138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:25]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson erum meira og minna sammála um þetta. Aftur á móti er það ekki rétt sem þingmaðurinn segir að hv. formaður viðskiptanefndar hafi verið að boða þessa breytingu hér í þinginu. Hún var að boða bann við viðskiptum með eigin hluti sem ég veit ekki hverju á að ná fram.

Það er annað sem innleiðing EES-reglugerðafargansins gerði okkur Íslendingum og það var þessi „fix-ídea“ að aðskilja Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið þar sem Seðlabankanum var falið það hlutverk að fylgjast með kerfisáhættu og Fjármálaeftirlitinu að fylgjast með rekstri einstakra fjármálamarkaða. Ég hef lýst því þannig að Seðlabankinn hafi verið skógarvörðurinn og Fjármálaeftirlitið læknirinn sem fylgdist með einstökum trjám og á milli skips og bryggju hafi fallið upplýsingar um það hvernig fjármálastöðugleikanum eða kerfisáhættunni væri raunverulega farið hér.

Því miður getur hv. þingmaður ekki komið hér upp í annað skipti til að tala við mig nema hann panti sér ræðu en ég vil hvetja hann og vinstri græna til að leggjast á sveif með okkur sjálfstæðismönnum að bæta úr þessu þannig að reglugerðarumhverfið verði bætt, að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið verði sameinuð, að bann verði lagt við eigin viðskiptum viðskiptabanka og að ítarleg úttekt fari fram á reglugerðarumhverfinu á Íslandi áður en farið verður að lappa upp á það eins og er gert í þessari löggjöf vegna þess að það gerir ekkert annað en veita (Forseti hringir.) falska öryggiskennd og telja mönnum trú um að nóg sé að gert.