138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

aðildarumsókn að ESB.

[12:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Eins og þingheimur veit greiddi ég atkvæði á Alþingi gegn því að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar samþykkti Alþingi að senda þá umsókn. Reyndar gerðu ýmsir þingmenn grein fyrir atkvæði sínu og sögðust ekki í sjálfu sér styðja ESB-aðild en samt var þessi umsókn send.

Sem ráðherra vinn ég samkvæmt samþykktum Alþingis. Mín skoðun á þessu máli er hins vegar óbreytt. Ég verð að segja að það er oft skondið þegar sendinefndir koma að utan, frá Evrópuþinginu eða öðrum Evrópulöndum, til að forvitnast um hvernig Evrópusambandsaðildarumsóknin hafi orðið til. Þá segi ég: Hún varð til með þinglegum hætti, afgreidd á Alþingi Íslendinga með meiri hluta.

Stefna þeirra flokka sem standa að ríkisstjórn er í sjálfu sér óbreytt. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er á móti aðild að Evrópusambandinu, telur að okkur sé betur komið með öðrum hætti. (Gripið fram í: Það er það.) Það liggur fyrir í flokkssamþykkt þannig að það þarf ekkert að koma á óvart í þeim efnum. Það er hins vegar unnið samkvæmt samþykkt Alþingis.

Það er alveg rétt að í áliti frá framkvæmdanefnd Evrópusambandsins um hvað gera þurfi í aðdraganda umsóknarferilsins er m.a. tilgreint að gera þurfi breytingar á lögum og reglum sem lúta að landbúnaðarkerfinu. Við teljum að það standi á vissan hátt um það hvort það þurfi að vera búið áður en aðildarviðræðunum verður lokið.

Það var samþykkt af Alþingi að þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi fara fram ef þessar (Forseti hringir.) aðildarviðræður ganga það langt og ég tel að það eigi ekki að vera búið að breyta hér lögum og reglum í þágu Evrópusambandsins áður en sú þjóðaratkvæðagreiðsla fer þá fram.