138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Meðal þess sem hefur verið rætt mikið á undanförnum mánuðum eru svokallaðar ráðningar án auglýsingar hjá hæstv. ríkisstjórn. Hún hefur staðið sig „afskaplega vel í því“ þar sem búið er að ráða í milli 40 og 50 stöður án auglýsingar. Manni finnst búið að hrúga flokksgæðingum inn í ráðuneytin. Maður hélt að þetta væri liðin tíð en því miður er það ekki þannig. Þó gekk algerlega fram af mér þegar fyrir örstuttu síðan var ráðinn verkefnisstjóri í fjármálaráðuneytið til að stýra kynjaðri fjárlagagerð. Ég hélt fyrst að þetta væri í véfréttarstíl og verð að segja, virðulegi forseti, að mér var eiginlega öllum lokið.

Síðan kemur í ljós fyrir nokkrum dögum í umræðum á þinginu að hæstv. forsætisráðherra svaraði því til að það væri mjög skynsamlegt fyrir hæstv. ríkisstjórn að skipa sérstaka nefnd til að rannsaka og skoða ráðningar ríkisstjórnarinnar sjálfrar og skila síðan í framhaldi af því skýrslu til ríkisstjórnarinnar sem hún mundi síðan fara yfir. Þessi endemis vitleysa er orðin meiri en góðu hófi gegnir. (PHB: Þetta er grín.) Þetta er því miður ekki grín, hv. þm. Pétur Blöndal. Því beini ég þeirri fyrirspurn til hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar — við erum samherjar í fjárlaganefnd og fram undan í haust er erfið fjárlagavinna — hvort hv. þingmaður sætti sig virkilega við þessa forgangsröðun og hvort hann telji þetta það mikilvægasta sem þurfi að gera í dag, að ráða sérstakan verkefnisstjóra til að stýra kynjaðri fjárlagagerð á meðan verið er að loka og fella niður stöður á sjúkrahúsum og sjúkrastofnunum á landinu. (Forseti hringir.)