138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[20:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er liðið eitthvað á annað ár síðan hér gerðust þeir einstæðu atburðir að það hrundi heilt fjármálakerfi. Það mætti auðvitað hafa mjög mörg orð um það hverjar voru ástæður þessa falls. Það var reynt að gera það í ítarlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem við höfum eðlilega rætt nokkrum sinnum á þessum vettvangi, skýrslu sem hefur fengið ítarlega umfjöllun. Nú er verið að vinna áfram á grundvelli þeirrar skýrslu á vegum sérstakrar nefndar sem Alþingi hefur skipað og er öllum ljóst að þetta tímamótaverk hefur líka kallað á viðbrögð eftirlitsaðila, rannsóknaraðila, lögreglu og annarra þeirra sem hljóta að láta sig þetta mál varða. Þetta eru auðvitað einstæðir atburðir í sögu okkar og þess hefði auðvitað mátt vænta að viðbrögð ríkisstjórnarinnar, sem nú hefur setið við völd frá ársbyrjun 2009 á annað ár, væru markviss og sýndu það í verki að ríkisstjórnin tæki verkefni sitt alvarlega. Með öðrum orðum hygg ég að flestir hefðu gert ráð fyrir því að í kjölfarið hefði verið lagt fram frumvarp fyrir Alþingi um alvörubreytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem tækju á þeim mörgu álitamálum sem upp komu í kjölfar þessa mikla hruns fjármálakerfis okkar. En því miður er því ekki að heilsa.

Það frumvarp sem við ræðum hér er á margan hátt góðra gjalda vert svo langt sem það nær. En því miður nær frumvarpið ekki ýkjalangt og megingalli þess er kannski ekki það sem í því stendur heldur það sem ekki er um fjallað í því. Við hljótum að gera þær kröfur til stjórnvalda hverju sinni, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að þau taki þetta verkefni sitt það alvarlega. Að fyrstu alvöruviðbrögðin sem birtast í lagafrumvarpi séu þau að gera breytingar á starfsumhverfi fjármálafyrirtækjanna, að tekið sé á málunum með heildstæðum hætti og reynt að ná utan um það sem allir telja að sé aðalvandamálið og aðalveikleikinn, það sem olli hruni bankanna. Auðvitað má segja sem svo að um þau mál sé ágreiningur. Við erum auðvitað ekki öll sammála um hver ástæða hrunsins var, hver var ástæða þess hvernig fór í fjármálakerfi okkar. En það eru nokkur meginatriði sem ég hélt að menn gætu verið sammála um að væru þau verkefni sem við þurfum að reyna að ná utan um með einum eða öðrum hætti, svo ég tali nú eins og forseti lýðveldisins, að við tækjum af alvöru á þessum stóru álitamálum. Því miður er það ekki þannig. Það er meginveikleiki þessa frumvarps. Veikleikinn felst ekki í því að tekið sé á ýmsum skilgreiningarhugtökum og slíku á mörgum blaðsíðum, það er ábyggilega búið að reyna að vinna það nokkuð samviskusamlega. Veikleikinn felst í því að það vantar almenna stefnumótun og yfirsýn yfir þetta stóra og mikla mál sem við þurfum svo nauðsynlega að ná utan um.

Ef við reynum að horfa fram á veginn mun okkur ekki takast að endurreisa það traust sem er grundvöllur fjármálakerfis okkar nema við tökumst á við það erfiða verkefni að bregðast við og breyta þeim reglum sem lúta að ýmsum þeim stóru atriðum sem ég kem frekar að á eftir. Þær eru grundvöllurinn að því að fjármálakerfið okkar hafi traust. Við vitum að ef fjármálakerfið hefur ekki traust hefur það í raun og veru ekki starfsgrundvöll vegna þess ef fjármálakerfi nýtur ekki trausts viðskiptavinanna, almennings eða hjá þeim sem fjármálakerfið verslar við, t.d. erlendis, erum við í vanda. Þeir kröfuhafar og þeir sem við munum leita til t.d. um fjármögnun munu spyrja þessara spurninga. Þeir hafa að sjálfsögðu lesið sig í gegnum helstu efnisatriði rannsóknarskýrslunnar. Þeir vita að það þarf að svara spurningum um eignarhald. Þeir vita að það þarf að svara spurningum um tengsl fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Þeir vita að það þarf líka að svara því hvernig við ætlum að koma í veg fyrir þá hörðu hagsmunaárekstra sem urðu í bankakerfi okkar og gerðu það að verkum m.a. að bankakerfið féll, að það þarf að svara þessum spurningum.

