138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[18:04]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í mína aðra ræðu og mun einbeita mér að því að tala um afmarkaða liði í þessu frumvarpi sem fjalla um það hvernig eigi að setja saman eina stóra lánabók sem á að vera í Fjármálaeftirlitinu sem á að varpa einhverju ljósi á þá kerfisáhættu sem er í fjármálakerfinu.

Í nóvember 2008 fékk ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar einn fremsta sérfræðing á sviði reglna á fjármálamarkaði, Kaarlo Jännäri, til að taka að sér að gera úttekt á íslenska fjármálakerfinu, reglum á íslenskum fjármálamarkaði. Það er skemmst frá því að segja að Kaarlo Jännäri skilaði af sér skýrslu sem var birt í mars 2009, mánuði eftir að minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar með stuðningi Framsóknarflokksins tók við, þannig að það er orðið þó nokkuð um liðið síðan Kaarlo Jännäri benti á að það þyrfti að skoða betur reglugerðaumhverfið og sníða af því annmarka.

Eitt af því sem Kaarlo Jännäri benti á sem eina af frumástæðum hrunsins eins og það blasir við af lestri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var að til þess að styrkja eftirlitshlutverkið, til þess að gera sér betur grein fyrir þeirri áhættu sem lægi í kerfinu, skyldi koma upp lánabók þar sem tengdar væru saman áhættur milli mismunandi fjármálastofnana, þá áhættur einstaklinga og lögaðila, þannig væri hægt að gera sér betur grein fyrir því hver hin raunverulega áhætta væri og bregðast við í tíma. Þar sem Seðlabanki Íslands gegnir því hlutverki samkvæmt lögum að fylgjast með fjármálastöðugleika í landinu og kerfisáhættu lagði hann til að þessi lánabók yrði höfð í Seðlabanka Íslands, sem er augljóst.

Ég talaði hér um daginn í ræðu um hlutverk Fjármálaeftirlits og hlutverk Seðlabanka í eftirliti með fjármálakerfinu. Þar líkti ég hlutverki Seðlabankans við starf skógarvarðar en hlutverki Fjármálaeftirlitsins við starf þess sem fylgist með að hvert einstakt tré í skóginum sé heilbrigt. Ég benti jafnframt á að með þessari hlutverkaskipan gæti verið mikil hætta á að upplýsingar féllu milli skips og bryggju, þ.e. að í augum skógarvarðarins sem horfir yfir trén í skóginum lítur skógurinn út fyrir að vera heilbrigður en sá sem fylgist með trjánum, hverju og einu tré, gerir sér grein fyrir að það eru einhver sjúk tré í skóginum en stendur í þeirri meiningu að skógurinn sé heilbrigður þegar litið er á heildina.

Þetta er nákvæmlega það sem gerðist í þessu hruni sem við vorum með hérna, Fjármálaeftirlitið leit fram hjá kerfisáhættu, ekki af því að það væri að vanrækja á einn eða neinn hátt hlutverk sitt heldur vegna þess að það var ekki í verkahring þess. Seðlabankinn hafði ekki aðgang að upplýsingunum. Þess vegna lagði Kaarlo Jännäri þessa lánabók til í þeirri skýrslu sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar bað hann um að gera og að hún yrði í Seðlabankanum.

Þegar mælt var fyrir frumvarpinu við 1. umr. í janúar sáum við viðbrögð íslenskra stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, við þessum tilmælum. Það er samþykkt. Jú, jú, við skulum setja upp lánabók, en hvar skyldi hún vera staðsett? Hún er staðsett hjá þeim aðilanum sem á ekki að fylgjast með kerfisáhættunni, sem á ekki að fylgjast með fjármálastöðugleikanum. Hún verður hjá Fjármálaeftirlitinu. Ég verð að segja að frumvarpshöfundar hafa eitthvað misskilið út af hverju átti að halda á þennan hátt utan um þessa lánabók, til hvers hún væri yfirleitt. Þeir hafa misskilið í hverju ráðleggingar Kaarlos Jännäris fólust í raun og veru.

Þetta er eitt.

Ég hef mjög talað fyrir því alveg frá því snemma árs 2006 að til þess að forðast það að upplýsingar og viðbrögð féllu milli skips og bryggju ætti að sameina Seðlabanka og Fjármálaeftirlit. Við getum skilið einhvern hluta af Fjármálaeftirliti eftir fyrir utan Seðlabanka, þann hluta sem sér um neytendavernd, það er óþarfi að setja neytendaverndina inn í Seðlabankann, en með þessu er ég þeirrar eindregnu skoðunar að mun betur sé hægt að fylgjast með fjármálastöðugleika. Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að ef eftirlitsramminn hefði verið svona hefði verið hægt að gera sér betur grein fyrir kerfisáhættunni, fyrir samanlagðri áhættu í kerfinu, og þá hefði verið hægt að grípa fyrr inn í. Þá hefði Seðlabankinn haft verkfærin og þekkinguna og hann hefði getað farið mun fyrr í að koma í veg fyrir að sú kerfisáhætta sem leiddi til falls íslensku bankanna hefði hlaðist upp.

Þetta er einn liður í skýrslunni.

Nú um mundir fer fram gríðarlega mikil endurskoðun á reglum á fjármálakerfinu alls staðar í heiminum. Menn vilja læra af þeim mistökum sem voru gerð með bylgjunni sem leiddi til þess að fjármálaeftirlit og seðlabankar voru aðskildir. Menn vilja endurskoða lagaverkið og takast á við þau vandamál sem leiddu til þess ástands sem nú ríkir í heiminum. Þetta er gríðarmikil vinna. Margir sérfræðingar sem og alþjóðastofnanir vinna að þessu. En við Íslendingar virðumst ekki þurfa að hafa miklar áhyggjur af þessu. Við höfum efnahags- og viðskiptaráðherra sem snarar þessu bara fram, skellum lánabókinni sem Kaarlo Jännäri lagði til inn í Fjármálaeftirlitið af því að skilningur er ekki á því að lánabókin er til að fylgjast með kerfisáhættunni. Allt er þetta í skötulíki.

Með því er ég þó ekki að segja að ekki séu ljósir punktar í þessu frumvarpi. Eins og okkur þingmönnum hefur orðið svo tíðrætt um hér í dag er þó frumvarpið bútasaumur og engan veginn frambærilegt til þess að takast á við þau vandamál sem við höfum staðið frammi fyrir (Forseti hringir.) og viljum koma í veg fyrir að verði endurtekið.