138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem við sjálfstæðismenn höfum verið að segja í umræðunni um þetta frumvarp er í fyrsta lagi að það ber ekki með sér neina skýra framtíðarsýn fyrir fjármálamarkaðinn. Hingað hafa komið þingmenn eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir sem sagði: Ja, þið hafið ekki komið með svarið við þeirri spurningu sjálf, sjálfstæðismenn.

Það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem lagði fram þetta frumvarp, það voru andstæðingar okkar í salnum, í umræðunni. Ekki síst núverandi stjórnarflokkar og ýmsir aðrir stjórnmálaflokkar eða stjórnmálaöfl hafa haldið því mjög á lofti að verið hafi eitthvað mjög mikið að umgjörð fjármálakerfisins á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn. Ef þetta er svar sömu flokka við þeim athugasemdum sem þeir hafa gert, dugar það ekki til. Það er ekki nein framtíðarsýn í þessu fyrir fjármálakerfið á Íslandi. Það dugar ekki til að taka til nokkur atriði upp úr skýrslu Finnans sem fyrrverandi ríkisstjórn fékk sér til ráðgjafar og segja: Þetta er það sem þarf að gera vegna þess sem fór úrskeiðis á fjármálamarkaðinum á Íslandi. Það sem við erum að kalla eftir er miklu dýpri umræða um þá þætti sem fóru raunverulega úrskeiðis og birtast okkur til að mynda í rannsóknarskýrslunni.

Eitt atriði sem ég tiltók í fyrri ræðu minni lýtur að dreifðu eignarhaldi. Það er auðvitað ekkert fjallað um það hér en það er tekin afstaða til þess. Það kom fram í ræðu hv. formanns viðskiptanefndar að það væri sýn stjórnarflokkanna að rétt væri að miða við hámarkið sem væri að finna í lögum um verðbréfaviðskipti og Kauphöllina, þ.e. svo lengi sem menn hefðu ekki komið sér í þá stöðu að vera með yfirtökuskyldu væri í lagi að þeir ykju við hlutinn og það þyrfti ekki að setja því neinar frekari skorður en fram kæmu í þessu frumvarpi. En það liggur þá í hlutarins eðli að það eru engar athugasemdir gerðar við að einstakir aðilar fari með mjög stóran eignarhlut langt umfram þetta svo lengi sem þeir teljast hæfir að mati Fjármálaeftirlitsins ef viðkomandi fyrirtæki er ekki skráð. Það er auðvitað engin framtíðarsýn, það eru engin svör við þessum grundvallarspurningum. Ef þetta eru svörin ætla ég vinsamlegast að biðja viðkomandi flokka um að hætta að tala um að það hafi verið svona mikið að á valdatíma Sjálfstæðisflokksins á Íslandi, að það hafi verið svo margt við reglurnar sem hafi verið í ólagi, að það hafi verið eitthvað athugavert við það hvernig staðið var að einkavæðingunni o.s.frv., vegna þess að þetta svar er í algerri mótsögn við þann málflutning.

Mig langar til að koma inn á eitt atriði sem kemur fram í breytingartillögu meiri hluta viðskiptanefndar. Hér er að finna breytingartillögu um nýja grein á eftir 44. gr. Þetta er ákvæði sem er að finna á 24. blaðsíðu atkvæðagreiðsluskjalsins en mér sýnist að þetta sé ný grein sem eigi að koma á eftir 44. gr. þar sem fjallað er um heimildina til að geymslugreiða fyrir slitastjórnir. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að umræða um þetta ákvæði er algerlega ófullnægjandi hér í dag. Hún er fullkomlega ófullnægjandi í nefndarálitum þar sem fjallað er um hana almennt og henni hefur ekki verið fylgt eftir í umræðunni í dag með ásættanlegum skýringum. Staðreynd málsins er sú að þessi grein ein og sér er mikið hagsmunamál fyrir íslenska ríkið og íslenska skattgreiðendur og getur skipt milljörðum ef ekki tugmilljörðum í deilum eins og t.d. í Icesave-deilumálinu. Sú ríkisstjórn sem hér situr hefur komið þeim skilaboðum frá sér mjög ákveðið að hún hyggst leysa það mál með samningum. Ákvæði eins og þetta getur haft verulegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir niðurstöður slíkra samninga, í fyrsta lagi hvað snertir hvers efnis sá samningur verður og eins ef hann verður á þeim nótum sem um var að ræða með þeim lögum sem samþykkt voru í lok síðasta árs um réttarstöðu Innstæðutryggingarsjóðsins gagnvart þrotabúinu. Hér er opnað fyrir að þrátt fyrir að deilumál séu enn þá óleyst í þrotabúinu geti slitastjórnir geymslugreitt og þá fer sú fjárhæð sem geymslugreitt er fyrir að bera vexti. Þegar við tölum um jafnrisavaxnar fjárhæðir og á við í þessu máli geta vaxtahagsmunirnir numið milljörðum, jafnvel milljarðatugum. Kröfurnar í Icesave-málinu hlaupa á hundruðum milljóna. Það er því fullkomlega óásættanlegt að jafnafdrifaríkt ákvæði og þetta sé lagt fram af hálfu meiri hluta nefndarinnar án þess að um það fari fram nein alvöruumræða í þingsölum og það sé sett í samhengi við það gríðarlega stóra hagsmunamál sem Icesave-málið er.

