138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í þingsályktun sem samþykkt var á þinginu 1988–1989 kemur fram, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að báðir aðilar sýni raunverulegan samkomulagsvilja og viðurkenni rétt hvor annars í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna …“

Og síðar:

„Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis.“

Það er ansi langt síðan þessi ályktun var samþykkt af öllum flokkum og auðvitað dapurlegt að ekki skuli vera komið lengra í þessu eilífa stríði sem varað hefur í Mið-Austurlöndum eins lengi og við þekkjum öll vel.

Það er líka dapurlegt að við skulum ekki öll geta staðið saman og komið okkur upp úr þeim hjólförum sem þetta mál hefur því miður verið oft í á Íslandi, hjólförum hægri og vinstri, hjólförum þessum að við getum ekki staðið saman um að standa vörð um mannréttindi og að alþjóðalög séu virt. Nú þegar kommúnismi og frjálshyggja hafa bæði kvatt þennan heim ættum við að geta staðið saman að því að verja mannréttindi og fordæma mannréttindabrot og brot á alþjóðalögum eins og framin voru af Ísraelsher á Miðjarðarhafi í fyrradag.

Við framsóknarmenn höfum um langa tíð haft þá stefnu sem er stefna Íslands í öryggis- og varnarmálum og utanríkismálum. Hún hefur hvílt á tveimur meginstoðum, aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfi við Bandaríkin og því að sameiginlegt gildismat ásamt hugsjónum lýðræðis og mannréttinda myndi hina þriðju stoð. Smáríki eins og Ísland eru mjög háð því og eiga allra ríkja helst hag sinn undir því að alþjóðalög séu virt og að þjóðir leysi deilumál sín friðsamlega. Eins eru það hagsmunir okkar, smáríkja, að stuðla að alþjóðlegri samvinnu til að mæta þeim ógnum sem virða hvorki landamæri né leikreglur alþjóðakerfisins.

Forustumenn Framsóknarflokksins hafa sýnt hugrekki á liðnum árum og áratugum í að heimsækja þetta svæði og leita lausna, tala við fólk, þá fyrstur manna Steingrímur Hermannsson. Við sýnum hugrekki hér í dag (Forseti hringir.) með því að samþykkja þessa tillögu og eigum að halda áfram á þeirri braut.