138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er engin þjóð í öllum heiminum sem sætir jafnmikilli kúgun og Palestínumenn sæta í dag af hálfu Ísraela. Það er engin þjóð sem hefur sætt jafnlangvarandi kúgun, a.m.k. ekki síðustu 100 árin, og einmitt það ágæta fólk. Okkur ber skylda til þess að sýna því stuðning eins og við getum. Við höfum sjálf kvartað undan því á umliðnum missirum að við höfum fundið fyrir hrammi voldugra stjórþjóða.

Ég held að ályktun af þessu tagi skipti máli. Það skiptir máli þegar voldug þingnefnd í einu þinga lýðræðisríkjanna tekur til máls með þeim hætti sem meiri hluti utanríkismálanefndar gerði með ályktun sinni. Alveg eins og ég tek undir að það skipti máli þegar formaður Framsóknarflokksins á sínum tíma, Steingrímur Hermannsson, fór fyrstur vestrænna þjóðarleiðtoga eða forsætisráðherra til fundar við útlagastjórn PLO og hitt Arafat í Túnis fyrir réttum 20 árum. Það er vel við hæfi að á 20 ára afmæli þeirrar farar skuli utanríkisráðherra Íslands fara í föruneyti alþingismanna á Gaza, eins og ég hafði ákveðið a.m.k. fyrir mína parta.

Ég tel þess vegna að það skipti verulega miklu máli að við tökum með þessum hætti til orða. Hótun um stjórnmálaslit skiptir máli. Við þurfum hins vegar að skoða þetta mjög vel og af yfirveguðu máli og ekki láta tilfinningahita augnabliksins ráða niðurstöðu ákvarðana okkar. Við þurfum að gera það í samráði við aðrar þjóðir líka. Við þurfum, eins og áhersla er lögð á í ályktuninni, að meta í samvinnu við aðrar þjóðir hvaða úrræði eru best. Þess vegna hafna ég þeirri túlkun hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að í þessu felist fortakslaus skilyrðing um að stjórnmálasambandi verði slitið. Ég tel reyndar að önnur úrræði væru áhrifaríkari. Af því tvennu sem nefnt er í ályktuninni, viðskiptaþvinganir og slit stjórnmálasambands, tel ég að hið fyrra sé miklu áhrifaríkara, en við verðum líka að gera það með þeim hætti að það bitni ekki á þeim sem síst skyldi.

Svo vil ég að lokum þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalega (Forseti hringir.) þátttöku í þessari umræðu. Mér þykir líka vænt um að Sjálfstæðisflokkurinn lýsti því fortakslaust yfir að hann styður frjálsa og fullvalda Palestínu. (Forseti hringir.)