138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[23:17]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um heimild til samninga um gagnaver eins og það heitir á þingmáli. Á minni íslensku heitir þetta frumvarp um gagnaver og ívilnanir til Björgólfs Thors Björgólfssonar og annarra vildarvina Samfylkingarinnar. Mér fannst með ólíkindum hvað hv. formaður iðnaðarnefndar átti í miklum erfiðleikum með að átta sig á því hvaða siðferðilegu afstöðu hann ætti að hafa til þeirra manna sem ollu hruninu. Það er kannski lýsandi fyrir Samfylkinguna sem þingflokk og stjórnmálaflokk að eiga í vandræðum með siðferðilega afstöðu til þeirra sem ollu mesta efnahagstjóni sem um getur í Íslandssögunni, en það er dapurlegt að þurfa að vera í þeirri aðstöðu.

Ríkisstjórn Íslands, með stuðningi þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna, er nú að ganga til samninga við áðurnefndan Björgólf Thor Björgólfsson og fleiri vildarvini Samfylkingarinnar um aðstöðu og ívilnanir fyrir svokallað gagnaver á fyrrum herstöðvasvæði á Keflavíkurflugvelli. Með tilliti til forsögu Björgólfs Thors á Íslandi og þáttar hans í einu mesta efnahagshruni sögunnar og þeirrar staðreyndar að hann mun líklega sæta ítarlegri rannsókn af hálfu sérstaks saksóknara og gríðarhárrar skaðabótakröfu af hálfu kröfuhafa gamla Landsbankans er ekki hægt að segja annað en að þetta sé alveg ótrúleg framganga af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Björgólfur Thor, sem einn af aðaleigendum Landsbankans, mokaði einnig tugum milljóna í fjárframlög til stjórnmálaflokka og milljónum til einstakra þingmanna. Þessir stjórnmálaflokkar og sumir þessara þingmanna munu nú samþykkja þetta frumvarp, frumvarp sem er með ívilnunum og undanþágum frá lögum sem íslensk fyrirtæki almennt eiga ekki völ á. Ég er alveg hissa á því að menn skuli svo vísa til stjórnarskrárbundins réttar Björgólfs Thors til þess að fá ívilnanir frá íslenska ríkinu við uppsetningu á gagnaveri. Þetta er alveg ótrúlegur málflutningur sem hefur verið hér í gangi.

Herra forseti. Málið er einnig hið ólíklegasta af margvíslegum öðrum ástæðum. Umsagnir um frumvarpið voru t.d. alls ekki allar fylgjandi málinu og þeim sem gagnrýndi það helst var meinað að koma fyrir iðnaðarnefnd og útskýra mál sitt frekar. Í umsögn hans segir m.a., með leyfi forseta:

„Við lestur frumvarpsins og fylgiskjala þess kemur fljótlega í ljós að hér er á ferðinni tilraun til að selja rafmagn í heildsölu til erlendra aðila án innlendrar verðmætasköpunar. Í ljósi þess hve fá störf skapast miðað við þetta mikla rafmagn sem fer í það að knýja verkefnið er vonandi að rafmagnsverðið verði ásættanlegt því að lítill annar hagur verður af þessari starfsemi.“ — Enda um fá störf að ræða.

Í frumvarpinu er um að ræða umfangsmiklar undanþágur frá fjölmörgum íslenskum lögum en í 3. gr. frumvarpsins er alveg ótrúlegur listi yfir undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál, lögum um eignarrétt, lögum um afnotarétt, lögum um einkahlutafélög, lögum um brunatryggingar, viðlagatryggingar sem og undanþágur frá gatnagerðargjöldum. Samkvæmt þessu er ekki um mjög arðbæra starfsemi að ræða úr því að hún þarf á svo dyggum stuðningi skattborgaranna að halda og hér er, að því er virðist, einfaldlega um að ræða áframhald á hinum hefðbundna pilsfaldakapítalisma sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið svo duglegur við að innleiða hér á Íslandi.

