138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

aðildarumsókn að ESB.

[12:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrir ári unnu Vinstri grænir mikinn kosningasigur vegna þess að þeir voru á móti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, vegna þess að þeir voru á móti Icesave og vegna þess að þeir voru á móti aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í: … kosningabarátta.) Um þetta síðasta ætla ég að ræða við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason.

17. júní, þjóðhátíðardaginn, mun Evrópusambandið taka afstöðu til þess hvort það vill semja við Ísland um að Íslendingar gangi þar inn og afsali sér fullveldinu sem Jón Sigurðsson barðist fyrir í fjölda ára. Í ljósi þess langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra:

1. Þarf að breyta landbúnaðarkerfinu á Íslandi áður en viðræður hefjast eða meðan á viðræðum stendur, og þá í hvaða veru? Hvernig verður því breytt?

2. Er það ekki alveg á hreinu að hæstv. ráðherra vinnur ötullega að því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið eins og hann lofaði?

3. Veit ráðherra hvað þessi umsókn og allt sem henni fylgir kostar ríkissjóð?