Þetta lýtur ekki bara að spurningunni um það hvernig við skilgreinum hugtakið framkvæmdastjóri eða hvernig við skilgreinum einhver önnur þau hugtök sem tekist er á við í þessu frumvarpi. Þeir vita það með öðrum orðum að það þarf að vinna þessi mál miklu ítarlegar og alveg frá grunni.

Þegar þetta frumvarp er skoðað í samhengi við nefndarálit meiri hluta viðskiptanefndar og breytingartillögurnar vekur það auðvitað athygli hversu miklar breytingartillögur koma fram við 2. umr. þessa máls. Þetta eru eiginlega hálfgerðar bækur, annars vegar nefndarálit meiri hluta viðskiptanefndar, sem eru upp á einar 12 blaðsíður, og síðan breytingartillögurnar, ítarlegar breytingartillögur við fjölda tölusettra liða auk allra stafliðanna sem þar eru undir, sem segir okkur að þetta mál var af þeim toga að það þurfti greinilega mjög mikillar vinnslu við.

Ég er ekki einn þeirra sem gagnrýna það að nefnd þurfi að gera breytingar á frumvörpum. Við vitum að það er eitt hlutverk Alþingis að setja lögin og þess vegna er ekkert óeðlilegt við það og lýsir á vissan hátt góðum vinnubrögðum af hálfu viðkomandi nefndar þegar hún leggur í þá miklu vinnu sem greinilega hefur verið gert við að smíða breytingartillögur til að lagfæra frumvarpið. Viðskiptanefnd á þakkir skilið fyrir að hafa lagt í þessa vinnu og segir okkur að þarna hafa menn reynt að taka verkefni sitt alvarlega. En vandi nefndarinnar hlýtur hins vegar að felast í því að hún hafði þarna afmarkað verkefni með höndum, hún fékk í hendurnar nokkuð ítarlegt frumvarp sem er í einum 49 eða 50 töluliðum þar sem verið er að fjalla um mismunandi mál og hafði það verkefni að vinna á grundvelli þess frumvarps. Það var auðvitað ekki hægt að gera ráð fyrir því að nefndin gæti við þær kröppu aðstæður sem við búum í þinginu hvað varðar starfsmannahald farið ofan í svona flókið mál og gert þær grundvallarbreytingar á þessu frumvarpi sem þarf að gera. Við ætlumst til þess að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sinni því frumkvæðishlutverki sem hann hefur sannarlega, að leggja fram frumvarp af þessu tagi í þessum mikilvæga málaflokki þar sem tekið er á þeim stóru pólitísku álitaefnum sem eftir er að takast á við. Reyndar ekki bara pólitísku álitaefnum heldur líka þeim álitaefnum sem risu beinlínis vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem ég nefndi í örfáum orðum áðan.

Mín megingagnrýni á þetta frumvarp er þess vegna fyrst og fremst sú að þarna er ákveðinn veruleikaflótti. Við stöndum frammi fyrir risavöxnu verkefni, bankakerfið okkar er hrunið, við vitum að það voru fjölmargar ástæður sem liggja því að baki. Sumu er hægt að taka á með breytingum á lögum um fjármálafyrirtækin sjálf. Annað kallar á annars konar lagabreytingar og enginn þarf að efast um það. Þess vegna hefði mátt vænta þess að ríkisstjórnin sem vildi koma fram með trúverðug viðbrögð við þessu ástandi, hefði lagt í að takast á við þessi stóru viðfangsefni sem ég kalla eftir að verði gert.

Mér finnst þetta frumvarp á vissan hátt vera veruleikaflótti. Það er flótti frá því að takast á við þetta stóra verkefni sem við okkur blasir og það er auðvitað ekki afsakanlegt. Það er ekki endalaust hægt að afsaka sig með því að hlutirnir hafi gerst á valdatíma annarra stjórnmálaflokka. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur sett sér háleit markmið, hún talar mjög mikið um að hún ætli sér að taka á stóru málunum en spurningin er þá bara þessi: Af hverju gerir hún það ekki? Af hverju heykist ríkisstjórnin á þessu mikla verkefni sínu?

