138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[19:53]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þegar litið er til þeirra banka sem þarna um ræðir, Glitnis banka og Arion banka, sem eru lánardrottnar mikilvægustu fyrirtækjanna á Íslandi, að það skipti máli hverjir véla um þessa banka. Ég geri mér grein fyrir því að það eru í stjórnir í bönkunum, slitastjórn og skilanefndir. Ég skil reyndar ekki, og ég held við þurfum líka að fara að ræða það, hversu lengi þessar skilanefndir eiga að starfa. Þessar skilanefndir eru í raun annar banki. Það er bara verið að reka hér fleiri banka og þeir taka alls konar ákvarðanir. Það er erfitt fyrir okkur, hv. þm. Magnús Orri Schram, þegar við förum í þessa umræðu að við fyllumst ótta því að við vitum ekkert meira um hverjir þessir kröfuhafar eru og hvaða hagsmuni þeir hafa af rekstri bankanna en við gerðum áður en hrunið varð. Það hefur nú komið í ljós að menn hafa haft net félaga og eignarhaldsfélaga til þess að fela eignarhald sitt. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta gerðist meðan Sjálfstæðisflokkurinn var við völd. Þetta er nokkuð sem ég held að enginn hafi haft hugmyndaflug til að ímynda sér að hægt væri að gera.

Ég er viss um að hv. þingmaður er sammála mér um að við viljum ekki hafa það þannig aftur. Ég heyri alveg hvað hv. þingmaður segir en það svarar ekki þessari grundvallarspurningu um hverjir stjórna. Við erum búin að setja upp kerfi sem veldur mér verulegum áhyggjum varðandi hagsmuni kröfuhafa eða hvert þessi fyrirtæki stefna, ég hef ekki fengið sannfæringu fyrir því hverjir véla um þessa hluti og ég vil fá þær upplýsingar.