Við þetta hlýt ég að gera athugasemd og mér finnst skortur á þátttöku stjórnarliðanna í umræðu um þetta risastóra mál bera þess vitni að það virðist eiga að hlaupa til, flýta sér miklu meira en efni málsins gefur leyfi, og hvað þá tilefni, til. Þetta litla dæmi sem er í raun mjög stórt hagsmunamál er til vitnis um þetta. Hvað liggur annars svona mikið á að klára þessa löggjöf þannig að viðkomandi frumvarp verði orðið að lögum fyrir lok mánaðarins, eins og mér hefur verið tjáð á göngunum í kvöld? Hvað er það sem knýr á um það? Það hefur alla vega ekki komið fram í viðskiptanefnd, það hefur ekki komið fram í þingsal í dag. Við höfum farið með þetta mál í gegnum tvennar umræður og hér er komið fram langt breytingartillöguskjal frá meiri hlutanum án þess að minnst sé á það einu orði neins staðar.

Það er vegna allra þessara þátta sem málflutningur okkar í dag hefur verið þannig að hér séu menn að flýta sér um of. Við eigum ekki að standa að endurskoðun regluumhverfis fjármálafyrirtækjanna með bútasaumi. Menn koma upp og segja: Þetta er bara fyrsta skrefið af mörgum, en við hefðum miklu frekar viljað sjá heildstæða stefnumörkun áður en lagt er af stað með jafnafdrifaríkar breytingar og við erum að fjalla um hér.

Mig langar til að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og Pétri Blöndal fyrir innlegg þeirra áðan um sparisjóðina. Það er augljóst að þar eru ýmsir fletir sem full ástæða er til að gefa gaum og jafnframt enn eitt atriðið sem kallar á vandaða umfjöllun þingsins. Sem betur fer höfum við þó búið þannig um hnútana á þinginu með tiltölulega nýlegum breytingum á þingsköpum að hægt er með auðveldum hætti að kalla mál aftur til umfjöllunar í nefnd á milli umræðna og það er augljóst að við munum vilja gera það. En ég óttast að það eitt og sér muni ekki færa til betri vegar þau atriði sem við tínum til í umræðunni vegna þess að þau varða slíka grundvallarþætti. Þau varða grundvallarþætti um hvort við viljum fara sömu leið og aðrar þjóðir sem bundið hafa hámarkseignarhlut einstakra eigenda í fjármálafyrirtækjum við einhver mörk, eins og t.d. 10–20%, 15%, að við förum skýrari leið þegar kemur að viðskiptum eigenda við bankana sjálfa en leyfum Fjármálaeftirlitinu að hafa sína skoðun á því hvort traustar tryggingar séu til staðar. Það mætti fara aðrar leiðir í því. Síðan er líka ástæða til, eins og ég vék að í fyrra máli mínu í dag, að skoða þætti eins og þátttöku bankanna á fyrirtækjamarkaði og hreinlega fyrirtækjasamsteypurnar sem sérstakt vandamál í tengslum við þetta mál. Það er væntanlega það sem veldur því að þátttakan í umræðunni er ekki meiri núna, að við höfum bara eitt púsl úr stóru púsluspili til umfjöllunar á þinginu í dag. (Forseti hringir.) Það veldur því að umræðan verður brotakennd og ég vil vitna aftur til þess dæmis sem ég nefndi áðan: Við erum með breytingartillögu frá meiri hluta viðskiptanefndar sem varðar mjög mikið hagsmuni okkar Íslendinga (Forseti hringir.) og getur skipt milljörðum, en það er bara enginn sem minnist á það.