138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

upplýsingar um eignarhald nýju bankanna.

[14:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Undanfarna mánuði hefur maður gengið undir manns hönd til þess að reyna að afla upplýsinga um hverjir séu hinir raunverulegu eigendur nýju bankanna okkar. Það hefur verið kallað eftir þessum upplýsingum hvaðanæva að og engin svör borist. Sennilega hafa menn verið að umorða snjallasta frasa nútímastjórnmála og litið þannig á að um þessi mál eigi að ríkja ógagnsæ sjálfbærni, alla vega hafa þessar upplýsingar ekki borist okkur almenningi eða þingmönnum í landinu.

Til þess að reyna að varpa frekara ljósi á þetta mál lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra 28. apríl sl. sem hefur ekki enn verið svarað. Nú erum við hins vegar að fara að afgreiða hér lög um fjármálafyrirtæki og auðvitað væri mjög mikilvægt að þau mál sem hér er fjallað um skýrist áður en málið verður endanlega afgreitt héðan frá Alþingi. Það styttist í að þingtímanum ljúki. Við erum hér vitni að sérkennilegustu einkavæðingu mannkynssögunnar þar sem vitað er hver seldi en ekki fæst uppgefið hver keypti. (Forseti hringir.) Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé hægt að ganga eftir því við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að þessari einföldu fyrirspurn (Forseti hringir.) verði svarað þannig að þær upplýsingar liggi fyrir við meðferð málsins í nefnd sem fær málið til meðhöndlunar nú á eftir.