138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir að hafa farið yfir helstu hluta frumvarpsins. Það sem vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns var, að hún sagði frá því að hún hefði talað við ráðuneytið út af viðskiptum með eigin hluti. Hún benti m.a. á Bandaríkin varðandi þetta. Ef leggja á bann við viðskiptum með eigin hluti, hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að banki t.d. geti aukið hlutafé sitt? Mun hann brjóta bannið ef það verður hlutafjáraukning eða annað slíkt, ef hann má ekki selja þá?