138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

gagnaver í Reykjanesbæ.

[12:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður virðist hafa allar upplýsingar um samskipti við ESA vegna málefna fyrirtækisins Verne Holdings og um áform þess um uppbyggingu gagnavers í Reykjanesbæ sem hafa reyndar verið í undirbúningi alllengi, sömuleiðis þær athugasemdir sem stofnunin hefur gert, enda gengu upphafleg drög að þeim fjárfestingarsamningi lengra. Í meðförum innan Stjórnarráðsins var dregið verulega úr þeim ívilnunum sem fyrirtækinu höfðu upphaflega verið ætluð í fyrstu drögum að fjárfestingarsamningi. Engu að síður varð niðurstaðan sú að þarna væri um of langan tíma að ræða og að sjálfsögðu er þá brugðist við því.

Nú þekki ég ekki nákvæmlega hvort starfsemi Thor-gagnaversins er sambærileg eða byggð á sams konar viðskiptalegum grunni. Ég hef einfaldlega ekki upplýsingar um það, hef því miður ekki haft tíma eða aðstöðu til að kynna mér það. Að sjálfsögðu gleðjumst við yfir því frumkvæði sem þar hefur verið sýnt. Það getur skipt máli hvernig viðskiptauppleggið er hvað varðar samskipti við þá aðila sem veitt er þjónusta, og álitamál eins og starfsstöð eða staðfesta gagnvart þjónustuaðilunum skiptir þar sköpum. Ég get ekki fullyrt hvort þessi mál séu þannig hliðstæð eða sambærileg að tilefni sé til að hvort hafi áhrif á hitt.

Varðandi fyrirkomulag ívilnandi aðgerða almennt er frumvarp til meðferðar á þingi þar sem reynt er að koma þessu í almennan farveg þannig að menn hætti eða komist í burtu frá því fyrirkomulagi að semja um hvert mál fyrir sig einhverja sérstaka klæðskerasaumaða fjárfestingarsamninga með mismunandi ívilnunum, heldur reyni að byggja á einhverri almennri stefnu sem sé samrýmanleg samkeppnisreglum okkar og skuldbindingum varðandi Evrópuréttinn á sviði byggðamála (Forseti hringir.) og annað í þeim dúr. Það er það framtíðarlandslag sem verið er að reyna að koma þessum málum í.