138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

upplýsingar um eignarhald nýju bankanna.

[14:57]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Fyrr í dag varð hv. þingmönnum Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Ólínu Þorvarðardóttur og Þórunni Sveinbjarnardóttur tíðrætt um breytt vinnubrögð í þinginu og kölluðu eftir betri vinnubrögðum og öðru tungutaki en hér hefur tíðkast.

Ég hef tekið eftir því að vinnubrögðin hér á þinginu hafa breyst töluvert á síðustu mánuðum og síðasta ári. Sú breyting felst í því að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar svara ekki þeim spurningum sem stjórnarandstaðan beinir til þeirra. Það þekki ég á mínu eigin skinni. En að hæstv. ríkisstjórn geti ekki upplýst þingmenn um hverjir það voru sem eignuðust Íslandsbanka og Arion banka í kjölfar einkavæðingar þeirrar, sem hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon stóð fyrir (Forseti hringir.) í skjóli myrkurs er auðvitað ekki boðlegt (Forseti hringir.) okkur þingmönnum. Þessu verður að breyta, frú forseti.