138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

staða atvinnumála.

[13:08]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Eftir niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna um helgina, þar sem við stjórnmálamenn fengum mjög skýr skilaboð um að breyta orðræðu okkar, breyta vinnubrögðum okkar og viðhorfi til þeirra samfélagslegu verkefna sem okkur er trúað fyrir, er svolítið sorglegt að hlusta á ræður manna hér í dag og átta sig á því að ekkert hefur breyst á þessum vinnustað, a.m.k. ekki í því hvernig menn tala.

Hér tala menn mjög í stórum lausnum. Það hefur verið lenska í samfélagi okkar að tala og einblína á stórar lausnir og stóriðju. Við erum alltaf að leita að patentlausnum til að leysa málin. Gott og vel, atvinnutækifærin liggja engu að síður víðar og stundum getur komið sér vel að leita tækifæranna í því sem við eigum fyrir, í fjölbreytninni sem nú þegar er til staðar í íslensku atvinnulífi.

Það er t.d. ekki hægt að ræða atvinnumál á Íslandi án þess að fjalla um undirstöðuatvinnugrein okkar, sjávarútveginn, því að við Íslendingar erum fiskveiðiþjóð. Við fiskveiðar og -vinnslu eru unnin um 10.000 störf og þar verða til gríðarleg verðmæti. Á síðasta ári voru verðmæti sjávarafurða 208 milljarðar kr. þannig að það er ekki við öðru að búast þegar atvinnulíf ber á góma en að maður líti til sjávarútvegsins. Sú atvinnugrein er í rauninni ekki ein atvinnugrein, heldur atvinnugrein sem leiðir af sér fjöldann allan af afleiddum störfum og hefur margfeldisáhrif í samfélaginu t.d. í sambandi við hátækni, ferðaþjónustu og margt fleira.

Það er líka sorglegt að rifja upp í þessu sambandi þær deilur og óeiningu í þinginu um atvinnuskapandi verkefni á borð við þá aflaaukningu í skötusel sem varð mikið þrætuepli, aukna línuívilnun og strandveiðarnar (Forseti hringir.) sem nú hafa verið lögleiddar, að ekki sé talað um þær ráðstafanir sem stjórnvöld hafa gert (Forseti hringir.) til að opna fiskveiðistjórnarkerfið og auka atvinnufrelsi manna í því sambandi. Aðalatriðið er (Forseti hringir.) að lausnirnar liggja víðar en í stórum stóriðjuframkvæmdum.