138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[20:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem skapast hefur um þetta merkilega mál í dag en eins og menn hafa kannski skilið af umræðunni eru ansi skiptar skoðanir um hvort frumvarpið gengur nógu langt. Það hefur varla farið fram hjá neinum að það efnahagshrun sem varð haustið 2008 olli ýmsum breytingum og ýmsum væntingum um breytingar. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni fyrr í kvöld að það voru m.a. alþingiskosningar og hér á þingi tóku sæti 27 nýir þingmenn sem ég stóð í þeirri meiningu að ætluðu að bjóða sig fram af fullum heilindum og hafa gert það til að taka á þessu efnahagshruni, vinna úr því og vinna að þeim breytingum sem nauðsynlegar eru.

Það er rúmlega eitt og hálft ár frá hruni þannig að það er auðvitað kominn tími til að stjórnvöld sýni okkur hvert skal stefna. Þess vegna vekur það athygli að ekki sé skýrari stefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar og ekki skýrari heildarsýn sem birtist okkur í þessu frumvarpi á hvaða umgjörð skuli smíðuð utan um fjármálafyrirtækin í landinu. Þetta höfum við sjálfstæðismenn mörg hver gagnrýnt í umræðunni í dag og það er full ástæða til að ítreka þessi sjónarmið hér.

En það eru aðallega tvö atriði sem mig langar til að fara yfir á þeim stutta tíma sem ég hef til að fjalla um þetta merkilega mál. Það eru annars vegar sparisjóðirnir en þeir voru eitt af mínum fyrstu málum sem ég ræddi um í ræðustól sl. sumar, í júní fyrir ári síðan. Þá spurði ég hæstv. fjármálaráðherra um það hver væri stefna ríkisstjórnarflokkanna varðandi framtíðarskipan sparisjóðanna. Nú er komið heilt ár og ég sé að ég get endurtekið þessa spurningu mína vegna þess að henni hefur ekki enn verið svarað, því miður. Það veldur mér ákveðnum áhyggjum að ríkisstjórnin geti varla sett fram skýra sýn í nokkru einasta máli. Það sjáum við alla vega ekki varðandi þetta mikilsverða málefni.

Í breytingartillögum meiri hlutans er að vísu mælt fyrir um að minni kröfur um stofnfé verði að ræða þegar um er að ræða sparisjóð sem starfar á staðbundnum afmörkuðum markaði. Þetta er frekar flókið og er, að ég tel, nýjung í löggjöf okkar. Þá er það spurningin um hver það er sem á að skilgreina hvað er staðbundinn afmarkaður markaður. Miðað við orðanna hljóðan er í breytingartillögu meiri hlutans átt við að það sé Fjármálaeftirlitið sem eigi að meta þetta. Ég veit ekki alveg hvort þetta er hugsað nógu djúpt eða hvernig þetta er rökstutt nákvæmlega af hálfu meiri hlutans eða stjórnarliða þar sem þeir hafa ekki mjög margir tekið þátt í þessari umræðu í kvöld en það væri ágætt ef einhver gæti komið og upplýst mig aðeins um þetta. Ég tel að þetta sýni manni ekki hver tilgangurinn er, að þetta gefi manni ekki skýra mynd. Þetta svarar ekki spurningum þeirra fjölmörgu starfsmanna sparisjóðakerfisins í landinu og þetta svarar ekki spurningum fjölmarga íbúa víðs vegar um landið sem hafa um árabil og jafnvel allt frá fæðingu stundað sín viðskipti við sinn sparisjóð. Er ekki hreinna og beinna að segja það ef sparisjóðirnir eiga ekki lengur að lifa? Þetta er punktur sem ég tel að sé ekki nógu skýr, einn af mörgum í þessu frumvarpi.

