138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur kærlega fyrir ræðu hennar. Ég vil líka gjarnan þakka þingmanninum fyrir samstarfið í viðskiptanefnd en hún er nýhætt þar inni.

Hv. þingmaður bar fram margar spurningar þegar við vorum að vinna þetta mál í nefndinni sem fékk okkur til að hugsa um það hvað við værum að gera. Eitt af því sem þingmaðurinn talaði mjög mikið um var það að við værum að búa til ákveðið falskt öryggi og þá sérstaklega gagnvart Fjármálaeftirlitinu með því að setja svona ítarlega og flókna löggjöf og telja okkur trú um að þar með værum við búin að tryggja að það sem gerðist mundi ekki koma fyrir aftur.

Önnur spurning sem mér fannst vera mjög áhugaverð hjá hv. þingmanni er spurning sem hún tók upp aftur frá því í sumar: Hvað er sparisjóður? Er sparisjóður sparisjóður þegar ríkið á orðið allt stofnfé í honum? Önnur spurning sem þingmaðurinn hefur líka mikið velt fyrir sér er hvernig ríkisvaldið ætlar út úr sparisjóðunum.

Ég hef lagt fram breytingartillögu af því að ég tel að þegar ríkið er orðið eini stofnfjáreigandinn séu þau samfélagslegu tengsl sem sparisjóðirnir hafa í gegnum stofnfjáreigendurna rofin og því legg ég fram ákveðna breytingartillögu varðandi stjórnarsamsetninguna.

Ég hefði hins vegar áhuga á að heyra það frá þingmanninum hvers konar samsetningu á fjármálamarkaði hún sér fyrir sér í framtíðinni. Getur ríkisvaldið t.d. farið út úr sparisjóðakerfinu? Það er síðan önnur spurning sem ég hef velt fyrir mér og það varðar skoðun þingmannsins, og annarra þingmanna sem hafa hér talað, á því hvort við eigum að vera með dreift eignarhald eða ekki eða hvort við eigum að vera með einhvers konar blöndu, hvort það sé ekki nein (Forseti hringir.) ein regla sem við getum sett varðandi samsetninguna á fjármálamarkaði og eignarhaldinu.