138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[19:57]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta nú vera pínulítil hártogun sem hér á sér stað. Ég geri mér fulla grein fyrir því og veit að það eru ákveðnar reglur sem gilda um gjaldþrotaskipti og slitarétt og þegar tekin er afstaða til krafna og slíkra hluta. Ég átta mig líka á því að það þarf að fara eftir ákveðnu ferli í þeim efnum, ég geri ekki athugasemd við það. Ég ætla samt að segja að þegar þær ákvarðanir voru teknar að setja skilanefndir yfir þessa föllnu banka, þegar sú ákvörðun var tekin að fela Fjármálaeftirlitinu það gríðarlega vald sem það hefur yfir þessum bönkum á haustmánuðum 2008 þegar allt hrundi hér, voru menn að reyna að bjarga því sem bjargað varð, að bjarga verðmætum.

Nú finnst mér vera kominn tími til að við veltum því fyrir okkur hversu lengi við ætlum að hafa það fyrirkomulag að reka hér skilanefndir sem höndla með eigur þessara banka. Mér finnst vera kominn tími til þess að það fari fram pólitískt mat á því hversu heppilegt það er. Ég tek t.d. Landsbankann sem dæmi, það er banki sem hefur töluvert verið í umfjöllun í hv. fjárlaganefnd vegna Icesave-málsins. Þar er að störfum skilanefnd sem reynir auðvitað að hámarka virði bankans en það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að sú skilanefnd eigi að vera að störfum árum saman. Við hliðina á henni er auðvitað slitastjórnin sem gegnir öðru hlutverki, þar eru hlutir á ferðinni sem við gerum okkur grein fyrir að taka langan tíma.

En varðandi umræður um skilanefndirnar, nú eru bráðum liðin tvö ár frá því að við ákváðum að setja þetta kerfi á fót. Ég hef ekki orðið vör við að við höfum rætt það nógu mikið hér hversu heppilegt það er. Ég held að það sé eitt af því sem væri æskilegt fyrir hæstv. viðskiptanefnd að velta fyrir sér þegar horft er til þeirrar stefnumótunar sem ég kalla mjög svo eftir, virðulegur forseti.