138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

stimpilgjald og aukatekjur ríkissjóðs.

530. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá efnahags- og skattanefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum um stimpilgjald og lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Í frumvarpinu er lagt til að við endurfjármögnun bílalána með nýju láni verði veitt undanþága frá stimpilgjaldi og að skilyrði undanþágunnar verði sams konar og gildir um endurfjármögnun fasteignaveðlána, samanber álit efnahags- og skattanefndar frá 17. nóvember 2008 í tengslum við afgreiðslu laga nr. 132/2008. Í annan stað er lagt til að lagfært verði orðalag í upphafsgrein laga um aukatekjur ríkissjóðs sem kom inn með 21. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 130/2009. Loks er lagt til að þinglýsingargjald verði fellt niður hjá þeim sem njóta eiga stimpilfrelsis samkvæmt þessu frumvarpi og ákvæði til bráðabirgða í lögum um stimpilgjald.

Til samræmis við umrætt bráðabirgðaákvæði leggur nefndin til breytingartillögu eða að tímabilið skv. 1. gr. frumvarpsins verði frá og með 1. desember 2009 í stað 1. apríl 2010.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessari breytingu sem er þá til samræmis við aðra löggjöf.

Undir nefndarálitið rita Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, Birkir Jón Jónsson, með fyrirvara, Lilja Mósesdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara, Þór Saari og Ögmundur Jónasson.