138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki og ég vil segja í upphafi máls míns að margt af því sem fjallað er um í þessu frumvarpi er til bóta. En það er eins og með margt annað sem hæstv. ríkisstjórn tekur sér fyrir hendur, þegar verkefnin eru stór er rétt aðeins fálmað utan í verkefnið sem þarf að vinna. Það er ekki leyst til fullnustu. Eftir að hafa lesið þann hluta af skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sem er búið að ræða mikið um, sem fjallar um orsök bankahrunsins vil ég minna á að þetta frumvarp tekur ekki á þeim atriðum sem koma þar skýrast fram. Ég minni þingheim á það sem seðlabankastjóri sagði í sjónvarpsviðtali fyrir örfáum dögum: Það er ekkert sem tryggir það að sami hluturinn geti ekki gerst aftur, ekki neitt, akkúrat ekki neitt.

Við erum ekki að taka á því og við þurfum að taka stærri skref. Við þurfum hins vegar ekki að lenda í miklum deilum um það. Við þurfum að breyta vinnubrögðunum. Þetta er akkúrat eins og búið er að gerast í mörgum málum, hverju á fætur öðru. Ég tel, virðulegur forseti, að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði átt að vinna þetta mál miklu betur. Það hefði kannski verið skynsamlegra að fara yfir hluta af rannsóknarskýrslunni áður en frumvarpið var lagt fram.

Hv. viðskiptanefnd og þeir þingmenn sem sitja þar hafa unnið vinnuna sína og stagbætt þetta eins og hægt var, enda sést það á fylgiskjölum málsins, bæði nefndarálitinu og breytingartillögunum öllum. Það er sjaldgæft að sjá svona miklar breytingar á frumvarpi. Þess vegna hefði ég talið skynsamlegra að menn hefðu gert þetta öðruvísi og það hefði verið farið mun lengra í vinnslunni á þessu frumvarpi áður en það hefði verið lagt fram og því kastað inn í hv. viðskiptanefnd.

Ég vek líka athygli á því sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði fyrr í dag. Hún sagði að þetta frumvarp fjallaði um það að herða reglurnar og að það væri beðið eftir því. Hún minnti okkur á að þingmannanefnd er að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og að síðan muni hugsanlega koma í ljós að þingmannanefndin muni leggja til við viðskiptanefnd að gerðar yrðu einhverjar frekari umbætur á lagaumhverfi fjármálafyrirtækjanna. Allir í þessum þingsal vita að það eru engar deilur um að það voru mikil mistök þegar bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma að tryggja ekki afgerandi dreift eignarhald og girða fyrir annað. Það sjá allir í dag. Því miður er hins vegar ekki tekið á þeim vanda hér og ég minni á frumvarp sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt fram um svokölluð krosseignatengsl og raðeignatengsl og allt þetta sem hann sýnir fram á. Hann birtir í fylgiskjali með frumvarpinu eina mynd úr rannsóknarskýrslunni um allan þann vef sem menn nota út af þeirri veilu í hlutafjárlögunum sjálfum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur bent á. Þar bendir hann á þetta og hefur margoft rætt þetta hér. Ég teldi mun skynsamlegra að við tækjum dýpri umræðu um málið og þennan kóngulóarvef sem er nokkuð athyglisverður og alveg með ólíkindum. Flestir hafa ugglaust séð hann og hvernig þessu öllu er raðað. Það er það sem við tryggjum ekki hér. Það er það sem við þurfum að taka höndum saman um að vinna betur.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég tel að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi ekki unnið vinnuna sína, en hv. viðskiptanefnd hefur verið að gera það sem í hennar valdi stendur til að stagbæta þetta eins og mögulegt er. Ég tek undir það sem hv. þm. Eygló Harðardóttur hefur sagt hér í dag, það hefði líka verið mjög mikilvægt að fá pólitíska sýn og framtíðarsýn um það hvernig menn vilja byggja upp fjármálafyrirtækin og umhverfi þeirra í nánustu framtíð. Það hefði verið mjög skynsamlegt að hafa utandagskrárumræðu eins og hv. þingmaður benti á, jafnvel tvöfalda eða þrefalda, eða þá jafnvel eins og ég teldi skynsamlegt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði flutt þinginu skýrslu um það verkefni sem við þyrftum að fara í en ekki að fálma í og búa hugsanlega til eitthvert falskt öryggi. Eins og við vitum öll er trúverðugleiki fjármálafyrirtækjanna í raun og veru allur þeirra grunnur. Ef hann er ekki fyrir hendi er fjármálafyrirtækið nánast óstarfhæft. Það er það sem ég tel mikilvægt.

