138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[18:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma að við þessa umræðu.

Í fyrsta lagi vildi ég taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði og fleiri hafa nefnt hér, að það er áríðandi að skoða löggjöf á þessu mikilvæga sviði heildstætt þannig að ekki sé um að ræða sundurlausar breytingar sem leiða hugsanlega til annarra breytinga í nálægri framtíð. Þess vegna þurfum við að horfa á hlutina heildstætt og það er því ekkert óeðlilegt þó að hér í þessari umræðu hafi ítrekað verið kallað eftir því að löggjöf sem fjármálakerfið á að byggja á sé reist á grundvelli pólitískrar stefnumörkunar um hvers konar fjármálakerfi við viljum byggja upp hér.

Ég vildi nefna af hverju við, talsmenn Sjálfstæðisflokksins, tölum um þessa þætti við þessa umræðu.

Það er staðreynd að bankakerfið eins og það var hrundi og við erum núna á fyrstu skrefunum við að byggja upp einhvers konar bankakerfi aftur. Það er í mótun og við þurfum að taka stefnumarkandi ákvarðanir um hvernig við mótum það. Það er ljóst að alls konar atriði skipta máli í þessu sambandi, t.d. að eignarhaldið á bönkunum, Arion banka og Íslandsbanka, er ekki ljóst. Ætla má að þó að fyrir liggi að ótilgreindir kröfuhafar séu í raun eigendur þessara banka sé engin ástæða til þess að ætla að svo verði um langa hríð. Stefna varðandi eignaraðild er því eitt af því fyrsta, hefði ég haldið, sem taka þyrfti afstöðu til. Sama má raunar segja um Landsbankann. Hann er að stærstum hluta í eigu ríkisins en ég á bágt með að sjá það fyrir mér að svo verði um langa hríð. Ég geri ekki ráð fyrir því að Landsbankinn verði ríkisbanki lengi. Enginn getur sagt fyrir um tímamörk í því sambandi í dag en eftir því sem ég hef lesið umræðuna, bæði hér innan þings og utan, eru það aðeins hv. þingmenn og talsmenn Vinstri grænna sem hafa þá skýru framtíðarsýn að Landsbankinn eigi að vera ríkisbanki til framtíðar. Aðrir tala með öðrum hætti, þar á meðal samstarfsflokkur Vinstri grænna í ríkisstjórn.

Það er ljóst að hvað eigendaþáttinn varðar sjáum við fyrir okkur mikla mótun, mikla gerjun og miklar breytingar á næstu missirum. Það er því ekki að ástæðulausu sem kallað er eftir að tekin sé afstaða til grundvallarspurninga á þessu sviði nú þegar við förum yfir löggjöf um fjármálamarkaðinn.

Síðan eru fleiri atriði sem má nefna í þessu sambandi. Eitt er spurningin um hvaða atriði það eru sem eiga í raun og veru að vera í lögum eða opinberum reglum og hvaða atriði eiga að lúta ákvörðunum um eftirlitsstjórnvald. Við lestur þessa máls veiti ég því athygli að frumvarpshöfundar og raunar meiri hluti viðskiptanefndar virðast vísa afskaplega mörgum álitamálum, mikilvægum álitamálum, til mats hjá Fjármálaeftirlitinu án þess að löggjafinn taki afstöðu til þeirra. Ég gæti farið yfir dæmi um það í löngu máli, ég sé dæmi um það víða í frumvarpinu, þ.e. að í stað þess að Alþingi sem löggjafi taki afstöðu til tilhögunar einhverra tiltekinna mála, hver viðmiðunarmörk eiga að vera í ákveðnum tilvikum og annað þess háttar, er þeim vísað til eftirlitsaðilans. Það er mjög umdeilanlegt. Það er mjög umdeilanleg aðferð við lagasetningu. Hún er að vísu ekki nýmæli. Ákvæði af þessu tagi hafa verið fyrir hendi áður en það má spyrja hvort þau hafi reynst vel. Hefði í mörgum tilvikum ekki verið betra ef Fjármálaeftirlitið hefði haft við skýrar lagareglur að styðjast í eftirlitsstörfum sínum í stað þess að hafa einungis almennt orðaða heimild til að grípa inn í við tilteknar aðstæður? Ég held að það sé verulegt umhugsunarefni og hefur kannski ekki verið mikið rætt hér í dag en er þó atriði sem ég tel að hv. viðskiptanefnd eigi að skoða.

