138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[20:19]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég ætla bara að draga fram þrjú, fjögur atriði sem vert er að hafa í huga.

Það hefur skýrt komið fram af hálfu meiri hluta viðskiptanefndar í umræðu í nefndinni og jafnvel líka við umræðu hér að þetta frumvarp er fyrsta frumvarpið sem tekur á fjármálageiranum. Tvö önnur frumvörp eru nú á vinnslustigi í ráðuneytinu og munu líta dagsins ljós á haustþingi. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að farið verði í allsherjarstefnumótun og byggt á rannsóknarskýrslunni en ljóst er að þetta frumvarp sem við erum með til umfjöllunar tekur á fjölmörgum atriðum sem fram koma í títtnefndri rannsóknarskýrslu.

Fyrir viðskiptanefnd liggur nú frumvarp um innstæðutryggingar. Það er skýringin á því að það er ekki að finna í því frumvarpi sem hér er til umræðu. En um umræðuna almennt sem hefur verið að þróast í dag vil ég segja að við lögðum okkur sérstaklega fram um það í meiri hluta viðskiptanefndar að þetta frumvarp, sem er flókið, fengi eðlilega og góða umfjöllun á vettvangi nefndarinnar. Við lögðum okkur fram um að hlusta vel eftir öllum þeim sjónarmiðum sem þar komu fram bæði af hálfu meiri hluta og minni hluta og skoða þau atriði sem allir, minni hluti og meiri hluti eða einstaka þingmenn töldu vert að kanna betur og kölluðum inn gesti o.s.frv. Ég tel að vinnan í nefndinni hafi tekist vel. Hins vegar er það um leið mjög athyglisvert að verða vitni að því í dag að það virðist blossa upp gríðarlegur ágreiningur um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Ég sem varaformaður nefndarinnar vissi ekki betur en að þótt ekki væru kannski allir fullkomlega sammála ríkti tiltölulega mikil sátt um þá nálgun sem hér er höfð í huga, þetta væri jákvætt skref í rétta átt. En um leið endurtek ég það sem ég sagði áður: Þetta er ekki allt skrefið.