138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það væri í besta falli hallærislegt núna tveimur dögum eftir sveitarstjórnarkosningar ef við fjölluðum ekki í einhverjum mæli um úrslit þeirra á vettvangi þingsins. Kjósendur sendu skýr skilaboð í þessum kosningum. Ef við horfum til stórra sveitarfélaga eins og höfuðborgarinnar eða Akureyrar náðu þar ný og óháð framboð hátt í hreinum meiri hluta, og hreinum meiri hluta á Akureyri. Það segir sig náttúrlega sjálft að kjósendur eru að senda starfandi stjórnmálaflokkum ákveðin skilaboð. Það er óánægja með starfsemi stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna.

Ég held að við alþingismenn þurfum að líta í eigin barm. Hvernig hefur ásýnd þingsins verið síðustu 18 mánuðina? Hvernig hafa menn hagað vinnubrögðum á vettvangi þingsins? Jú, hér hafa menn skipst í tvær fylkingar, stjórn og stjórnarandstöðu, þegar almenningur kallar eftir samstöðu í samfélaginu við úrlausn erfiðra mála. Við í Framsóknarflokknum og stjórnarandstöðunni höfum boðið ríkisstjórninni ítrekað upp á samstarf við úrlausn margra erfiðra mála. Nú síðast lögðum við framsóknarmenn fram þjóðarsáttarhugmyndir um afmörkuð verkefni sem við öll ættum að geta tekist á við. Þessum tillögum okkar og hugmyndum er beinlínis hafnað. Hér halda menn áfram skotgrafahernaðinum og hlusta ekki á þau skilaboð sem þjóðin sendir Alþingi Íslendinga og stjórnmálaflokkunum. Ég hvet hv. þingmenn til að taka niðurstöður þessara kosninga alvarlega og líta í eigin barm þegar kemur að vinnubrögðum á þinginu. En því miður, og ég ætla að játa það hér, tel ég að forustumenn þessarar ríkisstjórnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, vilji einfaldlega ekki vinnubrögð af þeim toga sem við framsóknarmenn höfum lagt til. Fjölmargir (Forseti hringir.) almennir þingmenn væru tilbúnir til að vinna í anda samvinnu og samstöðu í þessum sal.