Ég árétta líka það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði í dag, að þegar þingmannanefndin mundi hugsanlega skila tillögum yrði skipuð nefnd til að fara yfir þær tillögur. Þetta minnir á margt hjá þessari hæstv. ríkisstjórn, þegar eitthvert mál liggur fyrir þarf að skipa nefnd til að fara yfir það. Það rifjaðist upp í huga mínum hvað hv. þingmaður sagði um daginn þegar hv. þm. Lilja Mósesdóttir vakti athygli á því í dag að þegar hæstv. forsætisráðherra var spurður í vikunni um ráðningar í stöður í Stjórnarráðinu án auglýsingar kom það mjög á óvart. Hæstv. ráðherra sagði: Ríkisstjórnin verður að skipa nefnd til að láta skoða og rannsaka skipun hjá sjálfri sér á því að ráða í stöður án auglýsingar. Þetta minnir mann á margt sem maður hefur upplifað í gegnum tíðina. Fyrst og fremst vil ég þó segja að við hefðum átt að gera þetta öðruvísi og hv. viðskiptanefnd á samúð mína alla. Ég tel að hæstv. ráðherra hefði átt að standa allt öðruvísi að þessu máli.

Það liggur alveg fyrir að það er ekki tekið á stóru málunum hér sem verður að taka á. Það er það sem við þurfum að sameinast um að gera. Síðan getur margur hv. þingmaður sagt: Hér er bara eitt skref af mörgum. Gott og vel, þess vegna mun væntanlega þingheimur að meginþorra til styðja þetta mál. Við þurfum hins vegar að breyta þessum vinnubrögðum og læra af því. Það eru engar deilur um að það þarf að tryggja eignarhaldið á fjármálafyrirtækjunum. Ég hef fylgst með stjórnmálum í nokkur ár. Hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði einmitt mjög mikið um eignarhaldið á fjármálafyrirtækjunum og hvort menn ættu að vera með fjárfestingarbanka og viðskiptabanka í sama rekstri og þar fram eftir götunum og mér finnst mjög sérkennilegt að þetta skuli vera eins og það er. Þetta er það sem búið er að ræða í sölum Alþingis ár eftir ár, allir búnir að sjá mistökin, en síðan er ekkert gert til að leiðrétta þau. Það er í raun og veru með ólíkindum hvernig þetta er.

Síðan vil ég segja það, virðulegur forseti, að sporin hræða. Mér er mjög minnisstætt að þegar ég var að byrja á þingi í fyrravor var hæstv. heilbrigðisráðherra formaður viðskiptanefndar. Ég verð að viðurkenna að mér þótti alveg hreint með ólíkindum að verið væri að halda fundi í viðskiptanefnd mörgum sinnum á dag. Það voru fundir í hv. viðskiptanefnd í tíma og ótíma, í matsalnum, í færeyska herberginu og úti um allt, vegna þess að það lá svo mikið á að klára frumvarpið í sambandi við sparisjóðina. Það var alveg grundvallaratriði því að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að bjarga öllum sparisjóðunum. Margir hv. þingmenn bentu á marga galla í málsmeðferðinni. Hvað gerðist svo þegar búið var að troða þessu í gegnum þingið? Þá var þetta frumvarp ekkert notað og ekkert gerðist nema þeir færðu niður stofnféð. Síðan reyndi ekkert á þetta fyrr en bara fyrir örfáum vikum, málið sem átti að gerast hinum megin við helgina. Það er margt sem rifjast upp í meðförum hæstv. ríkisstjórnar þegar menn fara að skoða hvernig þessir hlutir eru.

Ég sagði: Sporin hræða í raun og veru. Hvað gerðist með einkavæðingu bankanna tveggja? Hvernig var staðið að henni? Jú, tveir bankar voru einkavæddir en enn þann dag í dag vitum við ekki hverjir eru eigendur bankanna. Er ásættanlegt, virðulegi forseti, að sú staða skuli vera uppi í dag að við vitum ekki hverjir eiga tvo banka? Við vitum það ekki, við höfum ekki hugmynd um það. Hvað gerði ríkið þegar það einkavæddi? Það stofnaði millifélag sem kröfuhafarnir eiga svo. Það er nákvæmlega sami leikurinn og ríkið er að gera sjálft, menn eru að spila á þessi lög. Þetta er alveg hreint með ólíkindum.