Þetta nefni ég ekki vegna þess að ég beri sérstakt vantraust til Fjármálaeftirlitsins, en vandi opinberrar stofnunar, eftirlitsstjórnvalds, sem þarf að taka matskenndar ákvarðanir er auðvitað margþættur. Vandinn er m.a. fólginn í því að eftirlitsstjórnvaldið er að jafnaði bundið af valkvæðum stjórnsýslulaga, það þarf að gæta meðalhófsreglu og þess háttar. Þess vegna er alltaf tilhneiging hjá eftirlitsstjórnvaldi að fara varlega með heimildir sínar. Það er eðlilegt. Við þingmenn á löggjafarsamkomunni getum því ekki vísað allt of mörgum vafamálum til eftirlitsstjórnvaldsins. Það eru fjölmörg atriði sem við þurfum að taka afstöðu til sjálf. Mér finnst að þetta kalli á að ýmsir þættir í frumvarpinu séu endurskoðaðir.

Við megum ekki rugla því saman. Það er mikið talað um að í frumvarpinu og í nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar sé verið að auka valdheimildir Fjármálaeftirlitsins. Það er rétt í sumum tilvikum. En það er ekki endilega það sama að fela stofnun að taka matskenndar ákvarðanir um einhver tiltekin atriði og auka valdheimildir hennar því að samkvæmt stjórnsýsluréttinum þarf viðkomandi stofnun að gæta að ýmsum reglum stjórnsýslulaga við ákvarðanir sínar, þar á meðal og ekki síst meðalhófsreglu. Það getur temprað stofnunina í að beita valdi sínu. Þess vegna kann að vera skynsamlegra þegar menn vilja ná fram einhverjum markmiðum að löggjafinn taki afstöðuna en vísi ekki vandanum á eftirlitsaðilana. Með því að vísa vandanum yfir á eftirlitsaðilann er ekki endilega verið að auka valdheimildir hans. Það er ekki samasemmerki þar á milli. Það er umhugsunarvert.

Raunar er af sama toga það sem töluvert oft hefur komið fram í umræðunni, að vísað er til þess að þeim stóru spurningum sem við höfum vakið athygli á að ekki sé svarað í þessu frumvarpi og þær hljóti að koma til skoðunar síðar. Mér finnst nú stjórnarmeirihlutinn ýta svolítið vandanum á undan sér þar. Í staðinn fyrir að reyna að takast á við þessi álitamál núna er verið að ýta vandanum yfir á aðrar nefndir, á aðra lagasetningu síðar. Það er spurning hvort það sé rétta leiðin til þess að nálgast þetta núna.

Að þessu sögðu vil ég geta þess að það eru ýmsir þættir jákvæðir í þessu. Við athugun á málinu held ég að ýmsar af þeim tæknilegum breytingum sem þarna er að finna geti verið til bóta og tel að þarna sé ýmislegt sem er vel þess virði að færa inn í löggjöfina. En hins vegar er ég þeirrar skoðunar að sé það ætlun stjórnarmeirihlutans á þingi að ljúka málinu á þessu þingi, annaðhvort nú í júní eða hugsanlega á þeim tíma sem við höfum í september, þurfi að vinna málið töluvert betur. Ég er ekki að gera lítið úr vinnu hv. viðskiptanefndar, ég held hins vegar að hún þurfi að leggja enn meira á sig vegna þess að þarna er um að ræða svo mikilvægt svið og við höfum vandamálið frammi fyrir okkur. Við þurfum að finna lausnirnar á því og við getum ekki skotið því á undan okkur. Eins og hv. þm. Óli Björn Kárason sagði rétt áðan getur það skapað falskt öryggi ef við samþykkjum löggjöf sem gefur sig út fyrir að vera lausn á vandanum en er það svo kannski ekki þegar til kastanna kemur.

Ég nefndi í upphafi máls míns ýmsar spurningar sem við þurfum að svara í þessu sambandi. Auðvitað getur verið að þróun í löndunum í kringum okkur, einkum á hinu Evrópska efnahagssvæði, kalli á frekari breytingar á þessu sviði. Þess vegna innti ég eftir því í andsvörum fyrr í dag að mikilvægt væri að það sem við værum að gera hér væri í nokkru samræmi við það sem er að gerast annars staðar á hinu Evrópska efnahagssvæði innan Evrópusambandsins þar sem við vitum að stendur yfir vinna við lagabreytingar eða breytingar á regluverki sem munu með tímanum leiða til þess að Ísland þarf að taka upp breytingar í löggjöf sinni.

