138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:34]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Stundum er tilveran mótsagnakennd. Ráðist er á skipalest á leið með hjálpargögn til Gaza. Um borð eru 700 manns: Friðarsinnar, nóbelsverðlaunahafi, þingmenn, nokkrir eru drepnir, milli 10 og 20 manns. Einhverjir tugir slasast. Er verra að drepa nóbelsverðlaunahafa eða þingmann frá Evrópu en lítið barn í Gaza? Nei. Þar erum við komin að hinu mótsagnakennda í tilverunni.

Ég held að þessi svívirðilegi glæpur geti snúist upp í andhverfu sína og það er okkar hlutverk að snúa honum upp í andhverfu sína, í stórsókn fyrir mannréttindi á Vesturbakkanum, Gólanhæðunum og á Gaza-svæðinu.

Helmingi fleiri voru drepnir í upphafi síðasta árs í árásinni á Gaza en voru um borð í friðarskipunum. En þeir sem þar áttu hlut að máli og aðstandendur litlu barnanna eiga erfiðara um vik að koma sannleikanum á framfæri en fréttamennirnir og þingmennirnir sem voru um borð í skipinu. Þess vegna held ég að þrátt fyrir allt, þótt ég harmi dauðsföllin og slysfarirnar, að þessi atburður eigi eftir að verða til góðs vegna þess að nú verður ekki þagað lengur.

Ég vil færa hæstv. utanríkisráðherra þakkir fyrir viðbrögð hans við þeirri ályktun sem samþykkt var í utanríkismálanefnd Alþingis af hálfu meiri hlutans þar (Forseti hringir.) og ég vil fullvissa hv. þm. Einar K. Guðfinnsson um að það er styrkur fyrir ríkisstjórnina, það er styrkur (Forseti hringir.) fyrir utanríkisráðherrann að ganga til viðræðna við önnur ríki og aðrar þjóðir með þessa ályktun frá Alþingi Íslendinga.