138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi taka undir orð síðasta ræðumanns og ítreka mikilvægi þess að sjúkraflugvél verði í Vestmannaeyjum af ástæðum sem ekki þarf að fjölyrða um, vegna landfræðilegrar legu og sérstöðu Eyjanna.

Ég vil blanda mér í þá umræðu sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hóf um kynjaða hagstjórn, ekki endilega um það málefni heldur það sem ég tel að hv. þingmaður hafi verið að benda á og það er skortur á forgangsröðun hjá þessari ágætu ríkisstjórn. Það er það sem við í stjórnarandstöðunni erum að kalla eftir á hverjum einasta degi og ég heyri ákall ýmissa stjórnarþingmanna þegar kallað er eftir bættum vinnubrögðum á stjórnarheimilinu. Þeir taka undir með okkur í stjórnarandstöðunni, það er verið að kalla eftir forgangsröðun, skýrri forgangsröðun. Á þeim erfiðu tímum sem nú eru verðum við að setjast niður, ákveða hvaða mál eru þess eðlis að við þurfum að afgreiða þau, koma þeim í farveg, til þess að endurreist verði á sem bestan hátt.

Ég held að kynjuð hagstjórn, með fullri virðingu fyrir henni, sé kannski ekki það mál sem við mundum setja í forgang ef við færum að vinna eftir einhverjum slíkum forgangslista. Það er ekki bara út af verkefninu heldur líka þeim fjármunum sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fór yfir að þyrfti ef þetta er verkefni sem kostar starfsmann til margra ára.

Ég held að allt tal hjá hv. stjórnarþingmönnum þegar þeir voru sjálfir í stjórnarandstöðu um það að vinnubrögð séu gamaldags og úrelt, að hér sé ekki skikk og regla á einu eða neinu, ég held að það hafi verið hjómið eitt. Nú er þetta sama fólk komið til valda, (Forseti hringir.) hefur tækifæri til að breyta vinnubrögðum og hér er allt í upplausn.