Síðan kemur það svar, virðulegi forseti, að við þingmenn getum ekki fengið að vita hver á þá. Við fáum ekki að sjá kröfuhafaskrána þó að það sé vitað að verið sé að hringja í fólk úti í bæ og bjóða því kröfurnar. Maður hefur fengið fregnir af því að kröfurnar hafi gengið kaupum og sölum en vegna þess að maður fær ekki þær upplýsingar sem maður þarf á að halda verður maður því miður að geta í eyðurnar. Það er ekkert sjálfgefið að þeir kröfuhafar sem áttu bankana þegar þeir féllu eigi í þeim í dag. Í raun og veru veit enginn hvað þeir eiga mikinn hlut í þeim í dag. Það er alveg hreint með ólíkindum. Ég hef sagt við hv. þm. Ögmund Jónasson að ég sæi fyrir mér að hann væri kominn á lungnadeild Landspítalans ef tveir bankar hefðu verið einkavæddir án þess að nokkur vissi hver ætti þá og Vinstri grænir hefðu verið í stjórnarandstöðu því að hann væri búinn að tala það mikið, hátt og skýrt úr ræðustól Alþingis. Hann hefði ekki látið þetta ganga yfir sig ef hann hefði verið í stjórnarandstöðu. Það er alveg furðulegt hvernig þetta er.

Ég sagði áðan að sporin hræddu. Hvernig hefur verið staðið að þessu í gegnum tíðina? Við erum að tala um skuldavanda heimilanna og fyrirtækjanna. Eins og við þekkjum er búið að reyna að kroppa í þetta og málin eru ekki leyst. Ég hef áður farið yfir það, virðulegi forseti, að ég hefði talið mjög eðlilegt að menn hefðu mjög gegnsæjar reglur um hvernig staðið yrði að þessu þannig að jafnræðis yrði gætt á milli aðila. Því miður eru manni að berast fregnir um að það sé ekki gert, en ég ætla ekki að fullyrða neitt um það. Það er þó verst fyrir það ágæta starfsfólk sem er að vinna í bönkunum að þurfa að sæta þessari gagnrýni og hugsanlega getgátum um að verið sé að gera eitthvað misjafnt í bönkunum sem er kannski ekki verið að gera. Það er verst fyrir starfsfólkið sjálft að hafa ekki skýrar reglur um það hvernig á að vinna hlutina. Það liggur við að það sé verið að handlanga hvern og einn einstakling, það er verið að því. Það umhverfi sem við búum við er alveg með ólíkindum og þetta er eitt málið til viðbótar sem hæstv. ríkisstjórn klárar ekki heldur fálmar utan í og segir: Við erum búin að gera þetta, við erum búin að fara yfir lögin um fjármálafyrirtækin — en síðan er það bara ekki búið. Þetta er eins og svo margt annað sem hæstv. ríkisstjórn gerir.

Síðan vil ég nefna eitt til viðbótar af því að ég er farinn að ræða um hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að því að hjálpa skuldugum heimilum í landinu. Hvernig hefur verið staðið að því? Það gerist með þeim hætti að þingheimur hefur ekki enn þá fengið að vita um færsluna á milli gömlu og nýju bankanna. Hverjar voru afskriftirnar á íbúðalánunum frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað. Menn hafa talað um að þetta sé í kringum helming, einhvers staðar þar um bil, en við fáum ekki að vita það. Við eigum að mynda okkur skoðun um það hvernig við eigum að koma heimilunum til hjálpar og þar fram eftir götunum en fáum ekki upplýsingar. Þetta er það umhverfi sem við lifum í. Það er ekki nema von að maður sé oft hugsi yfir vinnubrögðunum og ég er alveg sannfærður um að vinnubrögðum á Alþingi hefur farið mjög aftur miðað við það sem áður var. Ég trúi því varla að þau hafi verið verri en reynslan sýnir núna.

Af því að ég er að tala um skuldavanda heimilanna sem við ræðum oft um og lítið gerist í, allt of lítið, má líka færa rök fyrir því sem ég hef sagt áður að sennilega hafi stærstu mistökin á sínum tíma verið að taka ekki öll íbúðalánin frá fjölskyldunum í landinu og færa þau yfir í Íbúðalánasjóð. Ég verð æ sannfærðari um að ef það hefði verið skoðað að færa íbúðalán heimilanna út úr þrotabúum bankanna yfir í Íbúðalánasjóð hefði það hugsanlega verið skynsamlegt. Þá hefði verið hægt að gera þetta mun markvissara en hefur verið gert. Við hefðum átt að skoða það miklu betur ef þetta stenst sem allt bendir til, að það sé upp undir helmingsafsláttur á milli gömlu og nýju bankanna.

