138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar að vekja athygli þingmanna á nokkrum ummælum sem látin voru falla í kjölfar sveitarstjórnarkosninga sem voru á laugardaginn. Sérstaklega langar mig að vekja athygli þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar á ummælum formanns Vinstri grænna í Silfri Egils á sunnudaginn. Hér starfar Alþingi Íslendinga kjörið á lýðræðislegum forsendum. Formaður Vinstri grænna var að ræða um niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna og talaði í þá veru að niðurstöðurnar bentu til upplausnar í stjórnmálum og sagði að varast yrði upplausn í stjórnmálum og viðbótaráföll ef menn misstu tökin á stjórnmálaástandinu. Þetta sagði formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hæstv. fjármálaráðherra.

Virðulegur forseti. Ég tel brýnt að Alþingi sjálft og þingmenn ríkisstjórnarflokkanna krefji hæstv. fjármálaráðherra svara um það hvað hann á við með þessum ummælum. Þetta er kannski með því skuggalegra sem stjórnmálamaður í lýðræðisríki getur látið út úr sér: Við verðum að varast að menn missi tökin á stjórnmálaástandinu.

Lýðræðið hefur sinn gang og það er ekki á valdi hæstv. fjármálaráðherra að hafa tök á stjórnmálaástandinu. Á hvaða vegferð er ráðherrann eiginlega? Alræði hans í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er alþekkt og landsmönnum ljóst. Vill hann heimfæra það upp á alla landsmenn? Ég hvet þingmenn til að spyrja hann að því.