138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Árás ísraelskra hermanna á skipalestina í gærmorgun var forkastanleg. Með henni hafa ísraelsk stjórnvöld enn og aftur brugðist við aðstæðum með gjörsamlega óviðunandi hætti og í leiðinni skaðað eigin málstað. Með því að hertaka skipin á alþjóðlegu hafsvæði er líka ljóst að brotin varða við alþjóðalög. Ísraelar hafa að sjálfsögðu rétt til sjálfsvarnar eins og aðrir. Stjórnvöld í Ísrael höfðu alla möguleika á að skoða skipin þegar þau kæmu til hafnar. Ofsafengin viðbrögð þeirra sem leiddu til mannfalls hafa framkallað fordæmingu um heim allan, ekki síst hjá þeim okkar sem hafa verið og eru einlægir stuðningsmenn sjálfstæðs Ísraelsríkis og sem hafa fordæmt hryðjuverkastarfsemi svo sem frá Hamas-liðum gegn íbúum Ísraels.

Atburður sem þessi mun enn torvelda alla viðleitni til að skapa frið fyrir botni Miðjarðarhafs. Markmiðið með slíku friðarsamkomulagi hlýtur að vera hin svokallaða tveggja ríkja lausn, skilyrðislaus viðurkenning á Ísrael og stofnun sjálfstæðs Palestínuríkis. Gleymum því ekki að meðal Hamas-liða er stefnan sú að þurrka út Ísraelsríki.

Um leið og við fordæmum árás Ísraelsmanna hljótum við að krefjast þess að skipunum sem voru tekin herskildi verði sleppt, farþegum og áhöfn veitt frelsi líkt og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktaði um í nótt og að sá varningur sem átti að berast hinum hrjáðu íbúum Gaza verði þegar í stað fluttur á áfangastað. Ég tek undir með fulltrúa Evrópusambandsins sem krafðist þess í gær að opnað yrði tafarlaust fyrir flutning á hjálpargögnum og almennum vörum um Gaza-svæðið. Þetta er sú krafa sem ómar nú um heiminn en gengur þvert á ályktun meiri hluta utanríkismálanefndar sem var samþykkt í hádeginu. Með þeirri ályktun hefur meiri hlutinn í raun skuldbundið sig til að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og setja á einhliða viðskiptaþvinganir ef ekki tekst að koma á friði. Það er veganestið sem hæstv. utanríkisráðherra hefur meðferðis þegar hann fer til fundar við starfsbræður sína á næstunni. Meiri hluti nefndarinnar kaus að taka ekki undir ályktun öryggisráðsins frá því í nótt sem m.a. fól í sér kröfu um tafarlausa alþjóðlega rannsókn á árásinni í gær.

Virðulegi forseti. Stærsta verkefnið verður sem fyrr að leita leiða (Forseti hringir.) til að leiða til lykta flókna og grafalvarlega deilu.