Þá ætla ég að vinda mér í seinna atriðið sem ég ætla að ræða á þessum stutta tíma mínum og það er varðandi Seðlabanka Íslands. Það hefur mikið og margt verið rætt um Seðlabanka Íslands allt frá því fyrir hrun. Ég fór aðeins yfir það í fyrri ræðu minni að einu sinni átti það að vera lausn alls að losa þar út einn mann. Síðan vitum við hvernig það fór. Ég sé ekki að það hafi breytt mjög miklu, a.m.k. ekki eins miklu og væntingar voru gefnar um af þeim sem kröfðust þess að sá ágæti maður færi þaðan út. Þess vegna hélt ég að með þessu frumvarpi gæfist ríkisstjórninni loksins tækifæri til að leggja fram sína framtíðarsýn á það hvernig verkaskiptingu milli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins yrði háttað í framtíðinni en það er hins vegar ekki alveg ljóst í þessu frumvarpi. Verkaskiptingin hefur ekki verið nógu skýr og þetta er eitt af þeim verkefnum sem liggur fyrir þessu þingi að leysa. Þetta er eitt af þeim atriðum sem hefur verið gagnrýnt mjög, bæði í aðdraganda hrunsins og eftir hrunið. Eins og ég kom inn á áðan eru rúmir 18 mánuðir frá því að efnahagshrunið varð þannig að vissulega hefði maður haldið að það mundi koma skýrar fram hvaða framtíðarsýn ríkisstjórnarflokkarnir hafa á þessar tvær stofnanir okkar. Ríkisstjórnarflokkana skortir alfarið heildarsýnina á þetta mikilvæga svið og ég tel að það sé ekki seinna vænna fyrir þetta ágæta fólk sem stjórnar í landinu að fara að upplýsa okkur og þjóðina um hvert skal stefnt.

Að lokum langar mig aðeins að koma inn á að til grundvallar þessari vinnu liggur skýrsla sem unnin var af reyndum bankaeftirlitsmanni frá Finnlandi. Það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem óskaði eftir því í nóvember 2008 að sú skýrsla yrði unnin til að leggja mat á lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi og gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur. Nú liggur þessi skýrsla fyrir og í stað þess að fara eftir henni að öllu leyti og klára það sem kemur fram í henni er valið að fara ekki alla leið heldur stíga bara hálf skref og sjá svo til, virðist vera. Þótt hér sé ágætisyfirlit frá fjármálaráðuneytinu um kostnaðarauka varðandi þetta frumvarp hef ég áhyggjur af því, ekki bara varðandi þetta mál heldur einnig varðandi alla stjórnsýsluna og þær breytingar sem verið er að gera að hálfu leyti í mörgum málum, að enginn reyni að halda utan um málin og átta sig á hvaða kostnaður fylgir því að fara í gegnum endalaust breytingarferli. Það ætti að móta heildarsýn, segja fólki hvert skal stefnt og stíga skrefin til fulls þannig að hægt sé að vinna eftir einhverri vitrænni áætlun og ná því marki sem stefnt er að. Það er því miður ekki svo í þessu máli, frú forseti.

Vissulega eru margir ágætir punktar í þessu frumvarpi. Það má ekki skilja orð mín þannig að þetta sé allt saman ómögulegt, alls ekki. En það verður samt að segjast eins og er að það er lýsandi skortur á yfirsýn yfir verkefnið í þessu frumvarpi, skortur á pólitískri leiðsögn ráðherra handa því ágæta fólki sem situr í viðskiptanefnd Alþingis, skortur á pólitískri leiðsögn um hver sé tilgangurinn með þessu, hvert skuli stefnt og hvert lokamarkmiðið er. Ég verð enn og aftur að lýsa yfir vonbrigðum með það að núna, rúmu einu og hálfu ári eftir hrun, sé ekki meira komið úr pípunum en þetta. Ég held að þeir sem muna kosningabaráttuna fyrir réttu ári, muna eftir þeim orðum sem þar féllu, hafi búist við meiru, að það yrðu skýrari línur um hvernig breyta ætti umgjörðinni og að það kæmu nýjar hugmyndir með öllu þessu nýja fólki sem settist inn á þing fyrir ári síðan. Það er leiðinlegt að segja það en það orð sem kemur upp í hugann við umfjöllun um þetta mál er sýndarmennska. Manni dettur í hug að þetta frumvarp sé lagt fram til þess eins að leggja fram frumvarp um þetta mál en ekki til að stíga skrefið til fulls að settu marki sem væri þá ákveðið undir skýrri, pólitískri leiðsögn ríkisstjórnarinnar. Það er ekki því miður í þessu máli frekar en mörgum öðrum sem við höfum rætt undanfarna daga. Ég vildi óska þess að þetta gengi allt saman hraðar hjá okkur. Þess vegna er ekki hægt að ríkisstjórnarflokkarnir hendi hálfköruðum málum inn til þingnefndanna og segi þeim síðan að lagfæra þau með stórkostlegum breytingum. Það gengur of hægt eins og við upplifum núna þessa dagana varðandi ýmis málefni í félags- og tryggingamálanefnd.