138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að það sé mikilvægt að vita hverjir eiga bankana. Það vitum við auðvitað ekki fyrr en þetta frumvarp og breytingartillögur viðskiptanefndar eru orðnar að lögum. Ef það kemur í ljós að það er bara einn sem á alla þrjá bankana, þá er það verkefni sem ég tel að þurfi að taka á í sumar. Þingið kemur aftur saman í september og þá gætum við sett þau lög sem þarf til að tryggja fyrst og fremst hagsmuni viðskiptavina viðskiptabankanna varðandi eignarhaldið og ekki síst almannahagsmuni.