138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessi svör. Það er reyndar dálítið undarleg hugsun, eftir því sem maður ímyndar sér sparisjóð, að það sé einn eigandi og að sá sé ríkið. Maður veltir fyrir sér hvernig það rími við þær hugmyndir sem menn höfðu um sparisjóði í eina tíð sem væru burðarásar í litlum samfélögum úti á landi oft og tíðum, gættu hagsmuna atvinnurekstrar og húsbyggjenda á því svæði og höfðu einmitt mikla þekkingu á stöðu alls almennings á því svæði. Ég get ekki séð hvernig í ósköpunum ríkið getur verið stofnfjáreigandi, síst af öllu sá eini.

Eins og hv. þingmaður kom inn á er spurningin þessi: Hvernig mun takast að selja þessa óskaplega miklu fjármuni sem þarf til að reka sparisjóðakerfið og endurreisa það? Það þarf að selja allt þetta stofnfé, helst einstaklingum sem búa á viðkomandi svæðum og hafa áhuga á að þau blómstri. Ég held að það sé mjög brýnt að menn velti fyrir sér hvernig traust á stofnfé verður byggt upp aftur. Mér finnst það hafa algjörlega vantað í þessa umræðu, alveg sérstaklega í frumvarpið, og hæstv. ríkisstjórn virðist ekki hafa nokkra einustu hugmynd um hvað gerist eftir tvö til fimm ár. Hennar vandamál snúast alltaf um næstu viku.