Ég tók eftir því að í andsvari áðan sagði hv. varaformaður viðskiptanefndar eitthvað á þá leið að það hefði komið sér á óvart að hér hefði blossað upp ágreiningur í þessari umræðu. Hann hefði ekki orðið var við annað en að í nefndinni hefði ríkt góður andi og menn hefðu verið allir af vilja gerðir að takast á við vinnu sína. Auðvitað reynum við þingmenn að takast á við vinnu okkar í nefndum eftir fremsta megni á þeim grundvelli sem fyrir okkur er lagður með frumvörpum sem liggja fyrir. Það kemur mér hins vegar mjög á óvart ef það hefur vakið undrun stjórnarliða að um þetta mál gætu orðið miklar og að einhverju leyti harðar umræður, að þetta mál kallaði á gagnrýni. Það þarf ekki annað en lesa til að mynda nefndarálit 2. minni hluta viðskiptanefndar til að sjá að þar eru gerðar mjög veigamiklar athugasemdir við frumvarpið sjálft. Það er ekki endilega verið að finna að öllum þeim efnisatriðum sem í frumvarpinu standa eða verið að leggjast gegn öllum þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn hefur lagt fram. Þvert á móti kemur fram í nefndarálitinu það almenna viðhorf að ýmislegt af því sem getur að líta í breytingartillögu meiri hlutans sé sannarlega til bóta. Skárra væri það nú ef nefndin sem leggur fram breytingartillögur á sjö tölusettum blaðsíðum rataði aldrei á neitt sem hægt væri að styðja. Vitaskuld er ýmislegt jákvætt í þessum breytingartillögum og það er sjálfsagður hlutur að við reynum að takast á við þetta.

Þetta frumvarp er nefnilega svolítið því marki brennt sem maður sér þegar menn eru að spila á spil og segja pass. Það er svolítið verið að segja pass gagnvart þeim stóru verkefnum sem tekist er á við. Ég nefni nokkur dæmi: Í nefndaráliti 2. minni hluta er t.d. vakin athygli á því að það hefði þurft að takast á við þá spurningu hvort eðlilegt væri að reka saman fjárfestingarbanka og viðskiptabanka í einni stofnun. Þetta er mál sem við ræddum oft fyrr á tíð þegar fjármálafyrirtækin okkar voru í gerjun og síðar í sínum mikla vexti. Það voru skiptar skoðanir um hvort skynsamlegt væri að hafa samrekstur á viðskiptabönkum og fjárfestingarbönkum og fyrir því voru færð ýmis rök. Til voru þeir sem sögðu: Það á að skilja þarna algerlega á milli. Við munum líka að í árdaga þessarar miklu útrásar voru hér sérstakir fjárfestingarbankar. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins varð til við uppstokkun á Fiskveiðasjóði og Iðnlánasjóði, ég man ekki hvort það voru fleiri sjóðir sem runnu inn í hann. Þá voru þetta fjárfestingarbankar á sinn hátt. Sama var með ýmis fyrirtæki. Var ekki Kaupþing í upphafi frekar fjárfestingarbanki en viðskiptabanki? Síðan þróuðust málin auðvitað eins og við munum. Þessir fjárfestingarbankar runnu inn í viðskiptabankana, viðskiptabankarnir sáu tækifæri í því að vaxa með því að hafa starfsemi fjárfestingarbankanna undir sínum hatti. Fyrir því voru færð ýmis rök, að það væri skynsamlegt margra hluta vegna að hafa þetta þannig.

Við munum líka að úti í Bandaríkjunum voru það fjárfestingarbankarnir sem féllu fyrstir. Þá voru margir sem sögðu: Þetta sýnir okkur að það er óskynsamlegt að reka ekki undir einum hatti fjárfestingarbankaþjónustu og viðskiptabankaþjónustu vegna þess að það dreifir áhættunni. Hér er auðvitað um að ræða heilmikil álitamál, álitamál sem við erum svo sem ekkert að takast á við í fyrsta sinn. Við erum hins vegar reynslunni ríkari núna. Við fórum í gegnum bankahrun og við sáum ókostina sem því fylgdu að vera með svo áhættusama starfsemi sem fjárfestingarbankastarfsemi sannarlega er innan vébanda viðskiptabankanna. Þess vegna hljóta menn að þurfa að takast á við þessa spurningu í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum þegar fengið. Vitaskuld hefði verið æskilegt ef það hefði verið tekist á við þetta vandamál í þessu frumvarpi og ég lýsi sérstaklega eftir því að menn leitist við að svara þessari spurningu. Það er ekki gott þegar við erum að reyna að endurreisa traust á heilu fjármálakerfi að það sé gert í atrennu líkt og þegar menn ætla að fara að stökkva langstökk eða þrístökk, þá taka menn langa atrennu áður en þeir stökkva. Þetta frumvarp er atrenna. Það er ekki sjálft stökkið, það er ekki það að menn séu komnir í mark í því sem stefnt er að.