Í 4. gr. frumvarpsins eru svo hvorki meira né minna en 22 atriði til viðbótar sem ívilna fyrirtækinu. Í 6. gr. eru víðtækar ívilnanir í formi niðurfellinga á tollum og aðflutningsgjöldum, á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir gagnaverið og í 7. gr. er fyrirtækinu heimilt að framselja til þriðja aðila öll réttindi og allar þær ívilnanir sem fram koma í fjárfestingarsamningnum — heimilt er að framselja til þriðja aðila þannig að í raun er verið að gera hér opinn samning við hvern sem er í heiminum. Það er augljóst að önnur innlend gagnaver munu ekki geta keppt við þetta gæluverkefni ríkisstjórnarinnar á neinum eðlilegum forsendum og mun frumvarpið sennilega leiða til verulegra þrenginga og hamla framþróun í þeim geira. Eigendur Vernes eru og stórir hluthafar í Farice sem mun bjóða þeim upp á enn betri samkeppnisstöðu gagnvart öðrum íslenskum notendum gagnatenginga til útlanda.

Virðulegur forseti. Aðkoma tiltekins einstaklings að málinu, sem valinn hefur verið til trúnaðarstarfa af Samfylkingunni, og er eindreginn stuðningsmaður hennar, er svo kapítuli út af fyrir sig. Stjórnarformaður Vernes er nefnilega einnig formaður stýrihóps iðnaðarráðherra um orkustefnu til framtíðar auk þess að vera stjórnarformaður tölvuleikjafyrirtækisins CCP sem er einnig að hluta í eigu áðurnefnds Björgólfs Thors Björgólfssonar. Hér er því maður sem situr ekki bara beggja vegna borðsins heldur hringinn í kringum það. Hann hefur einnig verið einn helsti gúrú þingmanna Samfylkingarinnar í nýsköpunarmálum sem eftir fund með honum töluðu ekki lengur um fjárfesta og fjárfestingarbanka heldur um viðskiptaengla sem vilja sáldra fjármunum í nýsköpun og ömmur sem vilja verja sparifé sínu í uppbygginguna.

Herra forseti. Umræðan um þetta mál hefur verið með ólíkindum. Það er oft sagt að ekkert hafi breyst á Íslandi við hrunið og þetta frumvarp er skýrt dæmi um endurtekningu á öllu sem talið er til hins versta í íslenskum stjórnmálum og íslensku samfélagi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hér er um að ræða endurtekningu eða áframhald á því spillta fyrirkomulagi sem heitir samkrull viðskiptalífs og stjórnmála. Í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Gagnaver tilheyra þeim flokki fjárfestinga sem kallaður er „orkufrekur iðnaður“, þótt þau noti ekki nærri jafnmikla orku og t.d. álver og vegna hentugs loftslags og möguleika á vatnskælingu komist þau af með mun minni orkueyðslu hérlendis en annars staðar. Því vekur það athygli minni hlutans að stjórnarformaður Verne Holdings, Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir, er einnig formaður stýrihóps iðnaðarráðherra um orkustefnu. Vilhjálmur situr því beggja vegna borðsins að því leyti að hann vinnur fyrir iðnaðarráðuneytið á sama tíma og ráðherra iðnaðarmála er að semja við fyrirtæki sem hann er stjórnarformaður fyrir. Slíkt getur varla talist ásættanlegt og hlýtur vera hans á öðrum hvorum staðnum að gera hann óhæfan til að vera á hinum. Þá sat umræddur Vilhjálmur einnig í 9. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir síðustu alþingiskosningar.“

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir og orðrétt, með leyfi forseta:

„Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna. Leita þarf leiða til að draga skýrari mörk milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Virðulegur forseti. Framgangur þessa máls hér á þingi hefur verið með algjörum ólíkindum. Það er dapurleg niðurstaða að eftir hrunið skuli íslenskir stjórnmálamenn halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það skiptir ekki máli hvaða flokkar eru við völd, hvaða ráðherrar ráða eða hvað þingmennirnir heita. Þegar auðmennirnir koma, jafnvel þótt þeir hafi valdið almenningi og samfélaginu óbætanlegu fjárhagstjóni og Íslandi óbætanlegu orðsporstjóni erlendis, munu alltaf rísa upp íslenskir þingmenn þeim til stuðnings og bera fyrir sig, eins og hv. formaður iðnaðarnefndar, stjórnarskrárvörðum rétti þeirra til ívilnana frá skattborgurunum, íslenskir þingmenn, sem höfðu það ekki hátt á lista kosningaloforða sinna að þeir mundu með ráðum og dáð styðja við frumvarp sem þetta. Þeir hefðu nefnilega aldrei verið kosnir á þeim forsendum því að frumvarp sem þetta dregur fram allt það versta sem til er í íslenskum stjórnmálum og það er dapurlegt að verða vitni að því að þetta verði að lögum.