138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

strandveiðar.

[12:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður veit betur en hann segir hér. Fjöldinn allur skráir sig inn á svæði, velur svæði til að gera út frá, m.a. frá Reykjavík og öðrum svæðum á landinu, en skráir sig inn á Vestfirði og inn á Norðurland. Það má ekki færa sig á milli svæða. Þetta geta menn svo sem vel séð fyrir og er bara hluti af þeirri áhættu sem menn taka. Það er einmitt mjög gott hversu vel hefur verið sótt frá Vestfjörðum.

Ef hv. þingmaður leggur það til að við bætum í þennan 6.000 tonna kvóta kemur það þessum aðilum til góða, (Gripið fram í.) ef hv. þingmaður vill í raun fylgja því eftir sem hann er hér að segja, að við viljum efla og standa á bak við strandveiðarnar. Þær ganga mjög vel, allir sem ég þekki til sem hafa komið að málinu eru ánægðir með þær. Ef hv. þingmaður vill enn auka í getur hv. þingmaður komið með tillögu um það. (Forseti hringir.) Það er heimilt að færa á milli svæða þegar kemur fram á sumarið og það verður skoðað en það er val manna hvar þeir gera út.