138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

þingmennskuafsal Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur.

[12:03]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Nú er komið að leiðarlokum. Ég hef ákveðið að segja af mér sem þingmaður Reykvíkinga og mun á eftir afhenda forseta Alþingis afsagnarbréf mitt þar sem þetta er síðasti dagur minn á Alþingi. Ástæður afsagnar minnar hef ég tíundað í yfirlýsingu sem ég sendi frá mér í síðustu viku. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þingmönnum fyrir samstarfið á undanförnum árum.

Ég tók sæti eftir kosningar 2007 og fékk endurnýjað umboð í kosningunum 2009. Ég hóf stjórnmálaþátttöku árið 1994, þá ung að árum. Síðan þá hef ég margt reynt og á vettvangi Alþingis hef ég kynnst mörgu góðu fólki og átt gott samstarf við fólk úr flestum flokkum. Ég get fullyrt að langflest það fólk sem ég hef átt samleið með á vettvangi stjórnmálanna er þar til að fylgja eftir hugmyndum sínum og umbjóðenda sinna um betra samfélag og þótt ég sé langt í frá sammála þeim öllum tel ég mig lánsama að hafa mátt takast á um hugmyndir fyrst og fremst í stað þess að troða persónulegar illsakir.

Það fylgja því vissulega blendnar tilfinningar að víkja sæti við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu, en hér eins og í lífinu sjálfu er það þannig að þegar einar dyr lokast opnast aðrar.

Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja þingheim til að taka til endurskoðunar vinnubrögð, vinnulag og ekki síst það tungutak sem tíðkast allt of oft hér í þessum sal. Til að breyta vinnubrögðum og endurvekja traust þurfa margir að líta í eigin barm. Óhætt er að segja að stjórnmálaflokkar og stjórnmálastarf verði að taka miklum breytingum á næstunni.

Þeirra sem starfa í stjórnmálum bíður vandasamt verkefni. Það felst í að gera þær umbætur í samfélaginu sem líklegar eru til að lækna sárin sem hrunið hefur valdið okkur. Til að sátt megi verða þarf víða að brjóta odd af oflæti og leita eftir megni að því sem sameinar okkur sem manneskjur fremur en því sem sundrar. Með það fyrir augum vil ég leggja mitt lóð á vogarskálarnar og stíga til hliðar í þeirri von að kraftar okkar allra beinist fyrst og fremst að því að byggja réttlátara og betra samfélag. Ég þakka kærlega fyrir mig.

Megi Alþingi Íslendinga farnast vel í störfum sínum á þeim vandasömu og viðsjárverðu tímum sem fram undan eru.