138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Þau voðaverk sem áttu sér stað á alþjóðlegu hafsvæði í gærmorgun eru staðfesting á því að allar þær fordæmingar sem alþjóðasamfélagið hefur látið frá sér fara um brot ísraelskra stjórnvalda á alþjóðalögum gagnvart palestínsku þjóðinni undanfarin 40 ár skila nákvæmlega engum árangri. Það er sem ísraelsk stjórnvöld gangi sífellt lengra í brotum sínum á alþjóðasáttmálum og lögum. Að ráðast í skjóli nætur á friðsamlega skipalest með hjálpargögn á leið til Gaza og drepa og særa fjölda manns um borð er táknmynd þess að tími sé kominn til að setja bönd á þessa stefnu óhefts ofbeldis. Skipin voru engin ógn, heldur innihéldu hjólastóla, lyf, matvæli og annað sem almenningur á Gaza í sárri neyð þarfnast til að geta dregið fram lífið. Skipin innihéldu jafnframt 700 manneskjur sem starfa í þágu friðar og mannúðar víðs vegar um heiminn. Sjö skip voru í för, friðarför. 700 manneskjur, þar á meðal nokkrir sem lifðu af helförina, þingmenn, handhafi friðarverðlauna Nóbels, fólk á öllum aldri, börn og gamalmenni — 700 manneskjur fengu að upplifa það stutta stund sem íbúar Gaza upplifa dag hvern, ísraelska herinn.

Ég fagna þeirri ályktun sem við unnum í utanríkismálanefnd. Hún felur í sér að við munum leitast við að ná alþjóðasamstöðu um alvöruaðgerðir gagnvart Ísraelum ef þeir halda áfram að brjóta alþjóðalög. Það er ákall frá Palestínu um alvöruaðgerð í anda þeirra aðgerða sem notaðar voru gagnvart Suður-Afríku á sínum tíma. Ég tek fram að ég veit allt um báðar hliðarnar en það er einfaldlega ekki hægt að kenna Hamas um árásina á friðarförina í gær. Hvar mun Ísraelsmenn bera niður næst ef þeir líta svo á að öryggi sínu sé ógnað af hjálpargögnum og friðarsinnum?

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni og hæstv. utanríkisráðherra og öllum í utanríkismálanefnd (Forseti hringir.) fyrir mjög málefnalegar og góðar umræður þó að ég hefði vissulega viljað ganga lengra.