138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í Kína er ár tígursins, það hófst núna 14. febrúar. En á Íslandi upplifum við ár biðstöðunnar. Við höfum beðið ansi lengi eftir ýmsum málum. Í gær var eins árs afmæli hjá lögreglunni hér fyrir utan, lögreglumenn hafa beðið eitt ár eftir að gengið yrði til samninga við þá. Fyrir einu ári var sagt að hagvöxtur á Íslandi yrði kominn yfir 1% á þessum tíma. Við bíðum væntanlega í eitt ár enn eftir því að það gerist. Við erum m.a.s. enn að bíða eftir því að kreppunni ljúki, því hefur seinkað um meira en ár. Við erum sem sagt á ári biðstöðunnar.

Heimilin í landinu hafa allt frá því að kreppan og bankahrunið skullu á beðið eftir að eitthvað verði gert fyrir þau. Það situr enn einhvers staðar, sumt í þingnefndum, annað í bönkunum, hver vísar á annan og allir bíða eftir að eitthvað gerist. Það hefur lengi vel verið boðað af hæstv. félagsmálaráðherra að hér yrði komið með frumvörp inn í þingið til að afgreiða bílalánin. Á sama tíma fóru einstaka mál fyrir dómstóla og nú er beðið og beðið eftir því að eitthvað gerist þar.

Ég féll um litla frétt í morgun um að frumvarp hefði fallið á tíma, frumvarp um breytingar á sveitarstjórnarlögunum. Það stóð líka til að koma á stjórnlagaþingi. Það stóð líka til að koma á persónukjöri fyrir þessar kosningar. Það féll á tíma einhvern tíma í fyrrahaust. Þó voru uppi miklar hugmyndir um slíkt. Við erum á ári biðstöðunnar þar sem lítið gerist og við verðum að bíða eftir því að ríkisstjórnin fari frá og einhverjir aðrir taki við eða að ríkisstjórnin fari að vinna þau verk sem hún þarf að vinna. Við framsóknarmenn, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á, (Forseti hringir.) höfum boðist til að taka þátt í því starfi.