Hv. varaformaður viðskiptanefndar, Magnús Orri Schram, svaraði því í nokkrum atriðum með því að vísa til þess, eins og kemur raunar fram í greinargerð með frumvarpinu, að viðskiptaráðuneytið og þeir sem unnu að málinu af þess hálfu fylgdust auðvitað með því starfi sem þar væri unnið. En ég held að við þurfum að fá frekari upplýsingar um þróunina sem ætla má að verði þar þannig að við stígum ekki einhver skref í dag sem við gætum þurft að breyta innan mjög skamms tíma.

Á markaði eins og fjármálamarkaðnum verður auðvitað alltaf einhver þróun sem kallar á lagabreytingar. Hins vegar er ekki góð lagasetningaraðferð að gera eins og við höfum því miður gert á mörgum umliðnum árum, að taka inn í þingið, jafnvel á hverju einasta þingi, mikla breytingarlagabálka sem varða fjármálamarkaðinn. Slíkt leiðir til þess að það verður erfiðara fyrir þá sem starfa á markaðnum að átta sig á hvaða reglur gilda og erfiðara fyrir eftirlitsaðilana að fylgja reglunum eftir. Það er mikil vinna og dýrt að fylgjast með og uppfæra kerfi og annað slíkt til þess að það samræmist breytingum á lögum þannig að það er betra að lagabreytingar eigi sér stað hægar. Frá því að ég kom hér inn fyrir bráðum sjö árum hafa viðamiklir lagabálkar um fjármálamarkaðinn komið inn á svo til hvert einasta þing sem allir hafa falið í sér töluverðar breytingar, hvort sem er á lögum um fjármálafyrirtæki, um verðbréfaviðskipti, um Kauphöll eða lög á skyldum vettvangi.

Það sem ég vara við með almennum orðum er að það er ekki endilega rétta leiðin að gera þetta eins og frumvarpið mælir fyrir um heldur frekar að reyna að gera löggjöfina þannig úr garði að hún kalli ekki á stöðugar breytingar frá ári til árs, jafnvel frá einu missiri til annars. Það þarf að reyna að ganga þannig frá málum að bæði þeir sem starfa á markaðnum, þeir sem eiga að fylgjast með honum, svo ekki sé talað um viðskiptavinina, hafi nokkuð glögga mynd af því hvaða regluverk er til staðar.

Það er kannski við hæfi að ég ljúki máli mínu á þeim nótum að segja að hvort sem það er á fjármálamarkaði eða öðrum mörkuðum, leysum við ekki öll mál með reglum og eftirliti. Við þurfum að hafa reglurnar og við þurfum að hafa þær skýrar. Við þurfum að hafa það klárt hvenær þær eru brotnar og við þurfum að hafa úrræði til að bregðast við því þegar þær eru brotnar. En magn reglnanna er ekki endilega mælikvarði á gæðin. Þetta sjónarmið stangast svolítið á við það sem við fáum frá hinu ágæta Evrópusambandi þar sem lengd lagatexta er mælikvarði á afköst starfsmanna og árangur. Þrátt fyrir að við viljum halda okkar lagasetningu í takt við það sem gerist annars staðar verðum við að gæta okkar á því að falla ekki í þá gryfju að halda að magnið tryggi gæðin á þessu sviði.

Fjármálamarkaðurinn er, eins og margnefnt hefur verið hér í umræðunni, eitt af mikilvægustu sviðum samfélagsins. Þarna er um að ræða markað sem hefur með beinum hætti áhrif á stöðu bæði heimila og fyrirtækja. Uppbygging fjármálamarkaðarins á næstu missirum og árum er grundvallarforsenda þess að við náum okkur upp úr þeirri kreppu sem við erum í. Bankarnir hafa gríðarlega miklu hlutverki að gegna við það uppbyggingarstarf. Við verðum að gæta þess að á sama tíma og við lærum af reynslu liðinna ára, af því sem fór úrskeiðis, og reynum að bregðast við því þurfum við líka að gæta þess að fjármálamarkaðurinn hafi möguleika á því að byggjast upp að nýju og verði ekki reyrður svo í regluverk að hann geti ekki þjónað viðskiptavinum sínum, hvort sem er einstaklingum eða fyrirtækjum, eins og fjármálastofnanir eiga að gera.