta og það er engin sýn sem er mótuð af löggjafanum, engin sýn hjá framkvæmdarvaldinu um hvernig við sjáum það umhverfi. Og hvað þýðir það? Það þýðir að vandamálið er til staðar og það eru miklu meiri líkur á að það muni vaxa en hitt. Vandinn er nefnilega sá, og það tengist líka spurningunni um fjárfestingarbankana og viðskiptabankana og mjög sparisjóðunum, að hefðbundin viðskiptabankastarfsemi hefur ekki gengið vel. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið í viðskiptanefnd gekk hún ekki einu sinni vel í góðærinu. Menn hafa m.a. bent á að þetta séu of litlar einingar fyrir íslenskan markað og eru ekki síst að tala um stóru bankana. Við höfum ekkert farið í þessa (Forseti hringir.) grundvallarspurningu, virðulegi forseti, og það þýðir að ekki bara þetta rauða ljós hér blikkar, heldur blikka öll viðvörunarljós þegar kemur að (Forseti hringir.) fjármálamarkaðnum.

(Forseti (ÁRJ): Og bjallan glymur.)