138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[22:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ræðu hans. Þingmaðurinn kom inn á það í ræðu sinni að hann vænti þess að hann fengi spurningu um sína framtíðarsýn. Ég ætla ekki að valda þingmanninum vonbrigðum hvað það varðar og vil gjarnan heyra frekar um það frá þingmanninum hver hans framtíðarsýn er. Mér hefur ætíð þótt mjög áhugavert að hlusta á ræður hv. þingmanns og lesa skrif hans um rekstur fyrirtækja, ekki hvað síst fjármálafyrirtækja. Ég hef að vísu ekki alltaf verið sammála honum en það er alltaf jafnáhugavert og upplýsandi að hlusta á hann.

Spurning mín er: Hvað er það nákvæmlega sem við getum gert miðað við stærð og getu þjóðarbúsins? Hvers konar fjármálamarkað getum við í raun og veru haft á Íslandi miðað við það að við erum aðeins 320 þúsund hræður? Að vísu framleiðum við held ég nokkuð vel af verðmætum en Seðlabankinn telur að núverandi bankakerfi, það bankakerfi sem var endurreist eftir hrunið, sé of stórt. Það er nær tvöfaldri landsframleiðslu, held ég, í stað þess að vera eins og í Noregi, þ.e. svipað að stærð og landsframleiðslan.

Ég hef líka áhuga á að heyra skoðanir þingmannsins varðandi eignarhaldið á bönkunum og rekstrarformið, hvort hann sjái fyrir sér einhverja ákveðna tegund af eignarhaldi og takmarkanir varðandi það. Ef þingmaðurinn hefur tíma til væri einmitt líka mjög áhugavert að heyra hans sýn varðandi hlutabréfamarkaðinn. Getur jafnlítil þjóð verið með virkan hlutabréfamarkað? Verður markaðurinn ekki alltaf of grunnur og eru ekki of fá fyrirtæki á markaði? Getum við verið með sjálfstæða kauphöll? Og enn ein spurningin: Þó að við mundum sameina t.d. FME Seðlabankanum, getum við verið með sjálfstætt og öflugt fjármálaeftirlit?