Síðan vekur það líka athygli mína að á allra síðustu vikum hafa allir bankarnir skilað árshlutauppgjöri fyrir árið 2009 sem er búið að vera erfitt eins og við þekkjum það. Það hefur gengið mjög illa nánast alls staðar. Þeir skila 15 milljörðum, 16 milljörðum, 25 milljörðum í hagnað á fyrsta rekstrarárinu. Fyrsta heila rekstrarárið skila bankarnir þessu og ég hef lúmskan grun um að það sé hugsanlega vegna þess að þeir ganga allt of harkalega fram við innheimtuna gegn heimilunum í landinu. Í raun og veru má færa rök fyrir því að þegar nýi bankinn tekur kröfuna frá gamla bankanum með íbúðalánin taki hann hana með helmingsafslætti og rukki síðan vexti ofan á heildarupphæðina. Hvað þýðir það, virðulegur forseti? Það þýðir að þau heimili sem lánin hafa verið yfirtekin hjá með helmingsafslætti borga helmingi hærri vexti en þau gera samkvæmt þeim vaxtaútreikningi sem er á greiðsluseðlunum. Bankinn nýi keypti kröfuna með helmingsafslætti. Það er kannski þetta, virðulegi forseti, sem býr til allan þennan óstjórnlega hagnað hjá bönkunum.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja að hv. viðskiptanefnd á samúð mína alla fyrir að hafa þurft að reyna að stagbæta þetta mál eins og hægt er, enda sýna fylgiskjöl málsins hvernig staðið er að því. Hæstv. viðskiptaráðherra hefði verið nær að vinna þetta mál betur og hugsanlega taka meira tillit til þess og leggja það fram eftir að rannsóknarskýrslan kom þó að það sé engin afsökun fyrir því, virðulegi forseti, að ekki skuli vera tekið á eignarhaldi bankanna, að það skuli vera þannig að hér geti menn aftur farið í þann farveg að eignast mjög stóran og ráðandi hlut í bönkunum. Líka vil ég minna á það sem ég sagði áðan, seðlabankastjóri hefur sagt opinberlega að ekkert í lagaumhverfinu tryggi að annað bankahrun geti ekki gerst. Og þetta frumvarp mun ekki tryggja það. Þess vegna tek ég undir tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um að það vantar pólitíska sýn og hvernig menn vilja byggja upp fjármálakerfið, hvað við getum í raun og veru haft stórt fjármálakerfi. Þetta er umræðan sem við verðum að taka. Hvernig sjá stjórnmálaöflin fyrir sér að hægt sé að gera það? Ég hefði talið jafnvel enn þá skynsamlegra ef hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði lagt fram skýrslu um það sem við gætum fikrað okkur eftir.

Það var mjög merkilegt sem kom fram í umræðunum hjá næsta ræðumanni á undan mér, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, þar sem hann benti einmitt á að í breytingartillögunum væri mjög athyglisverð grein sem hefði ekki fengið neina umfjöllun í allan dag, um það sem hefur hugsanlega stórkostleg áhrif á okkur Íslendinga og gæti skipt tugum milljarða. Það hefur ekki verið nefnt, það er ekkert getið um það í nefndarálitinu og ekkert í málflutningi þeirra þingmanna sem mæltu fyrir því. Þessa umræðu vantar inn í. Síðan sagði hv. þm. Eygló Harðardóttir: Þetta er einmitt eitt af þeim atriðum sem ég hef óskað eftir að verði rædd sérstaklega milli 2. og 3. umr. í nefndinni þannig að við fáum dýpri umræðu og skilning og getum þá kallað eftir svörum við þeim spurningum sem vakna.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja þetta: Þetta er enn eitt málið sem hæstv. ríkisstjórn leggur fram fálmandi út í loftið og reynir að leysa hluta af því, hugsanlega auðveldustu hlutana, en skilur eftir allar stóru spurningarnar sem verður að svara eins og ég fór yfir áðan. Sérstakur kafli er um sparisjóðina sem ég mun koma að í annarri ræðu á eftir. Það er svo mörgu ósvarað. Það sem kannski situr eftir eru ummæli hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrr í dag um að við séum að bíða eftir þingmannanefndinni. Þegar hún skilar niðurstöðunni út úr skýrslunni verður skipuð nefnd til að fara yfir þær tillögur. Enn ítreka ég það sem hæstv. forsætisráðherra sagði í vikunni, að ríkisstjórnin ætlaði að skipa nefnd til að láta skoða sérstaklega ráðningar í stöður án auglýsingar hjá ríkisstjórninni sjálfri og hún á að skila skýrslu til ríkisstjórnarinnar sjálfrar til að skilja hvort það væri hugsanlegt að þeir skildu hvað þeir væru að gera.