Nú má ekki skilja mig þannig að ég ímyndi mér að hægt sé í eitt skipti fyrir öll að setja lög um fjármálafyrirtæki. Við gerum okkur öll grein fyrir því að fjármálakerfið er eitthvað sem mun þróast á næstu árum. Það mun taka breytingum alveg eins og um síðustu aldamót þegar þessi mikla umbreyting varð í fjármálakerfi okkar, í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum og raunar um allan heim, gerðum við okkur alltaf grein fyrir því að lagasetningin hlyti að freista þess að elta þessa þróun og hafa mótandi áhrif á hana. Þess vegna verður að gera ýmsar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki í tímans rás því að fjármálaheimurinn er dýnamískur heimur. En það breytir ekki því að einmitt núna var það svo mikilvægt að svar ríkisstjórnarinnar í þessu efni væri skýrt og afdráttarlaust og að það væri tekist á við þær spurningar sem þurfti að svara. Það er megingallinn við þetta frumvarp að það er vanbúið og hefur kallað á mikla vinnu viðskiptanefndar, það hefur kallað á margvíslegar og miklar breytingartillögur sem nefndin telur sig knúna til að útskýra í býsna löngu máli í áliti sínu. Það vekur t.d. athygli mína að það þarf talsvert að skilgreina hugtök og gera breytingar á skilgreiningu hugtaka. Það gæti verið fróðlegt að fara yfir það síðar ef tími vinnst til.

Vegna þess að ég er áhugasamur um sparisjóði hefði ég talið nauðsynlegt að í þessu frumvarpi kæmi fram skýrari hugsun og skýrari framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar varðandi sparisjóðina. Sagt er að búið sé að svara þeim spurningum að sumu leyti. Það er atburðarásin sem hefur svarað þeim spurningum, ekki ríkisstjórnin. Að vísu markaði þáverandi ríkisstjórn mjög skýra stefnu með neyðarlögunum í októberbyrjun 2008. Við sögðum, og um það var að ég hygg býsna góður stuðningur almennt í þinginu, að við vildum verja sparisjóðakerfið í landinu og var sett inn sérstakt ákvæði þar að lútandi. Síðan leið og beið fram á það haust en í desember urðu til verklagsreglur um hvernig standa ætti að viðreisn sparisjóðanna. Það vita auðvitað allir að síðan leið ansi langur tími. Hvernig er staðan nú? Staðan er þannig að sparisjóðir sem höfðu að umfangi um það bil 90% af efnahagsreikningi sparisjóðakerfisins í landinu hafa hrunið. Þeir eru ekki lengur til. Burðurinn í sparisjóðakerfinu er farinn. Eftir standa nokkrir litlir sparisjóðir. Tveir þeirra þurfa ekki sérstakrar aðstoðar við frá ríkisvaldinu en annar þeirra hefur þegar sent frá sér neyðarkall vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar og telur að ríkisstjórnin sé e.t.v. að leggja drög að því að fella þann sparisjóð einnig. Það er það eina sem sést hefur til framtíðarsýnar ríkisstjórnarinnar varðandi sparisjóðina að öðru leyti.

Ég spurði eftir þessari framtíðarsýn í ræðu þegar við ræddum um sparisjóðina eftir fall Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur, og kallaði eftir því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra svaraði þeim spurningum. Það gerði hann ekki. Ég ítrekaði þá ósk síðar á Alþingi undir dagskrárliðnum störf þingsins, að við fengjum skýra sýn. Ástæðan fyrir því að ég spurði var þessi: Annar þessara stóru tveggja sparisjóða, Byr sparisjóður, er ekki lengur rekinn samkvæmt sparisjóðaforminu, hann er orðinn hlutafélag. Það vekur auðvitað grunsemdir um að þessum sparisjóði eigi ekki lengur að viðhalda sem sparisjóði heldur eigi að fella hann inn í annað bankakerfi í landinu. Það mun hafa veruleg áhrif á starfsmöguleika sparisjóðanna í landinu. Það mun gera það að verkum að fastur kostnaður sparisjóðanna sem eftir standa verður hlutfallslega meiri og reksturinn þar af leiðandi þyngri.

Ríkisstjórnin er nú í þeirri stöðu að hún mun hafa vald á miklum meiri hluta, kannski 80–90%, af stofnfé í þeim sparisjóðum sem eftir lifa sem ríkisvaldið þarf á annað borð að koma til aðstoðar, og mun þess vegna hafa ráðandi áhrif á hvernig sparisjóðafyrirkomulagið verður. Þess vegna er mjög ámælisvert að því skuli ekki vera svarað, hvorki í þessu frumvarpi né í umræðum sem farið hafa fram um þessi mál hvernig menn sjá þessa framtíð fyrir sér (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er stór hluti fjármálakerfisins og skiptir miklu máli að við vitum hvernig hann á að líta út á næstunni.